Dánaraðstoð er varhugaverð

Umræður á Alþingi eru til allrar hamingju sjaldan upp á líf og dauða. Um það er þó að tefla varðandi svonefnda dánaraðstoð, sem tvö þingmál liggja fyrir um.

Þar ræðir um helgi mannslífsins og sjálfsákvörðunarrétt, en erfiðari siðferðisleg álitaefni koma vart til kasta löggjafans. Allir, sem þekkja til ólæknandi sjúkdóma og átakanlegs dauðastríðs, vita að markmiðið er líkn.

Það breytir ekki því að afleiðingarnar geta orðið aðrar og fara verður fram af ýtrustu varúð um aðkomu yfirvalda að ákvörðunum um líf og dauða borgaranna. Þar mega ekki vera nein grá svæði.

Vandinn er að slík lög mæla fyrir um matskenndar ákvarðanir og skilja óhjákvæmilega eftir grá svæði. Því eru líka höfð ströng skilyrði og varnaglar. Samt er reynslan í löndum, sem leyfa dánaraðstoð, öll á eina leið; allar slíkar varnir hafa bilað og „rétturinn til dauða“ víkkað út.

Skýrasta dæmið er í Kanada. Lög um dánaraðstoð frá 2016 náðu upphaflega aðeins til dauðvona fólks, en fyrr en varði var dánaraðstoð í boði fyrir fátæka, fatlaða og örvæntingarfullt fólk, sem ekki á kost á heilbrigðisaðstoð til þess að lifa bærilegu lífi. Til stendur að bjóða geðsjúkum þessa „lausn“ árið 2027 og tillögur um að hana megi veita 12 ára börnum.

Þessi útþensla á viðmiðum dánaraðstoðar virðist alls staðar vera raunin og um það eru ýmis uggvænleg dæmi líkt og frá Kanada og Hollandi, þar sem einhverfir hafa fengið dánaraðstoð, þó ekkert annað ami að þeim og fjölskyldur þeirra hafi lagst gegn henni.

Lífið er ekki þjáningalaust og endar allt á einn veg, en það er annarlegt þegar ríkið býður dauðann sem svar við lífsins þrautum.