Hrollvekjur Að hlusta á mannfórnir er mergjað.
Hrollvekjur Að hlusta á mannfórnir er mergjað.
„Að horfa á myndband er góð skemmtun. Þetta myndband er bannað börnum innan 16 ára. Foreldrar og forráðamenn barna og unglinga eru vinsamlegast beðnir að virða aldurstakmarkið. Góða skemmtun!“ Svohljóðandi var aðvörun Kvikmyndaeftirlits ríkisins hér …

Lára Fanney Gylfadóttir

„Að horfa á myndband er góð skemmtun. Þetta myndband er bannað börnum innan 16 ára. Foreldrar og forráðamenn barna og unglinga eru vinsamlegast beðnir að virða aldurstakmarkið. Góða skemmtun!“

Svohljóðandi var aðvörun Kvikmyndaeftirlits ríkisins hér áður fyrr og jafnaldrar mínir, nú miðaldra fólk, kunna líklegast utan að, svo oft rann myndskeiðið fyrir sjónum þeirra sem stunduðu vídeóleigurnar grimmt. Síðan eru liðin „nokkur“ ár, mæld í hafsjó af gerviblóði, skipsförmum af byssukúlum og óteljandi blóðþyrstum, tannhvössum uppvakningum sem börnunum skyldi forðað frá svo ekki hlytist af sálarskaði.

Ég komst, að ég tel, ósködduð frá myndbandasukki unglingsáranna. Öðru máli gegnir um það sem í dag er orðinn fastur liður hjá mér fyrir svefninn – að setja á kósí hlaðvarp um það sem réttilega kallast „morð og ógeð“ – mér skilst að miðaldra konur séu sérlega mikið fyrir hrollvekjandi morðmál. Mér varð það á eitt sinn að gleyma að takmarka spilunartímann við einn þátt. Þar sem ég lá steinsofandi, örugg í bólinu, fór undirmeðvitundin að leggja við hlustir og vakti mig með andfælum. „Hvað ER ég að hlusta á?“ Jú, þar fóru mergjaðar lýsingar í smáatriðum, enginn afsláttur veittur, á mannfórnum og mannáti sem sérstrúarsöfnuður í Mexíkó stundaði seint á níunda áratugnum. Nei, takk, ég er södd!