Hér áður fyrr nægði manni heimasími og símaskrá. Nú geta allir tjáð sig alls staðar og maður er stöðugt að frétta meira en maður kærir sig um.
Hér áður fyrr nægði manni heimasími og símaskrá. Nú geta allir tjáð sig alls staðar og maður er stöðugt að frétta meira en maður kærir sig um. — Morgunblaðið/Ásdís
Margir eru nánast andlega uppgefnir á því að vera á samfélagsmiðlum þar sem skoðanir annarra eru stöðugt að gera þeim lífið leitt.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Það er mikil guðs blessun að vera ekki á samfélagsmiðlum. Við það skapast nær algjört frelsi þar sem er engin tilkynningarskylda um hvað maður sé að gera, hvaða fólk maður hittir, hvað maður kaupir eða hvað maður sé að hugsa. Það er óhugsandi að afsala sér þessu frelsi.

Oft heyrist sagt að vilji maður vita hvað sé að gerast í umhverfinu þá verði ekki hjá því komist að vera á þessum miðlum. En er það virkilega svo að eitthvað óskaplega mikið fari framhjá manni vegna þess að maður neitar að gangast samfélagsmiðlum á vald? Sannleikurinn er sá að maður er stöðugt að frétta mun meira en maður kærir sig um.

Vitanlega vill maður vera upplýst manneskja og vita hvað er að gerast í heiminum og leitar því upplýsinga á netmiðlum fjölmiðla. Þetta er leit að alvöru fréttum, sem týnast samt iðulega innan um alls kyns fréttir sem æpa á mann en erfitt er að tengja við. Jákvæðu fréttirnar af þessu tagi byggjast aðallega á því að segja lesendum að miklir peningar, fallegt útlit, ferðalög og alls kyns útstáelsi skipti gríðarmiklu máli í lífinu, skapi nánast fullkomna hamingju.

Þannig er stöðugt verið að sýna myndir úr lífi svokallaðra áhrifavalda, sem allir líta eins út og klæða sig nákvæmlega eins, og virðast allra helst ekki vilja vera heima hjá sér. Þeir eru á stöðugum ferðalögum um heiminn og kaupa sér fremur ófrýnilegar hálfrar milljónar króna Louis Vuitton-töskur og aðra fylgihluti sem eiga að fullkomna ímyndina. Áhrifavaldar eyða miklum tíma í að taka sjálfur sem þeir birta á samfélagsmiðlum og af einhverjum ástæðum þykir mikilvægt og nánast forgangsmál að rassinn sé þar mest áberandi hluti líkamans.

Aðrar fréttir sem eru æði áberandi á netmiðlum eru af nýjustu húsakaupum forríks fólks þar sem stærð eignarinnar er svo gríðarleg að tvær manneskjur týna hvor annarri auðveldlega þar inni. Það getur reyndar verið allmikill plús í ómögulegu hjónabandi þar sem fólk þolir vart hvort annað, en varla var eignin keypt einmitt þess vegna.

Við lestur þessara glansfrétta á venjulegu fólki kannski að finnast að það sé að missa af lífinu af því að það eigi ekki nægilega mikinn pening. En hver trúir því raunverulega að Louis Vuitton-taska fullkomni hamingjuna eða að það sé gæfa fyrir samrýnd hjón að búa í svo stórri eign að þau eigi í erfiðleikum með að finna hvort annað?

Þannig að maður ypptir bara öxlum og hugsar: Mikið getur lífið verið skrýtið og snýr sér að bókinni sem maður er að lesa þá stundina. Blessunarlega þarf maður ekki að vera ríkur til að njóta bóka. Rétt er þó að taka fram að hér er ekki verið að gera lítið úr peningum, það er örugglega alveg ágætt að eiga þá, en það er alveg sérstök kúnst að fara með þá þannig að það sé viðkomandi til sóma.

Svo eru það neikvæðu netfréttirnar sem eru svakalegar og venjulega fremur nákvæm endursögn á reiðilestri biturra einstaklinga á samfélagsmiðlum. Þar eru víst mjög margir önugir og sjá margt að sem þeim finnst ástæða til að gera athugasemd við. Þeir gera það ekki kurteislega, því þá væri hætta á að skoðun þeirra færi framhjá of mörgum. Þeir láta því eftir sér að æpa og öskra í þeirri von að skoðun þeirra verði að frétt á netmiðlum. Það eru yfirleitt yfirgnæfandi líkur á því að svo verði. Óhjákvæmilega gerist það svo að fólk sem er venjulega dagfarsprútt blandar sér í umræðuna og verður skyndilega ógurlega æst og skrifar hluti sem það myndi ekki segja væri það í jafnvægi.

Það er ekki hægt að líta framhjá því að margir eru nánast andlega uppgefnir á því að vera á samfélagsmiðlum þar sem skoðanir annarra eru stöðugt að gera þeim lífið leitt og ofsafull rifrildi brjótast reglulega út. Samt þykir þessu sama fólki nánast óhugsandi að yfirgefa samfélagsmiðlana því að það telur að um leið myndi of margt mikilvægt fara framhjá því.

Sú sem þetta skrifar verður að viðurkenna að það er ótal margt sem hún myndi óska þess að færi framhjá henni. Það bjargar henni mjög að hún er fremur viðutan.