Svíþjóð Varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir á 26 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Hún er þriðji Íslendingurinn á mála hjá Kristianstad.
Svíþjóð Varnarmaðurinn Guðný Árnadóttir á 26 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. Hún er þriðji Íslendingurinn á mála hjá Kristianstad. — Ljósmynd/kdff.nu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Tilfinningin er mjög góð. Ég er mjög spennt fyrir þessu. Þetta gerðist allt frekar hratt en ég er mjög ánægð með þetta,“ sagði Guðný Árnadóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið

Fótbolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Tilfinningin er mjög góð. Ég er mjög spennt fyrir þessu. Þetta gerðist allt frekar hratt en ég er mjög ánægð með þetta,“ sagði Guðný Árnadóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.

Guðný, sem er 23 ára bakvörður og miðvörður, skrifaði á miðvikudag undir tveggja ára samning við Íslendingafélagið Kristianstad, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Kemur hún frá ítalska stórveldinu AC Milan, þar sem Guðný lék um þriggja ára skeið.

„Ég er bara nýkomin þannig að það er svolítið mikið að gera þessa fyrstu daga. Ég er kannski ekki alveg búin að slaka á og átta mig á að þetta sé að gerast en ég er búin að fara á eina æfingu og líst mjög vel á þetta,“ sagði hún.

Guðný lék með Val og FH hér á landi og með Napoli á láni fyrsta hálfa árið hjá AC Milan. Hjá Kristianstad hittir hún fyrir Hlín Eiríksdóttur og Kötlu Tryggvadóttur.

Mjög fljótt að gerast

„Þetta var mjög fljótt að gerast en ég vissi af áhuga og því var þetta bak við eyrað í smá tíma.

Þessi ákvörðun var tekin á skömmum tíma en ég vissi samt alltaf að þetta væri eitthvað sem heillaði mig. Þetta var bara ákveðið og ég var komin,“ sagði Guðný um stuttan aðdragandann að félagaskiptunum.

Undanfarnar vikur hafði hún lítið sem ekkert komið við sögu hjá AC Milan eftir að hafa verið í stóru hlutverki stærstan hluta dvalar sinnar.

Staða sem ég vildi ekki vera í

Varstu farin að hugsa þér til hreyfings frá AC Milan?

„Ekkert endilega. Kannski eitthvað smá, ég var búin að vera lengi þarna. Síðustu vikur var ég farin að hugsa það. Ég fékk ekki að spila eins og ég vildi og fannst ég eiga skilið.

Þetta var komið í stöðu sem ég vildi ekki vera í þannig að ég hugsaði að það gæti verið gott að fara eitthvað annað.

Kristianstad hafði áhuga á að fá mig og ég gat farið þangað til að bæta mig í öðrum hlutum, þar sem eru aðrar áherslur. Að ég gæti breytt aðeins til miðað við hvernig þetta var búið að vera síðustu vikurnar,“ sagði Guðný.

Allt frekar skrítið

Spurð hvort hún hefði fengið einhverjar skýringar á þverrandi spiltíma að undanförnu sagði Guðný:

„Já, en samt ekki beint. Þetta var allt frekar skrítið. Mér fannst ég vera að gera allt til þess að eiga að fá að spila eitthvað. Það eru reglur í ítalska boltanum um að það megi bara vera tíu útlendingar í hóp.

AC Milan var ekki mikið að pæla í því og keypti bara fleiri og fleiri útlendinga. Þetta var kannski ekki alltaf alveg sanngjarnt eins og þetta var. Þetta var ekki alveg útpælt hjá þeim.“

Kem aðallega sem bakvörður

Hún er fjölhæfur varnarmaður, en er búið að fara yfir það með Guðnýju hvar Kristianstad hugsar hana á vellinum?

„Ég kem eiginlega sem bakvörður, ég hef mestmegnis spilað þar síðustu ár. En ég bý yfir þeim eiginleika að geta leyst miðvarðarstöðuna.

Það eru rosalega góðir þjálfarar hérna og klókir og ég sé að þeir munu sjá hvað hentar vel í hvaða leik. Ég hugsa að ég geti leyst hvort tveggja en ég kem aðallega sem bakvörður,“ sagði Guðný.

Hún vonast til þess að bæta sig á ýmsum sviðum hjá nýju liði.

Meira persónumiðað í Svíþjóð

„Ég er búin að vera í smá tíma á Ítalíu og breytingar skora á mann. Maður bætir sig þannig. Svo er ég að prófa nýja deild sem er taktískt öðruvísi en á Ítalíu og frekar ólík.

Ég mun prófa nýja staði og sterka deild sem er alltaf rosalega jöfn og samkeppnishæf, alltaf mikil keppni alls staðar.

Það eru mörg sterk og góð lið. Mér líst mjög vel á félagið og þjálfarana. Þetta er kannski meira persónumiðað, meira verið að hjálpa manni persónulega að bæta sig.

Manni er tekið opnum örmum þegar kemur að því hvað maður vill bæta. Þetta er ný deild og öðruvísi áskoranir,“ sagði Guðný að lokum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson