Ólafur Birgir Birgisson fæddist í Reykjavík 6. apríl 1961. Hann lést á heimili sínu á norður Jótlandi 17. febrúar 2024 eftir snarpa baráttu við illvígt krabbamein.

Ólafur er sonur hjónanna Birgis Sigurðssonar, f. 9. apríl 1939, d. 9. september 2020, fyrrverandi stjórnarformanns Hreyfils, og Elínar Pétursdóttur, f. 1940, hjúkrunarfræðings. Ólafur var næst elstur sex systkina sem komust á legg, en elst er Erla Kristín, f. 1960, gift Erling Magnússyni, þá kemur Sigríður Esther, f. 1962, gift Guðjóni Guðjónssyni, Kristinn Pétur, f. 1966, kvæntur Ásdísi Sigrúnu Ingadóttur, Theodor Francis, f. 1967, kvæntur Katrínu Katrínardóttur, og yngst er Elín Birgitta, f. 1976, gift Katli Júlíussyni.

Ólafur lærði rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og meistaranám við rafvirkjun í Tækniskólanum. Árið 1984 flutti hann til Álaborgar til að stunda nám við rafmagnsverkfræði og lauk prófi þaðan árið 1988. Ólafur vann ýmis störf er tengdust rafmagnsverkfræði og varð fljótlega árangursríkur millistjórnandi í stórum fyrirtækjum. Vegna góðs árangurs klifraði hann hratt upp metorðastigann og endaði sem framkvæmdastjóri hjá stóru tölvufyrirtæki sem sérhæfði sig í stjórnun kerfa fyrir orkuveitur. Þá bætti Ólafur við sig mastersgráðu í viðskiptum samhliða fullri vinnu. Síðustu ár Ólafs var hann aðaleigandi öflugs tæknifyrirtækis sem átti viðskiptavini út um alla Danmörk og nágrannalönd. Á námsárum sínum kynntist Ólafur lífsförunauti sínum, Anette Trier Birgisson, f. 1962, leikskólakennara, og gengu þau í hjónaband árið 1988. Í kjölfar þess fluttu þau til Íslands þar sem þau bjuggu í tvö ár. Þau eignuðust fjögur börn sem öll eru búsett á Jótlandi. Julia Trier Birgisson Ringmose, f. 1990, skattalögfræðingur og sérfræðingur í samningum hjá danska hernum. Eiginmaður hennar er Julian Trier Ringmose, tölvunarfræðingur, þau eiga þrjá syni, Mathias Trier Birgisson, f. 1991, sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum og hagfræði, kvæntur Carina Vestergaard Birgisson tannfræðingi, þau eiga tvo syni. Næst kemur Sofia Trier Birgisson Ünalan, f. 1994, nemi í sálgæslufræðum, gift Ozan Ünalan, doktorsnema í viðskiptum, þau eiga einn son. Yngst er Elina Trier Birgisson Bach, f. 1996 grafískur hönnuður, gift Morten Trier Bach, grafískum hönnuði.

Vorið 2022 seldi Ólafur fyrirtækið til stærsta hugbúnaðarfyrirtækis á Norðurlöndum og ákvað að láta þá af daglegum fyrirtækjarekstri.

Ólafur og Anette kynntust i Hvítasunnukirkjunni í Álaborg og voru þar bæði tvö mjög virk í starfi kirkjunnar í áratugi. Ólafur sat lengi í stjórn kirkjunnar og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir kirkjuna.

Útför Ólafs fór fram frá Aalborg Citykirke 27. febrúar 2024 að viðstöddu fjölmenni.

Snemma morguns þann 17. febrúar fékk ég símtalið sem ég vildi aldrei fá. Teddi bróðir var á línunni og sagði mér að Óli bróðir okkar hefði kvatt þá um nóttina. Það var allt rangt við þetta símtal, lífið fór á hvolf.

Það var bara ár á milli okkar Óla og við vorum alla tíð miklir vinir, ekki endilega alltaf sammála en alltaf vinir. Hann leyfði mér að hjóla á skellinöðrunni sinni og þegar hann var 16 ára keypti hann rauðan Rambler, geggjaðan kagga, og við fórum saman á honum í sumarvinnuna og ég keyrði því ég var komin með bílpróf. Okkur fannst við mjög töff og allt lífið fram undan.

