Sveinn Ragnarsson fæddist í Hafnarfirði 16. mars 1966. Hann lést í Reykjavík 9. júlí 2023.

Foreldrar hans eru Erla Þórðardóttir, f. 10. nóvember 1933, og Ragnar Sveinsson, f. 7. mars 1932, d. 2. janúar 2012.

Systkini Sveins eru í aldursröð: Fríða, Þórður Axel, Elísabet og Ragnhildur, öll fædd á Siglufirði.

Útför Sveins fór fram í kyrrþey.

Hammó með ammó!

Þessa nettu afmæliskveðju sendi Sveinn Ragnarsson gjarnan til facebook-vina sinna þegar við átti og kallaði hún vafalaust fram bros og minningar um góðan dreng.

Hann sendir hana ekki framar.

Svenni bróðir lést 9. júlí 2023 eftir alvarleg veikindi og var kvaddur í kyrrþey að viðstöddum sínum nánustu.

Svenni fæddist í Hafnarfirði 16. mars 1966, og hefði því orðið 58 ára í dag.

Hann stundaði grunnskólanám í Öldutúnsskóla og síðar í Iðnskólanum í Hafnarfirði, vann í Bátalóni og Eimskip á sumrin á sínum ungdómsárum og síðar varð Eimskip vinnustaður hans allt til dánardags.

Segja má að það hafi verið hans fasti punktur í tilverunni og var hann afskaplega trúr sínu starfi, vel liðinn og bar vinnustaðnum og samstarfsfólki vel söguna.

Svenni var mikill áhugamaður um kvikmyndir og safnaði vídeóspólum og mynddiskum sem hann naut að horfa á, vitna í og rifja upp hverjir léku hvar, leikstýrðu eða sáu um tæknibrellur og þýddi jafnvel texta til að auðvelda öðrum áhorf.

Þá var hann afar liðtækur með pensilinn og spray-tæknina, en meðfram starfi sínu gerði hann fjölmörg auglýsingaskilti; bæði fyrir kvikmyndahúsin og önnur fyrirtæki, áður en stafræna byltingin leysti slíkt handverk af hólmi.

Tók hann myndir af skiltunum og safnaði í albúm og er það dýrmætur minningararfur.

Svenni eignaðist ekki börn en naut þess að sprella með systkinabörnum sínum, gefa þeim gjafir og gleðjast með áföngum þeirra í lífinu, enda með afbrigðum hjartahlý og góð sál sem hugsaði yfirleitt meira um aðra en sjálfan sig.

Hann kynntist ástinni sinni; Þorbjörgu Rögnvaldsdóttur; Tobbu. Bjuggu þau saman í um tíu ár og var gifting í bígerð þegar Tobba veiktist og náði sér aldrei eftir það. Hún lést 11. apríl 2007.

Við það dapraðist lífsviljinn og frumkvæði til margra hluta en hann tók þó þátt í flestu því sem honum bauðst og ávallt var vinnan í fyrirrúmi.

Svenni fékk áhuga á golfíþróttinni um tíma og var vel liðtækur með kylfuna, en heilsunni hrakaði ört á síðustu árum og var lítill vilji til að ráða bót á henni þrátt fyrir hvatningu, velvilja og áhyggjur fagaðila, ættingja og samferðafólks.

Flest sunnudagskvöld var honum boðið í mat til mömmu sinnar eða honum uppálagt að mæta með pizzu eða annað fljótlegt. Þau fóru í bíltúra saman, heimsóknir til heldri borgara, skoðuðu markverða hluti, nutu leiksýninga og horfðu margoft á gamlar myndir í sjónvarpinu, náttúrulífsmyndir og annan fróðleik sem hægt var að ræða um. Mamma var einfaldlega best.

Það ber að þakka starfsfólki öllu á Borgarspítalanum fyrir gæskuríka umönnun og fagmennsku á síðustu stundum Sveins Ragnarssonar, einnig öllu því frábæra fólki sem leita þarf til vegna útfarar en þeim er öllum einkar lagið að gera þessa nauðsynlegu hluti léttbærari fyrir aðstandendur.

Við sem kvatt höfum góðan dreng, sem snerti samferðafólk sitt með ljúfmennsku og hlýju, ætlum að muna allar góðu stundirnar sem við nutum með Svenna og þakka fyrir okkur. Elsku Svenni. Hammó með ammó!

Fríða systir og
fjölskyldan þín.

Elsku Svenni frændi.

Hann var aðeins sjö árum eldri þótt mér hafi alltaf fundist ég verið pínulitla frænka hans. Við kynntumst vel þegar ég var í pössun hjá ömmu og leit ég upp til þessa hæfileikaríka, listræna og skemmtilega frænda míns.

Hann var flottasti unglingurinn í Suðurbænum, minnti helst á Superman, vöðvastæltur með dökkt hár og lokk fram á ennið. Í gömlu sundhöllinni stakk hann sér alla leið úr glugganum út í laugina og stelpurnar horfðu agndofa á.

Hann var alltaf hörkuduglegur í vinnu en þegar hann átti sumarfrí þá kom hann í heimsókn og spjallaði lengi, jafnvel þótt við hefðum ekki alveg eins mikinn tíma. Mikið er ég þó þakklát fyrir þessar stundir.

Hann var mikilvægur hluti af fjölskyldunni og í öllum veislum var gert ráð fyrir Svenna frænda, jafnvel þótt öðrum systkinum væri ekki boðið. Svenni var bara fastur punktur í boðum og hann elskaði líka kræsingarnar.

Hann var stór og mikill maður en af einhverjum ástæðum valdi hann sér að keyra um á minnstu gerð bíla sem ég hef séð og þeir voru hver öðrum ljótari. Fiat Multipla ef ég man rétt og seinna meir pínulitlum Aygo sem hann rúntaði á. Hann tróð golfsettinu í skrjóðinn þegar hann byrjaði í því sporti og það var yndislegt að sjá hann blómstra í golfinu þó ekki nema fyrir nokkur ár og bauð hann eldri syni mínum oft með. Svo var merkilegt hvað hann kom mörgum pokum af tómum gosflöskum í þennan litla bíl sem hann leyfði frændum og frænkum að selja.

Við Svenni tengdumst órjúfanlegum böndum í gegnum listina en hann málaði bíóskilti fyrir bíóhúsin í nokkur ár. Þetta var fyrir tíma stafrænnar tækni og hann var fenginn til að mála bíóauglýsingar á risastórar plötur sem hann teiknaði upp með hjálp myndvarpa. Síðan var málað og hékk skiltið uppi meðan myndin var í sýningu en þá var það tekið niður, málað yfir plötuna og byrjað á þeirri næstu.

Ég hjálpaði honum stundum og var hann óspar á hrósin, sérstaklega fyrir mynd af Robocop. Við unnum nefnilega ekki alveg eins, hann byrjaði á grunnlitum og hlóð svo á skuggum og smáatriðum en ég málaði meira eins og litaprentari og það fannst honum svo merkilegt.

Svenni var einfari, vann, elskaði bíómyndir og var gangandi alfræðiorðabók þegar kom að leikurum, myndum, handritum og leikstjórum. Hann átti stórt safn af vídeóspólum sem við fengum oft lánaðar með tilheyrandi fróðleik.

Krakkarnir mínir nutu góðs af einstakri gjafmildi Svenna þegar kom að gjöfum. Stundum gaf hann peninga, málverk eftir sig sjálfan sem hann hafði eytt mörgum klukkutímum í, vídeóspólur eða gjafir sem hann valdi með aðstoð ömmu.

Hann var barngóður, bjó til andarhljóð með munninum, grínaðist út í eitt og hefði orðið yndislegur pabbi. En lífið getur verið æði óréttlátt og hans handrit var skrifað með öðrum endi.

Hann lést eftir stutt veikindi og málar nú myndir í skýjunum með henni Tobbu sinni og afa Ragga sem kvaddi einnig fyrir nokkrum árum.

Elsku Svenni skilur eftir sig stórt skarð, ljúfur og vinnusamur og elskaði líklega flesta meira en sjálfan sig. Hvíldu í friði kæri frændi.

María Krista
Hreiðarsdóttir.