Sprunga Jarðskjálftavirkni fyrir eldgosið var lítil og greindist rétt svo.
Sprunga Jarðskjálftavirkni fyrir eldgosið var lítil og greindist rétt svo. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Fyrirvari eldgossins sem hófst á laugardagskvöld var mjög skammur, að sögn Kristínar Jónsdóttur, deildarstjóra á Veðurstofu Íslands. „Það komu fáir mjög litlir skjálftar og þeir náðu aldrei þeirri virkni sem við höfum séð áður

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Fyrirvari eldgossins sem hófst á laugardagskvöld var mjög skammur, að sögn Kristínar Jónsdóttur, deildarstjóra á Veðurstofu Íslands.

„Það komu fáir mjög litlir skjálftar og þeir náðu aldrei þeirri virkni sem við höfum séð áður. Það mældist enginn skjálfti yfir tvo að stærð í aðdragandanum sem í raun sýnir hvað það er búið að þenja þetta svæði mikið, að kvikan þarf ekki að hafa neitt svakalega mikið fyrir því að komast þarna í gegn,“ segir Kristín.

Skjálftarnir hófust við Stóra-Skógfell rétt fyrir klukkan hálfátta, og 55 mínútum síðar hófst eldgosið.

„Við erum með mismunandi viðvörunarþrep og það þrep sem við höfum verið að miða við hingað til var of hátt fyrir þennan atburð. Það er augljóst að við þurfa að fara að lækka þröskulda okkar en þá erum við komin í svo mikla smáskjálfta að við hættum að sjá þá ef það er mjög vont veður,“ segir Kristín.

Rennur einnig til suðurs

Hún segir gosið ekki hafa komið neinum á óvart en að sú litla breyting hafi orðið í þessu gosi að sprungan hafi legið beggja vegna vatnaskila og það hafi haft þær alvarlegu afleiðingar að hraun rennur einnig til suðurs.

„Það eru litlar breytingar á þessari gosopnun sem getur haft mjög dramatískar afleiðingar. Þá þarf að bregðast við á öðrum stöðum,“ segir hún.

Kristín segir að allir hafi verið við því búnir að hraunið gæti farið að renna til suðurs og hún segir að varnargarðarnir hafi svo sannarlega sannað gildi sitt.

Ólíklega vikulangt gos

Mikill kraftur var í eldgosinu við upphaf þess en þegar leið á nóttina dvínaði krafturinn. Fram eftir degi í gær var virknin nokkuð stöðug og fram eftir gærkvöldinu líka.

Kristín kveðst telja ólíklegt að gosið standi yfir í viku eða lengur, en erfitt sé að spá fyrir um goslok á þessum tímapunkti.

Spurð um framhaldið, og hvort þess megi vænta að til tíðinda dragi á Sundhnúkagígaröðinni með fimm til sex vikna millibili líkt og raunin hefur verið síðustu mánuði, segir Kristín að ekki hafi sést neinar breytingar á kvikuinnflæði í Svartsengiskerfið á þessu ári. Á meðan ekki sjáist breytingar á innflæðinu sé staðan sú að yfirvofandi kvikuhlaupsatburðir geti haldið áfram.