Hörmungarnar í Afríku ætla engan enda að taka

Þó að fáir beini sjónum að hörmungunum í Afríku sunnan Sahara eru þær líklega hvergi meiri í veröldinni en einmitt þar. Þær einskorðast ekki við eitt ríki heldur má segja að þær séu meira og minna það ástand sem íbúarnir um allt Sahel-svæðið þvert yfir Afríku búa við. Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallaði í pistli á mbl.‌is í liðinni viku sérstaklega um ástandið í Nígeríu og benti á að í þessu fjölmennasta ríki Afríku væru meiri átök og ofbeldisglæpir en þekktust víðast.

Kristnir íbúar landsins sæti miklum ofsóknum og samkvæmt skýrslu sem Sigurður Már vísar til var síðasta ár „það blóðugasta í Nígeríu og árásir íslamista á kristna menn aldrei verri. Meira en 8.000 kristnir menn voru myrtir árið 2023 segir í skýrslunni,“ og í henni séu „hryllilegar lýsingar á drápum, mannránum og hvarfi kristinna íbúa í nokkrum hlutum Nígeríu“.

Sigurður Már rifjar upp að morðaldan gegn kristnum í Nígeríu nái fimmtán ár aftur í tímann, þegar íslömsku öfgasamtökin Boko Haram hófu morðherferð sína í landinu, en þau boði nú heilagt stríð, jihad, um alla Nígeríu og Mið-Afríku. Talið er að um 100.000 kristnir hafi verið meðal þeirra 150.000 sem drepnir hafa verið í Nígeríu frá árinu 2009, en um þriðjungur fórnarlambanna er múslimar. Hann segir skýrsluhöfundana „ganga svo langt að líkja hinum kerfisbundnu morðum á kristnum mönnum í Nígeríu við „þögult þjóðarmorð“ og að það undirstrikist af fjarveru fjölmiðlaumfjöllunar og afskiptaleysis heimssamfélagsins“.

Skortur á fjölmiðlaumfjöllun er réttmæt gagnrýni vegna þess hryllings sem á sér stað í Nígeríu, rétt eins og til að mynda í Súdan, þar sem stríðsástand hefur ríkt í tæpt ár og ekkert útlit er fyrir frið. Þar er háð borgarastyrjöld og hungursneyð er yfirvofandi eins og hér hefur áður verið fjallað um. Sameinuðu þjóðirnar biðluðu á föstudag til stríðandi fylkinga um að hleypa matvælaaðstoð að milljónum sveltandi Súdana, en talið er að fimm milljónir séu í stórfelldri hættu vegna matvælaskorts og alls búi átján milljónir þegar við alvarlegan skort.

Þetta ástand í Súdan, sem er við suðurlandamæri Egyptalands, er jafnvel enn verra en ástandið í Gasa, sem er við norðausturlandamæri Egyptalands. Í Gasa er hörmungarástand vegna hryðjuverkasamtaka sem skeyta engu um mannslíf og hafa skotið rótum svo djúpt á svæðinu að erfitt er að uppræta þau. Í Súdan er háð annars konar valdabarátta með þessum skelfilegu afleiðingum.

Í báðum tilfellum hefur reynst erfitt að koma aðstoð til nauðstaddra. Vonandi tekst það – og vonandi gleymir heimurinn ekki milljónunum sem gætu orðið hungri að bráð í Súdan, eða þeim mikla fjölda sem hefur fallið þar í landi og í Nígeríu á undanförnum misserum og árum.