Í kjöri Halla Tómasdóttir tilkynnti um framboð sitt í Grósku í gær.
Í kjöri Halla Tómasdóttir tilkynnti um framboð sitt í Grósku í gær. — Morgunblaðið/Óttar
Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. Halla var áður í framboði árið 2016 og hlaut þá 27,9% atkvæða, eða næstflest atkvæði á eftir Guðna Th

Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team, tilkynnti í gær að hún hygðist bjóða sig fram til forseta lýðveldisins. Halla var áður í framboði árið 2016 og hlaut þá 27,9% atkvæða, eða næstflest atkvæði á eftir Guðna Th. Jóhannessyni núverandi forseta.

Halla greindi frá ákvörðun sinni á fjölmennum fundi stuðningsmanna sinna í Grósku í hádeginu, þar sem hún flutti stutta tölu um hlutverk og eðli forsetaembættisins. Sagði hún þar m.a. að farsælum forseta þætti vænt um og skildi mikilvægi hverrar manneskju og hvers byggðarlags okkar einstöku þjóðar, án tillits til pólitískra dægurmála.

Hún fór yfir feril sinn undanfarin ár og mikilvægi þess að leiða gott fólk saman. „Ég þekki vel mátt þess að leiða gott fólk saman til góðra verka. Í okkar röðum eru framsýnir leiðtogar, fólk sem setur mennskuna í forgrunn, gengur á undan með góðu fordæmi og hvetur stjórnvöld jafnframt til að tryggja að leikreglur viðskiptalífs og samfélags séu réttlátar.“

Sagði Halla að ákvörðunin um að bjóða sig fram hefði ekki verið einföld, en að hún tryði því einlægt að Ísland stæði frammi fyrir „spennandi tækifærum í heimi sem leitar nú lausna á sviði friðar, jafnréttis og sjálfbærni“. Hún stæði því auðmjúk og byði fram krafta sína.

Áður höfðu þau Axel Pétur Magnússon, Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Tómas Logi Hallgrímsson og Sigríður Hrund Pétursdóttir tilkynnt um framboð. Þá hafa Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, Eyjólfur Guðmundsson, fráfarandi rektor HA, Jón Gnarr, leikari og fyrrverandi borgarstjóri, og Salvör Nordal umboðsmaður barna tilkynnt að þau muni taka ákvörðun um framboð fyrir eða um páskana. Framboðsfrestur rennur út 26. apríl.