Kaupverð Kvika banki sameinaðist TM og Lykli árið 2021.
Kaupverð Kvika banki sameinaðist TM og Lykli árið 2021. — Morgunblaðið/Hari
Stjórn Kviku banka hefur ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á 100% hlutafjár TM trygginga hf. Samkvæmt tilboðinu er kaupverðið 28,6 milljarðar króna og mun Landsbankinn greiða fyrir hlutaféð með reiðufé

Stjórn Kviku banka hefur ákveðið að taka tilboði Landsbankans um kaup á 100% hlutafjár TM trygginga hf. Samkvæmt tilboðinu er kaupverðið 28,6 milljarðar króna og mun Landsbankinn greiða fyrir hlutaféð með reiðufé.

„Kaupverðið miðast við efnahagsreikning TM í lok árs 2023. Endanlegt kaupverð verður aðlagað miðað við breytingar á efnislegu eigin fé TM frá upphafi árs 2024 til afhendingardags en fjárhæð breytingarinnar mun bætast við eða dragast frá kaupverðinu í tilboðinu. Samkvæmt rekstrarspá TM er gert ráð fyrir að hagnaður TM verði rúmlega 3 milljarðar króna á rekstrarárinu 2024. Eignarhlutur Kviku í TM í lok árs 2023 var bókfærður á samtals 26,8 milljarða króna,“ segir í tilkynningu frá Kviku.

Stjórn Kviku skoðaði tilboðið með ráðgjöfum sínum og ákvað í kjölfarið að taka tilboðinu með það að markmiði að ljúka endanlegri áreiðanleikakönnun og undirrita kaupsamning milli bankanna eins fljótt og auðið er, með hefðbundnum fyrirvörum, s.s. samþykki fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Samkeppniseftirlitsins. Haft er eftir forstjóra Kviku að ef kaupsamningur verður undirritaður verði það til hagsbóta fyrir alla aðila, Kviku, Landsbankann og TM, viðskiptavini þeirra, hluthafa og aðra hagaðila.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Facebook í gærkvöldi að hún myndi ekki samþykkja kaupin, og vísaði m.a. í eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, þar sem kveðið væri á um að stuðla ætti að samkeppni í fjármálastarfsemi. Sagði hún jafnframt að ríkisfyrirtæki ættu ekki að kaupa tryggingafélög.