Gígar Síðdegis í gær hafði dregið mikið úr krafti gossins og var virknin aðallega bundin við þrjá gíga á sprungunni.
Gígar Síðdegis í gær hafði dregið mikið úr krafti gossins og var virknin aðallega bundin við þrjá gíga á sprungunni. — Ljósmynd/Hörður Kristleifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir eina stærstu spurninguna í kjölfar eldgossins sem hófst á laugardagskvöld vera hvort sama atburðarás og hefur staðið yfir undir Svartsengi haldi áfram, eða hvort innflæði kviku minnki

Sviðlsjós

Sævar Breki Einarsson

saevar@mbl.is

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir eina stærstu spurninguna í kjölfar eldgossins sem hófst á laugardagskvöld vera hvort sama atburðarás og hefur staðið yfir undir Svartsengi haldi áfram, eða hvort innflæði kviku minnki.

Ef um fjórir rúmmetrar á sekúndu af kviku halda áfram að streyma upp sé líklegast að um fimm til sex vikur verði á milli atburða á Reykjanesskaga.

„Það sem maður horfir núna í er hvernig framhaldið verður. Svo er spurning hvernig flæðið úr dýpra kvikuhólfi í það grynnra verður, hvort það nái jafnvægi og haldist í fjórum rúmmetrum á sekúndu. Ef það gerist þá fáum við svipaða atburðarás og var núna frá síðasta gosi, fimm til sex vikur á milli atburða. Ef innflæði úr dýpra kvikuhólfi heldur áfram að hægja á sér, þá sjáum við fyrir endann á þessu og þá lýkur þessu eftir um tvo mánuði. Þetta eru þessar tvær sviðsmyndir sem eru mögulegar en nú þarf bara að fylgjast með og sjá hvað setur,“ segir Þorvaldur.

Eldgos á Reykjanesskaga hófst í fyrradag er gos braust út á Sundhnúkagígaröðinni á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, þó nær Stóra-Skógfelli. Gossprungan er á svipuðum stað og gosið sem varð þann 8. febrúar. Eldgosið hófst klukkan 20.23 á laugardagskvöld og náði hámarki á nokkrum klukkustundum. Síðan dró heldur úr virkni gossins og hefur það dvínað síðan þá. Starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi er óröskuð en um tíma leit út fyrir að háspennulínur gætu verið í hættu. Hraunflæðið stöðvaðist um 200 metrum frá háspennulínunum og heitavatnslögninni.

Hafa áhyggjur af veginum

Aðaláhyggjuefnið fram eftir degi í gær var að Suðurstrandarvegur færi undir hraun og voru vonir bundnar við hann slyppi þar sem hraun flæddi yfir Grindavíkurveg skömmu eftir upphaf gossins. Nesvegurinn varð því eina færa leiðin inn í og út úr Grindavík þar sem lögreglan á Suðurnesjum lokaði Suðurstrandarvegi.

Um tíma leit út fyrir að hraunið gæti flætt út í sjó við Grindavík sem Þorvaldur segir að hefði breytt áhyggjum sérfræðinga. Þorvaldur segir að gosið hafi komið fáum á óvart. „Þetta var mjög stuttur fyrirvari en menn voru þó að búast við eldgosi, þetta kom engum á óvart. Gosið kom upp á þeim stað þar sem menn voru að búast við því, suðaustan við Stóra-Skógfell. Þetta gos byrjaði mjög svipað og gosið í desember, opnaðist með stuttri sprungu sem lengdist jafnt og þétt. Það var vöxtur í gosinu og náði það svo hámarki á tveimur til þremur tímum,“ segir hann.

Þorvaldur segir kraft eldgossins hafa dvínað hægar en í síðustu gosum, en að atburðarásin líkist helst gosinu 8. febrúar.

Líkist fyrri gosum töluvert

Síðasta eldgos hófst þann 8. febrúar en það var skammlíft og lauk því daginn eftir. „Munurinn á atburðarásinni í fyrri gosum og þessu gosi var sá að hraunið fór mjög hratt í rásir eftir að það byrjaði að gjósa. Önnur rásin fór til vesturs, í átt að Grindavíkurvegi. Stuttu eftir það gerðist það sem menn voru að búast við, hraunið fór mjög fljótt yfir Grindavíkurveginn. Hin rásin er til suðurs og er hraunið komið svolítið langt niður eftir en það er af því flæðið er afmarkað við ákveðna rás og fylgir henni. Það var þó nokkur gangur í þessu til að byrja með en nú hefur gosið ekki lengur aflið til þess að ýta hrauninu áfram á jafnmiklum hraða og það gerði í byrjun. Það kæmi mér ekkert á óvart ef gosið stöðvaðist áður en það nær Suðurstrandarvegi,“ segir Þorvaldur.

Áhyggjur af hraunflæði í sjó?

Öðruvísi hætta stafar af því þegar hraun flæðir út í sjó en þá getur myndast saltsýra með tilheyrandi gasmengun og gufusprengingum. „Til þess að hraunið komist í sjóinn þarf það fyrst að komast yfir Suðurstrandarveginn,“ segir Þorvaldur en hann á ekki von á því að það gerist í þessu gosi. „Það er þó alltaf möguleiki á að það geti gerst síðar og maður getur aldrei verið viss í þessu, það er bara að bíða og sjá og reyna að bregðast við. Ef hraunið kemst yfir Suðurstrandarveg og í sjóinn, þá verða áhyggjurnar aðeins öðruvísi. Þegar hraun kemst í snertingu við sjóinn verður til klórsalt og hættulegar gastegundir og þá er ekki gott að vera mjög nálægt,“ segir Þorvaldur Þórðarson.