Harpa Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn um miðjan maí 2023.
Harpa Leiðtogafundur Evrópuráðsins var haldinn um miðjan maí 2023. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur látið af störfum í forsætisráðuneytinu. Það gerði hún um miðjan febrúar sl. samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tímabundinn samningur hennar var um síðustu áramót framlengdur til 15

Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður Samfylkingarinnar hefur látið af störfum í forsætisráðuneytinu. Það gerði hún um miðjan febrúar sl. samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins, en tímabundinn samningur hennar var um síðustu áramót framlengdur til 15. febrúar.

Áður hafði tímabundin ráðning Rósu Bjarkar verið framlengd til áramóta, en þá var um að ræða 50% starfshlutfall. Greint var frá því í byrjun mars í fyrra að forsætisráðuneytið hefði ráðið Rósu Björk sem verkefnastjóra alþjóðamála til sex mánaða í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var hér á landi um miðjan maí sl. Ráðning hennar var þó framlengd og þegar Morgunblaðið spurðist fyrir um málið kom fram í svari ráðuneytisins að verkefni hennar sneru meðal annars að úrvinnslu og eftirfylgni leiðtogafundarins, verkefnum tengdum málefnum afganskra kvenna, undirbúningi friðarráðstefnu og undirbúningi heimsóknar framkvæmdastjóra UNESCO auk tilfallandi verkefna á sviði alþjóðamála.

Í svari ráðuneytisins nú kemur fram að verkefnin séu enn í vinnslu í ráðuneytinu fyrir utan tímabundin verkefni eins og friðarráðstefnu og hliðarviðburð á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í Afganistan.