Þótt hann flytti ungur til Danmerkur til að fara í nám og ílengdist svo þar þá hélst náið samband okkar alltaf og við Erling fórum nánast árlega til hans og Anette og þau komu til okkar. Staðalbúnaður í Álaborgarferðum okkar var ljósar súkkulaðirúsínur, íslenskur lakkrís, sviðasulta og lifrarpylsa, þetta elskaði Óli minn. Allar samverustundirnar og öll samtölin okkar um allt og ekkert, gönguferðirnar í skóginum heima hjá þeim, ferðirnar á Sanya, uppáhalds veitingastaðnum okkar, að ógleymdum ísbíltúrum í Vebbestrub-ísbúðina, geymi ég nú sem dýrmætan fjársjóð.

Síðastliðið vor vorum við hjá þeim og Óli orðinn frekar mikið veikur en samt brattur og dóttir mín hafði beðið mig að kaupa eina flík en ég sagði henni að ég færi ekki meira í búðir. Óli heyrði þetta og sagði, Erla, skreppum í bíltúr, það þarf að redda þessu fyrir frænku. Við fórum því tvö út að keyra og þar sem Óli var með bíladellu og átti flottan bíl þá keyrðum við smá greitt á hraðbrautinni og sóttum flíkina og fórum svo lengri leiðina heim og áttum gott og skemmtilegt spjall saman.

Undir það síðasta fækkaði símtölunum okkar þar sem krabbinn var að yfirtaka lungu hans og hann átti erfitt með andardrátt og tal, en því dýrmætari voru þau. Við vorum búin að tala um að við Erling kæmum til þeirra í byrjun apríl, í afmælið hans og þá ætluðum við að skoða ýmislegt í umhverfinu sem við höfðum látið sitja á hakanum, en því miður kom þetta símtal og næsta ferðalag var til að fylgja honum síðasta spölinn.

Hann hugsaði allt í lausnum, var gegnheill, sannur vinur vina sinna og átti sterka og einlæga trú á Guð og var sannur erindreki hans hér á jörð. Hann hlúði að þeim sem minna máttu sín og var óþreytandi að heimsækja sjúka, sérstaklega þá sem fáir hlúðu að. Það sást best í útförinni hans hvað hann hafði snert við mörgum og átti marga vini, slíkur var fjöldinn og blómahafið.

Eina huggun mín er að nú þjáist hann ekki lengur. Elsku Anette, börnin, tengdabörnin og afastrákarnir, ykkar missir er mestur en við skulum muna það sem hann sagði alltaf, lífið er dásamlegt og það er eilíft. Við munum hitta hann aftur þegar okkar tími kemur.

Bless á meðan, elsku dýrmæti bróðirinn minn, takk fyrir allt sem þú varst mér og fólkinu mínu.

Þín

Erla.

Það var harmafregn þegar okkur bárust þau tíðindi að Óli mágur minn og einn besti vinur væri dáinn.

Hann hafði barist við mjög illskeytt krabbamein sem að lokum lagði hann að velli. Barátta hans við þennan óboðna gest var hetjuleg og honum líkt að gefast ekki upp þótt hann hefði beljandi storminn beint í fangið.

Óli var afar vinnusamur og byggði upp sitt fyrirtæki System Gruppen AS af mikilli elju og útsjónarsemi svo eftir var tekið á danskri grundu. Hann hafði keypt fyrirtækið þegar það var við að gefa upp öndina og reif það upp í hæstu hæðir. Kúnnahópurinn var stór og mörg mjög stór dönsk fyrirtæki voru viðskiptavinir hans.

Góður gangur fyrirtækis hans gerði að það að verkum að það var eftirsótt til kaups af stórum fjárfestingarsjóðum í Danmörku þó hann væri ekkert að huga að því að selja. Nokkrir sjóðir vildu kaupa og báru í hann víurnar, endaði það með því að hann seldi fyrirtækið þeim sjóði sem hæst bauð.

Það var því mikið áfall stuttu eftir að hann seldi fyrirtækið að hann greindist með illvígt krabbamein í fæti sem var fjarlægt og virtist sem tekist hefði að losa hann við það endanlega. Það reyndist þó ekki vera raunin og krabbameinið fór víðar og ekki tókst að fjarlægja það sem endaði með að hann varð að láta í minni pokann.

Mikið safn minninga hlóðst upp við andlátstilkynninguna og ber hæst okkar góðu vináttu sem spannar nær hálfa öld. Vinátta okkar óx með árunum og vorum við tíðir gestir hjá þeim hjónum Óla og Annette á fallega heimilinu þeirra í Stövring og þau hjá okkur.

