Útgáfa ljóðabóka stendur í miklum blóma og er þar nokkuð um hefðbundinn kveðskap. Hér er gripið niður í þrjár bækur. Leiðir hugann seiður, er yfirskrift ljóðasafns Braga Björnssonar sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gaf út í fyrra

Útgáfa ljóðabóka stendur í miklum blóma og er þar nokkuð um hefðbundinn kveðskap. Hér er gripið niður í þrjár bækur. Leiðir hugann seiður, er yfirskrift ljóðasafns Braga Björnssonar sem Félag ljóðaunnenda á Austurlandi gaf út í fyrra. Í ljóðinu Hjónaspjalli er kafað dýpra í Njálu:

„Nú er á mér amors gáll,

ærinn frygðarlosti.“

„Misvitur ertu maður, Njáll,

þótt marga hafir kosti,“

mælti þá Bergþóra – og brosti.

Svo kastar Bragi fram limru:

Alla tíð kemur hann illa við mig

með úrfelli, kulda og rokum

því alltaf er veturinn samur við sig

en sigurinn vorsins að lokum

með sólskini, þíðvindi og þokum.

Fjörusprek og Grundargróður nefnist önnur bók sem kom út í fyrra eftir Rúnar Kristjánsson, sem oft hefur glatt lesendur Vísnahornsins með sínum kveðskap. Í ljóðinu Svipmynd úr bæjarlífinu má finna mikla væntumþykju í garð heimahaganna á Skagaströnd:

Skagastrandarbörnin blessuð

birtu strá um lífsins veg.

Þau eru ekki þreytt og stressuð,

þau eru bara eðlileg.

Þeim finnst gott að hoppa og hlæja,

halda sig sem mest við það.

Láta yndis önn sér nægja,

elska glöð sinn heimastað.

Gott er þau og ljúft að líta,

lánið fylgi öllum þeim,

er þau síðar ferðum flýta

og fara að skoða stærri heim.

Ljóðasafns ¶Ljóðasafn Magnúsar J. Jóhannssonar sem fæddist á Gufuskálum á Snæfellsnesi 1922 og lést 2014, Orðaglingur, kom út fyrir stuttu. Magnús gerði einnig bókina Geðbót á sínum tíma, sem var með fjórum litlum staupum og rými fyrir koníakspela. Hann kynnti bókina með þessum stökum:

Ef ég á að segja satt,

sem ég geri að jafnaði.

Sérhvern hefur „Geðbót“ glatt

sem gleði ekki hafnaði.

Ekki vil ég ýkja neitt

allir karlmenn dá hana.

Konurnar þær brosa breitt

bara við að sjá hana.