[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásdís Karen Halldórsdóttir fór afar vel af stað með nýju liði sínu, Lilleström, þegar norska úrvalsdeildin hófst á laugardag. Kom hún Lilleström í forystu eftir aðeins þriggja mínútna leik í 4:2-sigri á Brann á heimavelli

Ásdís Karen Halldórsdóttir fór afar vel af stað með nýju liði sínu, Lilleström, þegar norska úrvalsdeildin hófst á laugardag. Kom hún Lilleström í forystu eftir aðeins þriggja mínútna leik í 4:2-sigri á Brann á heimavelli. Ásdís, sem kom frá Val í vetur, lék allan leikinn í fremstu víglínu en Natasha Anasi-Erlingsson var allan tímann á varamannabekknum hjá Brann.

Elísabet Rut Rúnarsdóttir sló Íslandsmet í sleggjukasti er hún sigraði UTSA Invitational-mótið í San Antonio í Texasríki í Bandaríkjunum á laugardag. Elísabet Rut kastaði sleggjunni 69,11 metra og bætti með því eigið Íslandsmet um rúmlega tvo metra. Fyrra met hennar var 66,98 metrar.

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti góðan leik í gífurlega öruggum sigri Alba Berlín á Tubingen, 112:69, í þýsku úrvalsdeildinni á laugardag. Martin skoraði 17 stig og gaf fimm stoðsendingar á 20 mínútum hjá Alba, sem er í þriðja sæti deildarinnar með 16 sigra og fimm töp.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var á skotskónum þegar hún lék sinn fyrsta deildarleik fyrir Bröndby í 2:0-sigri á Kolding í dönsku úrvalsdeildinni í gær. Hafrún var í byrjunarliðinu, innsiglaði sigurinn í lok leiks og fór af velli í uppbótartíma. Kristín Dís Árnadóttir lék allan leikinn fyrir Bröndby, sem er á toppi deildarinnar með 31 stig.

Tryggvi Snær Hlinason, landsliðsmaður í körfuknattleik, átti afar góðan leik fyrir Bilbao er liðið lagði Joventut Badalona á heimavelli sínum í spænsku 1. deildinni í gær, 92:71. Miðherjinn stóri og stæðilegi skoraði 14 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar á 23 mínútum með Bilbao. Tryggvi og félagar eru í 11. sæti með tíu sigra og 15 töp eftir 25 leiki.

Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk unnu gífurlega dýrmætan útisigur á stórliði Anderlecht, 1:0, í belgísku A-deildinni í knattspyrnu á laugardagskvöld. Kortrijk er því komið úr neðsta sæti deildarinnar, en liðið var langneðst þegar Freyr tók við í byrjun árs. Nú er liðið í 15. og næstneðsta sæti með 24 stig eftir 30 leiki.

Knattspyrnumennirnir Kristall Máni Ingason og Daníel Leó Grétarsson skoruðu mörk SönderjyskE þegar liðið hafði betur gegn Helsingör, 2:0, í dönsku B-deildinni á laugardag. Kristall Máni, Daníel Leó og Atli Barkarson léku allir allan leikinn fyrir SönderjyskE, sem er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði AaB.

Växjö lagði Íslendingalið Kristianstad að velli, 3:1, í 1. riðli sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Landsliðskonan Bryndís Arna Níelsdóttir skoraði sitt fyrsta mark fyrir Växjö er hún lék allan leikinn í fremstu víglínu liðsins og jafnaði metin í 1:1. Þórdís Elva Ágústsdóttir var ekki í leikmannahópi Växjö. Hlín Eiríksdóttir lék allan leikinn og skoraði mark Kristianstad. Katla Tryggvadóttir lék sömuleiðis allan leikinn fyrir Kristianstad og Guðný Árnadóttir kom inn á sem varamaður á 73. mínútu í sínum fyrsta leik.

Andri Lucas Guðjohnsen skoraði síðara mark Lyngby í 2:0-sigri á Viborg í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær. Andri lék allan leikinn líkt og Sævar Atli Magnússon. Kolbeinn B. Finnsson lék fyrstu 84 mínúturnar. Lyngby hafnaði í 8. sæti og skiptist deildin nú í efri og neðri hluta, sem liðið er í.

Hilmar Pétursson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var með tvöfalda tvennu þegar lið hans Münster lagði Bayreuth að velli, 116:111, eftir framlengdan spennuleik í þýsku B-deildinni á laugardag. Hilmar skoraði 12 stig, tók tvö fráköst og gaf tíu stoðsendingar á 40 mínútum hjá Münster, sem er í 7. sæti með 16 sigra og 11 töp.

María Ólafsdóttir Gros var á skotskónum hjá Íslendingaliði Fortuna Sittard þegar það tryggði sér sæti í undanúrslitum hollensku bikarkeppninnar með því að leggja Utrecht örugglega að velli, 4:0, í átta liða úrslitum í gær. María kom inn á sem varamaður á 76. mínútu og skoraði þriðja mark Sittard sjö mínútum síðar. Lára Kristín Pedersen lék allan leikinn fyrir Sittard og Hildur Antonsdóttir lék fyrstu 87 mínúturnar.