Óli lærði rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Álaborg og bætti síðan við viðskiptahagfræði. Hann bjó að mikilli rökhugsun sem nýttist honum vel á lífsleiðinni og ekki síst í því viðskiptaumhverfi sem hann var í.

Hann var mikill fjölskyldumaður og sá um hópinn sinn af mikilli alúð en hann skildi eftir sig fjögur uppkomin börn og flokk barnabarna sem sóttu mjög í hann, enda var hann þeim afar góður afi. Annette sína elskaði hann svo engum duldist og umvafði hana ást og kærleika.

Eitt af aðaleinkennum Óla var heiðarleiki svo af bar með fullri virðingu fyrir öllu heiðarlegu fólki. Það orð fór af honum í því viðskiptaumhverfi sem hann vann í að allt sem hann sagði meinti hann og stóð við.

Trúin á Guð var hans eigið aðalsmerki sem allir í kringum hann vissu af, hvort heldur var við persónuleg kynni eða á vinnumarkaði. Hann þagði ekki yfir trú sinni en lét það ekki nægja heldur var honum mjög umhugað um þá sem áttu undir högg að sækja eða áttu við veikindi að stríða.

Sannur sonur Íslands vil ég hafa mín orð um þennan öðlingsmann.

Mörg hundruð manns fylgdu honum síðasta spölinn við jarðarför hans og mátti af því sjá hversu vinamargur hann var. Sporin voru þung með kistuna hans að gröfinni, ekki þung í þess orðs merkingu heldur vegna þess að það var Óli sem var í henni.

„Lífið er gott og það er eilíft,“ sagði hann gjarnan og meinti það.

Óli, minn góði vinur, hafðu þökk fyrir samleiðina og vináttuna. Sjáumst síðar.

Bless á meðan.

Þinn vinur,

Erling Magnússon.

Mig langar að minnast Óla stóra bróður míns í nokkrum orðum, en hann kvaddi okkur að morgni 17. febrúar eftir snarpa baráttu við krabbamein. Jafnvel þó að orð séu mér dagsdaglega hugleikin og auðveld þá verða þau lítilfjörleg í þessu samhengi. Andlát Óla er mér ólýsanlegur harmdauði. Óli var ekki bara bróðir minn, hann var einnig einn af mínum allra nánustu vinum og einn mikilvægasti áttaviti minn í lífinu.

Óli var með hnífskarpan huga, afar vel lesinn og klár maður. Það voru þó ekki hans bestu hliðar þó það hafi fært honum mikinn framgang atvinnulega og efnahagslega. Hans bestu hliðar voru óeigingjarn kærleikur hans og velvilji til annarra. Fyrrverandi prestur kirkjunnar sem Óli tók þátt í sagði einu sinni á fundi að Óli hefði verið langöflugasti liðsmaðurinn í að heimsækja þá sem fæstir heimsóttu. Hann bætti svo við að þegar hann fékk upplýsingar um að einhver safnaðarmeðlimur væri veikur hefði hann alltaf sem prestur sett í forgang að heimsækja viðkomandi. Nánast undantekningarlaust var Óli þá þegar búinn að kasta frá sér ofhlaðinni dagskrá sinni og vitja hins sjúka. Það lýsir Óla mjög vel. Hann var alltaf tilbúinn að hlusta og spegla og gefa góð ráð. Og þau voru góð, jafnvel þó að þau hafi ekki alltaf verið þægileg. Hann hafði mjög djúpa umhyggju fyrir fólkinu sinu og dvaldi klukkustundum saman í bæn til að ræða fólkið sitt við Guð. Óli var einnig harðduglegur og vann átta daga í hverri viku. Hann gafst aldrei upp á neinu verkefni, hann leitaði lausna sem alltaf finnast. Í baráttu sinni við krabbameinið var hann eins og í öllu öðru, gerði allt sem hann gat og það er auðveldlega hægt að segja að hann stóð á meðan stætt var.

