Varmaland Breytingar í samfélaginu kalla á nýjar útfærslur í skólastarfi.
Varmaland Breytingar í samfélaginu kalla á nýjar útfærslur í skólastarfi. — Morgunblaðið/Theódór Kr. Þórðarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson Birna G. Konráðsdóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

Birna G. Konráðsdóttir

„Stjórnsýslan í þessu máli er óvönduð og sveitarstjórnin hér í Borgarbyggð hefur leikið tveimur skjöldum,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir á Glitstöðum í Norðurárdal. „Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar sögðu fulltrúar Framsóknarflokksins, sem náði hreinum meirihluta hér í Borgarbyggð, að áfram yrði starfræktur grunnskóli á Varmalandi en nota ætti kjörtímabilið í að skoða heildstætt framtíðaruppbyggingu og eða endurbætur skólahúsnæðis. Hafi sú skoðun farið fram hefur það verið án vitneskju okkar íbúanna. Nú hefur annað komið á daginn og virðist sem lokun hafi alltaf verið fyrirætlunin.“

Efsta stig í aðra skóla

Óánægja er meðal íbúa í uppsveitum Borgarfjarðar með þau áform sveitarstjórnar að gera breytingar á skólahaldi að Varmalandi í Stafholtstungum. Fyrir liggur að starfsemi á efsta stigi grunnskólans, það er 8.-10. bekk, verði hætt þegar yfirstandandi skólaár er úti. Þeir nemendur fari frá og með næsta vetri í skólana á Kleppjárnsreykjum og í Borgarnesi. Hugsanlegt er að söm verði raunin með miðstigið, það er 5.-7. bekk. Endanleg ákvörðun um slíkt verður tilkynnt fljótlega.

Á fimmtudagskvöld var haldinn fundur að Varmalandi með foreldrum nemenda í grunnskólanum þar sem áform sveitarfélagsins voru rædd og reifuð. Upplegg fyrirhugaðra breytinga er að færa starfsemi leikskólans á Bifröst yfir í Varmaland. Þar ræður að nýlega kom upp mygla í eldri hluta leikskólahúsnæðisins á Bifröst og þarf að gera ráðstafanir af þeim sökum. Á fundinum var tilkynnt að loka ætti leikskólanum og taka undir hann þrjár kennslustofur í skólahúsnæðinu á Varmalandi.

Veikir stöðu Bifrastar

Þeir foreldrar sem rætt var við eru óhressir með þessa ráðstöfun alla. Þeir segja rök sveitarstjórnar þau að á þennan hátt sé verið að auka þjónustuna og festa Varmaland í sessi. Íbúum í Norðurárdal finnst sumum hins vegar að með þessum ráðstöfunum sé verið að kippa stoðunum undan búsetu barnafólks á Bifröst á sama tíma og raunverulega þyrfti að vera að byggja svæðið aftur upp. Raunar hefur margt breyst að undanförnu á Bifröst, en starf háskólans þar er nú að mestu komið í fjarkennslu og byggingar þar standa margar auðar, þar á meðal íbúðarhúsnæði.

„Núna búa um 300 manns á Bifröst, fólk frá Úkraínu að stórum hluta,“ segir Guðrún á Glitstöðum. „Leikskólabörnin þarna eru rúmlega 20. Fari fram sem horfir þurfa foreldrarnir að keyra börnin að og frá Varmalandi dag hvern en þarna á milli eru 19 kílómetrar. Þetta er til þess fallið að veikja mjög stöðu Bifrastar sem gæti verið öflugur kjarni hér í Borgarfirði ef rétt er að málum staðið. Með breytingum á grunnskólastarfi á Varmalandi, ef nemendum sem komnir eru á mið- og efsta stig verður tvístrað í aðra grunnskóla hér í sveitarfélaginu, er slíkt vont fyrir börnin og brýtur tengslin milli þeirra. Þetta er stórmál fyrir okkur íbúana hér í Norðurárdal og á nærliggjandi svæðum. Ég tel því mikilvægt að boðaður verði íbúafundur um málið, þar sem öll sjónarmið þurfa að koma fram.“

Nemendum af erlendum uppruna verði mætt

Stefán Broddi Guðjónsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, segir tilefni fundarins að Varmalandi í vikunni hafa vikið að því hvort breytingar skyldu gerðar á grunnskólahaldi þar. Áform séu um, eins og að framan greinir, að 8.-10. bekkur, með 13 nemendum nú, verði sameinaðir öðrum grunnskólum í sveitarfélaginu. Enn sé óráðið hvað gert verði með 5.-7. bekk, en fundurinn með foreldrum hafi verið innlegg í þá ákvarðanatöku en samtals eru 15 nemendur á miðstigi á Varmalandi.

„Markmið okkar með fyrirhuguðum breytingum er að tryggja nemendum bestu mögulegu menntun og í samræmi við aðalnámskrá. Slíkt getur verið áskorun; stærstur hluti grunnskólanemenda að Varmalandi er af erlendum uppruna. Kennslan þarf að taka mið af því og slíkt verður ef til vill best gert í stærri skóla þar sem hægt er að mæta nemendum á ólíkum forsendum,“ segir Stefán Broddi.

Leikskólinn á Bifröst er rekinn í samvinnu við Hjallastefnuna og nauðsynlegt er að gera breytingar á húsakosti þar. Að færa starfsemina yfir á Varmaland er þar nærtækur kostur og mætir góðum skilningi, að mati sveitarstjórans. Vinna stendur yfir við hönnun húsnæðisins þannig að vel fari um leik- og grunnskóla. Flutningur miðstigs af Varmalandi hefur samt aldrei verið forsenda þess að reka megi leikskóla og miðstig í sama húsnæðinu. Það kom skýrt fram á fundinum. „Þetta snýst um faglegt skólastarf fyrir börn í sveitarfélaginu í samræmi við kröfur sem gerðar eru í aðalnámskrá,“ segir sveitarstjórinn í Borgarbyggð.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson