Mér finnst svo skemmtilegt þegar ég fæ að vera með puttana í öllu og setja minn persónuleika í lögin, en ég slæ ekki hendinni á móti að fá geggjað lag upp í hendurnar.

Söngkonan Zara Larsson sló fyrst í gegn tíu ára gömul þegar hún sigraði í sænsku hæfileikakeppninni Sweden’s got talent, eða Talang eins og Svíar kölluðu hana. Nú er hún komin á þrítugsaldur, hefur öðlast heimsfrægð og túrar um heim allan. Zara er nú að fylgja eftir nýjustu plötu sinni Venus og er Ísland síðasti áfangastaðurinn á túrnum. Nú á laugardag fá Íslendingar að njóta tónlistar Zöru í Eldborg í Hörpu. Öllu verður tjaldað til!

Ekki eins og vinna

Zara gaf sér tíma frá stúdíóvinnu til að spjalla við blaðamann í gegnum Zoom, en von var á henni til landsins til að halda tónleikana sem eru á vegum Sena Live. Zara segir alltaf nóg að gera í tónlistinni og skiptir hún tíma sínum á milli tónleikaferðalaga og stúdíóvinnu.

„Þetta er svo skemmtileg og auðveld vinna! Mér líður í raun ekki eins og ég sé að vinna. Ég mæti, syng og dansa á sviði og það er kannski dagsverkið. Auðvitað þarf ég að æfa mig, hitta fjölmiðlafólk og undirbúa tónleika, en ég næ góðu jafnvægi á milli vinnu og frítímans,“ segir hún og segir það eina slæma við poppstjörnulífið er að þurfa stundum að dvelja langdvölum í burtu frá sínum nánustu.

„Stundum missi ég af mikilvægum atburðum í lífi vina og fjölskyldu, en ef það er mjög mikilvægt, þá set ég það í dagbókina og vinn í kringum það.“

Söng fyrir framan spegil

Var alltaf takmarkið frá barnæsku að verða poppstjarna?

„Algjörlega, já! Ég vildi ekkert heitar. Ég vildi verða poppstjarna og skemmta fólki. Ég elska að syngja og eyddi tíu þúsund klukkutímum fyrir framan spegilinn þegar ég var lítil að æfa mig eins og ég stæði á sviði fyrir framan fjöldann. Og geri stundum enn,“ segir hún og hlær.

„Það er skemmtilegast í heimi að þykjast vera á sviði og það eina sem toppar það er að vera raunverulega á sviði. Ég elska það,“ segir Zara og segist aldrei upplifa sviðsskrekk.

„Eina skiptið sem ég verð smá stressuð er þegar ég tala á milli laga og þá er jafnvel gott að hafa æft það áður. Stundum finnst mér að ég þurfi að vera ofsalega fyndin, en oftast reyni ég bara að vera ég sjálf og segi það sem mér liggur á hjarta hverju sinni,“ segir hún og segir að sjálf hafi hún átt nokkur átrúnaðargoð sem ung stúlka.

„Númer eitt var Beyoncé. Ég var kannski níu, tíu ára þegar ég féll fyrir henni. Ég elska konur með stórar raddir. Fyrstu tónleikarnir sem ég fór á voru með Celine Dion og svo elska ég Whitney Houston, Christina Aguilera, Mariah Carey og ég ólst upp við að hlusta á dívurnar sem mamma elskaði; Arethu Franklin og Ettu James.“

Erum hér til að hafa gaman

Hvaða ráð gæfir þú ungum stúlkum sem vilja verða söngkonur?

„Að halda áfram og hafa gaman. Þegar ég var tíu ára setti ég mikla pressu á sjálfa mig og beitti mig hörku. Þetta er ekki svona háalvarlegt; ég mæli með að taka hlutina með ró. Jafnvel í dag hugsa ég um að þetta er bara tónlist og við erum hér til að hafa gaman. Ef ég myndi ekki njóta þess, myndi ég ekki standa í þessu. Ég myndi mæla með að njóta þess að búa til tónlist og passa að hafa gott fólk í kringum sig,“ segir hún og segir að hún hefði mátt lifa betur eftir þessum lífsreglum þegar hún var ung.

Fleiri ráð er Zara með fyrir ungt tónlistarfólk.

„Syngdu lögin sem þú elskar og ekki láta aðra stjórna þér. Vertu nálægt fólki sem trúir á þig og sem finnst þú stórkostleg. Allir gætu í raun orðið stjörnur. Það er fullt af fólki sem nær langt án þess hreinlega að kunna að syngja, en er samt listamenn. Þú þarft bara að trúa á sjálfa þig og láta vaða.“

Zara segist í dag ekki beita sig sömu hörku og þegar hún var barn, enda hafi hún lært af reynslunni.

„Nú er ég á mjög góðum stað og vil bara búa til flottar sýningar. Þetta skiptir mig enn miklu máli að sjálfsögðu, en mér er meira í mun að flytja lög sem mig langar til að syngja og finnst góð.“

Vil vera hluti af öllu listferlinu

Fyrir tveimur árum keypti Zara réttinn að sínum upptökum og stofnaði í kjölfarið eigið plötufyrirtæki.

„Þetta er sjaldgæft tækifæri og fáir sem fá að kaupa réttinn að sínum lögum. Þetta er fjárfesting því tónlist er fjárfesting, en ástæðan fyrir því að ég vildi eiga lögin mín er sú að þau eru „börnin“ mín. Það er góð tilfinning að hafa stjórn á hvað verður gert við þau í framtíðinni, auk þess sem ég fæ meira í vasann,“ segir Zara og segir að plötufyrirtækið sé í raun staður til að geyma eigin tónlist, þó hún útiloki ekki að gefa út aðra listamenn í framtíðinni.

„Í dag er ég að einbeita mér að eigin tónlist,“ segir Zara, en hún semur um 60-70% af lögunum sjálf.

„Ég fæ enn send lög frá fólki sem ég hef unnið lengi með. Það er mér ekkert keppikefli að þurfa að hafa samið öll mín lög og í byrjun samdi ég ekkert sjálf. En því eldri sem ég verð, því meiri metnað hef ég við að semja sjálf. Fyrst vildi ég bara komast á svið og fá að syngja, en nú vil ég vera hluti af öllu listferlinu; að fá að skrifa sjálf lögin, hanna og leikstýra mínum eigin myndböndum og hafa umsjón með danshreyfingunum. Mér finnst svo skemmtilegt þegar ég fæ að vera með puttana í öllu og setja minn persónuleika í lögin, en ég slæ ekki hendinni á móti að fá geggjað lag upp í hendurnar. Það skiptir mig ekki máli; ég á alltaf sjálf upptökurnar,“ segir hún og brosir.

Lofa miklu sjónarspili

Áttu þér uppáhaldslag eftir sjálfa þig?

„Fyrsta lagið sem ég skrifaði með öðrum í stúdíói var Never forget you. Ég elska það lag svo mikið og ég held enn mikið upp á það. Mér finnst svo gaman að flytja það, og talandi um það lag, þá tók ég upp myndband við það hér á landi. Á nýju plötunni er ég hrifnust af Ammunition,“ segir Zara og er spennt að koma til Íslands að skemmta Íslendingum.

„Þetta verður stórkostlegt „show“! Ég kem með stelpurnar mínar, dansara og hljómsveit. Það verður mikið um búningaskipti og ég get lofað miklu sjónarspili og góðri skemmtun. Það verður líka hlýrra en síðast þegar ég kom hingað og hitaði upp fyrir Ed Sheeran sem var utandyra,“ segir hún og brosir.

„Fólk mun skemmta sér vel og ganga út með gleði í hjarta. Og ég mun koma aftur til Íslands!“