Við Óli töluðum saman svo gott sem daglega þá átján mánuði sem veikindastríðið stóð og æðruleysi hans og óbilandi trú á Guð var sannarlega til eftirbreytni. Hann gerði sér grein fyrir að hugsanlega myndi hann ekki vinna þetta stríð en í ferlinu hafði hann mun meiri áhuga á að ræða kraftaverk Guðs en að hann gæti dáið. Engu að síður gerði hann allar ráðstafanir fyrir andlát sitt löngu áður en hann dó. Hann var því alls ekki í afneitun á því sem gæti gerst, fókusinn var hins vegar á lífinu. Einkunnarorð Óla voru „livet er skønt og det er evigt“. Í djúpu trausti þess sannleika kvaddi ég hann í okkar síðasta samtali með orðunum „bless á meðan, Óli minn“. Óli lést þar sem hann hefði helst viljað deyja, í fanginu á sinni heittelskuðu Anette sem stóð heils hugar með Óla sínum fram á síðasta andardrátt hans.

Óli og Anette eiga fjögur börn, fjögur tengdabörn og sex barnabörn sem öll syrgja nú brotthvarf þess sem var klettur þeirra allra, alltaf gat hlustað og velt upp möguleikum og leitað lausnar. Bæði í Danmörku og heima á Íslandi er stór hópur fólks, ættingjar, vinir og samferðafólk sem syrgir góðan og djúpvitran mann sem alltaf var til staðar fyrir alla þá sem til hans leituðu. Það fyllir enginn upp í hans pláss en eftir lifir minning um dásamlegan mann sem elskaði og var elskaður.

Blessuð sé minning Óla bróður míns.

Theodór Francis.

Þegar við hjónin fengum upphringingu um að Óli bró hefði fullnað sitt skeið og náð landi á Eilífðarstöndum, þá fylltist hjarta mitt ólýsanlegri sorg og trega. Hvernig má það vera að hann, sem var svo sterkur og duglegur, fullur af krafti og lífslöngun væri farinn frá okkur.

Óli háði langa baráttu við illvígt krabbamein. Hann setti allt sitt traust á besta vin sinn og frelsarann Jesú og fann í Honum styrk og kraft til að berjast áfram. Það lýsir Óla, vel enda var hann metnaðarfullur og fylginn sjálfum sér, heiðarlegur og vinnusamur. En það sem átti hug hans allan var fjölskyldan sem hann dáði. Hann bað fyrir þeim á hverjum degi og tók einnig daglega fund með yfirmanni sínum, smiðnum frá Nasaret. Auk þess bað hann fyrir foreldrum sínum, systkinum og þeirra börnum, að ógleymdum þeim fjölda vina sem hann eignaðist á lífsleiðinni. Þau hjónin voru höfðingjar heim að sækja og máttu ekki heyra á það minnst að íslenska fjölskyldan dveldi annars staðar en í þeirra húsi þegar við heimsóttum þau. Við hjónin heimsóttum Óla og Anette síðastliðið sumar. Við hugðumst gista á hóteli til að íþyngja ekki heimili þeirra í veikindum Óla. Þá sagði hann að það væri auðveldara að eiga samskipti ef við værum öll í sama húsi.

Ég á þó nokkrar minningar frá æskuárum okkar. Við Óli vorum kornung send í sveit til ömmubróður okkar. Óli var enginn sveitamaður í sér og fannst ekki gaman að dvelja þar, en þá strax kom fram metnaður hans og trúfesti. Hann sinnti hverri skyldu sem honum var fengin, möglunarlaust. Hann var ótrúlega duglegur og iðinn, þessi litli pjakkur, og stóð fyrir sínu í hverju verki. Þó hann yrði fyrir aðkasti frá sér eldri og sterkari drengjum sem dvöldu á bænum samtíða okkur, þá kvartaði hann aldrei, en hélt sínu striki. Ég man líka þegar við vorum unglingar, og ég hafði slasast á fæti. Fjölskyldan fór í heimsókn, þar sem var upp tröppur að fara. Óli gerði sér lítið fyrir og bar litlu systur sína upp tröppurnar. Svona var hann, ávallt reiðubúin að hjálpa öðrum.

Að loknu námi í rafvirkjun í Iðnskólanum flutti hann til Álaborgar til að læra meira í sínu fagi. Það varð happaskref í lífi hans, því þar kynntist hann dásamlegri stúlku, henni Anette. Með dugnaði sínum og eljusemi reistu þau sér fallegt hús í Støvring, eignuðust fjögur mannvænleg börn og eiga nú sex afa- og ömmustráka.

