Hálendi Íslands Miklum snjó hefur kyngt niður í vetur sem eru góðar fréttir. Hér er horft til norðausturs frá Jökulheimum yfir Jökulgrindur þar sem Tungnaá á upptök sín í Tungnaárjökli. Í fjarska sjást Hágöngur, Bárðarbunga, Hamarinn og Kerlingar snævi þakin. Það styttist í að vorleysingar byrji.
Hálendi Íslands Miklum snjó hefur kyngt niður í vetur sem eru góðar fréttir. Hér er horft til norðausturs frá Jökulheimum yfir Jökulgrindur þar sem Tungnaá á upptök sín í Tungnaárjökli. Í fjarska sjást Hágöngur, Bárðarbunga, Hamarinn og Kerlingar snævi þakin. Það styttist í að vorleysingar byrji. — Ljósmynd/Andri Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Heilt yfir er snjóstaða nokkuð góð á hálendi Íslands. Það eru góðar fréttir fyrir orkubúskapinn.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Heilt yfir er snjóstaða nokkuð góð á hálendi Íslands. Það eru góðar fréttir fyrir orkubúskapinn.

Vatnsstaða í lónum Landsvirkjunar er lág og eins og fram hefur komið í fréttum hefur Landsvirkjun neyðst til að grípa til skerðinga á raforku til stórnotenda á landinu.

Snjór er nærri eða yfir meðalári, sérstaklega á vatnasviðum sunnanlands, en lítillega undir meðalári fyrir austan og norðan, segir Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.

„Gera má ráð fyrir vorleysingum nærri eða yfir meðaltali þegar vorið nálgast okkur en svo mun koma í ljós í sumar hvernig jökulleysing tekur við sér varðandi fyllingu lóna.“

Öflugt net mælistöðva

Landsvirkjun rekur mikið net mælistöðva sem gefa innsýn í raunstöðu og þróun snjóforða á öllum sínum helstu starfssvæðum en einnig eru gerðar sérstakar snjómælingar sem hjálpa til við að meta magn vatns bundið í snjó á hverjum tíma. Eftir mjög þurrt haust hófst snjósöfnun á hálendinu eftir miðjan desember og nokkrar góðar lægðir hafa gefið vel af snjó.

Söfnun vatns í miðlunarlón ræðst fyrst og fremst af þróun jökulleysingar og úrkomu í sumar og haust, upplýsir Ragnhildur.

Vorleysingar hjálpa til við að snúa niðurdrætti lóna við en ekki er hægt að horfa fram hjá því að grunnvatnsstaða á vatnasviðum Þórisvatns og Tungnaár er lág um þessar mundir. Það útskýrist fyrst og fremst af lítilli sumar- og haustúrkomu nokkur ár í röð en þá verður takmörkuð endurhleðsla þessara kerfa, sem eru lykilrennslisþáttur á vatnasviðum á Þjórsársvæði.

Staðan í vatnsbúskapnum í haust leiddi til þess að Landsvirkjun tilkynnti um skerðingar á víkjandi orku frá 1. desember. Frá og með miðjum janúar var afhending orku til stórnotenda á suðvesturhorninu skert. Þann 8. febrúar tilkynnti Landsvirkjun svo um skerðingar á Norður- og Austurlandi til að verja vatnsstöðuna í Blöndulóni og Hálslóni.

Hlýindi í síðustu viku hafa heldur bætt horfurnar í vor fyrir vatnsstöðuna, en ekki þó þannig að forsendur séu til að afturkalla skerðingar að sinni. Búast má við að þær standi eitthvað fram á vorið, eða þangað til vorleysingar byrja. Allar líkur eru á að Blöndulón og Hálslón fyllist í haust, en minni líkur á að Þórisvatn fyllist, segir Ragnhildir.

Á vef Landsvirkjunar er hægt að fylgjast með stöðu lóna í rauntíma. Þar má sjá að staðan í öllum lónum er lakari en í fyrra og vel undir meðaltali.