Óli bró skilur eftir sig stórt skarð í okkar systkinahópi, sem verður aldrei fyllt. Eins situr fjölskylda hans eftir, án eiginmanns, föður og afa. Þau eiga þó minningu um ástríkan lífsförunaut, hjálpsaman og uppörvandi föður og gjafmildan og skemmtilegan afa sem elskaði að fá sér ís með afastrákunum sínum.

Einkunnarorð Óla voru „Livet er skønt, og det er evigt“ Lífið er dásamlegt og það er eilíft. Það er sárt að sakna en það er gjaldið sem við greiðum fyrir að elska. Nú býr Óli í alfögru elskunnar landi með sínum ástkæra frelsara, Jesú. Þar eru engir sjúkdómar eða sorgir og þar hittumst við aftur þegar minn tími kemur. Elsku brói minn, bless á meðan …

Sirrý og Guðjón.

Það var mikill mannskaði þann 17. febrúar þegar elskulegur bróðir minn, Ólafur Birgir Birgisson, dó. Óli eins og hann var alltaf kallaður var engum líkur en mörgum ólíkur. Sérstaklega þegar kom að siðferði og trú, vinnusemi og heiðarleika.

Hann var frá því ég man fyrst eftir honum sem fullorðnum, þó ungum einstaklingi, alveg óhemju vinnusamur og ósérhlífinn. Það var talað um það þegar hann keyrði leigubíl á skólaárunum upp úr tvítugu að sennilega hefði hann ekkert farið úr gallabuxunum allt sumarið. Þessi sama vinnusemi endurspeglaðist í öllu hans lífi eftir því sem árin liðu. Hvort heldur hann var að byggja sitt eigið hús, sem var ekki algengt að menn gerðu í Danmörku, eða byggja upp sitt eigið fyrirtæki eða sinna sinni elskuðu fjölskyldu.

Óli var stóri bróðir minn. Stóri, í öllum besta skilningi þess orðs. Auðvitað, þar sem hann var fimm árum eldri en ég, fann hann sig knúinn til að hafa vit fyrir sínum yngri systkinum og var óþreytandi að leiðbeina okkur og leyfa okkur að njóta ávaxta visku sinnar. Eftir því sem árin liðu grunar mig sterklega að hann hafi örlátlega stækkað þann hóp sem fékk að njóta innsæis hans og dómgreindar.

Það segir samt sína sögu, að um leið og hann barðist hetjulega við krabbameinið og var svo veikur að við lá að hann hljóðaði af kvölum, hafði hann mestar áhyggjur af fólkinu sínu. Þar á meðal mér. 13 dögum fyrir andlátið hringdi hann í mig og var með áhyggjur af því hvernig mér myndi reiða af. Þetta lýsir honum svo vel. Umhyggja hans var eins og siðferðið, svo sönn og einlæg og án takmarkana. Það er huggun í þessum missi að vita hvaða hjartalag hann hafði að geyma og vildi alls staðar gefa af sér og sá í góðum hlutum sem yrðu öðrum til góðs. Hann var maður sem myndi gefa þér fisk einu sinni og kenna þér svo að veiða. Hann vildi hvetja alla til sjálfsbjargar.

Við bræðurnir tveir á Íslandi fórum í mörg ár til Óla og áttum bræðrafundi úti í Danmörku. Þar liggja margar dýrmætar minningar. Stundum fór ég þangað líka einn, bara til að slaka á og eyða tíma með honum og fjölskyldunni hans. Þær minningar hlýja.

Hann sýndi öllum hvernig allt var hægt ef maður legði sig fram. Þannig byggði hann til dæmis úti á plani Willys-jeppa með blæju og hálf-vélarlausan. Á seinni árum uppfærði hann bíladelluna og bílarnir hans urðu allt annað en vélarlausir.

Ég veit einnig fyrir víst að þau ár sem hann rak sitt fyrirtæki var ekki ein einasta nóta af persónulegri notkun sett á fyrirtækið. Grátt svæði var einfaldlega ekki til. Hann var heiðarlegur í öllu og kom hreint fram við viðskiptavini sína og starfsfólk, enda dafnaði fyrirtækið vel og örugglega.

Ég kveð kæran bróður með miklum söknuði. Mér finnst þetta svo ótrúlega sárt og ótímabært. En hans trú deili ég með honum um að við hittumst aftur og getum glaðst saman til eilífðar.

Guð blessi ljúfa minningu Óla bróður míns.

Kristinn Pétur
Birgisson.