Sigursæll Valgarð Reinhardsson varð Íslandsmeistari í fjölþraut í áttunda skiptið í röð á laugardag og vann tvö gull til viðbótar á einstökum áhöldum.
Sigursæll Valgarð Reinhardsson varð Íslandsmeistari í fjölþraut í áttunda skiptið í röð á laugardag og vann tvö gull til viðbótar á einstökum áhöldum. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Valgarð Reinhardsson og Thelma Aðalsteinsdóttir, bæði úr Gerplu, vörðu Íslandsmeistaratitla sína í fjölþraut karla og kvenna í áhaldafimleikum í húsakynnum Ármanns í Laugardalnum á laugardag. Valgarð varð Íslandsmeistari í áttunda skiptið í röð og…

Fimleikar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valgarð Reinhardsson og Thelma Aðalsteinsdóttir, bæði úr Gerplu, vörðu Íslandsmeistaratitla sína í fjölþraut karla og kvenna í áhaldafimleikum í húsakynnum Ármanns í Laugardalnum á laugardag.

Valgarð varð Íslandsmeistari í áttunda skiptið í röð og nálgast nú met þjálfara síns, Viktors Kristmannssonar, sem varð Íslandsmeistari í fjölþraut alls tíu sinnum.

Thelma hefur orðið Íslandsmeistari í fjölþraut þrjú ár í röð.

Systkini í öðru sæti

Í karlaflokki vann Valgarð nokkuð örugglega með því að vinna sér inn 77.450 stig. Í öðru sæti var Martin Bjarni Guðmundsson úr Gerplu með 72.550 stig og í þriðja sæti var Dagur Kári Ólafsson, einnig úr Gerplu, með 71.400 stig.

Meiri samkeppni var í kvennaflokki þar sem Thelma Aðalsteinsdóttir vann með 49.364 stigum. Í 2. sæti var Hildur Maja Guðmundsdóttir úr Gerplu með 48.831 stig, en hún er yngri systir Martins Bjarna. Í 3. sæti var svo Margrét Lea Kristinsdóttir úr Stjörnunni með 47.432 stig.

Fimm gull til viðbótar

Á sunnudag var keppt á einstökum áhöldum þar sem Valgarð og Thelma voru áfram sigursæl.

Valgarð varð Íslandsmeistari á tvíslá og einnig á svifrá. Á tvíslá hafnaði Atli Snær Valgeirsson úr Gerplu í 2. sæti og þeir Sigurður Ari Stefánsson og Dagur Kári, báðir úr Gerplu, urðu jafnir og deildu 3. sætinu. Á svifrá varð Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni annar og Martin Bjarni þriðji.

Á hringjum varð Jón Sigurður Íslandsmeistari og Valgarð hafnaði í 2. sæti. Ágúst Ingi Davíðsson úr Gerplu varð svo í 3. sæti.

Á stökki reyndist Martin Bjarni hlutskarpastur. Valdimar Matthíasson úr Gerplu varð annar og Sigurður Ari þriðji. Ágúst Ingi hrósaði sigri á gólfi og Martin Bjarni hafnaði í 2. sæti. Dagur Kári var svo í 3. sæti. Á bogahesti vann Arnþór Daði Jónasson úr Gerplu og Dagur Kári hafnaði í 2. sæti. Atli Snær Valgeirsson varð þriðji.

Í kvennaflokki varð Thelma Íslandsmeistari á þremur áhöldum af fjórum. Hún reyndist hlutskörpust á gólfi, stökki og slá en Margrét Lea varð Íslandsmeistari á tvíslá. Á því áhaldi var Hildur Maja í 2. sæti og Thelma í 3. sæti.

Á stökki hafnaði Hildur Maja í 2. sæti og Freyja Hannesdóttir úr Gróttu í 3. sæti. Á slá var Hildur Maja í 2. sæti og Lilja Katrín Gunnarsdóttir úr Gerplu í því þriðja. Á gólfi var Hildur Maja aftur í 2. sæti og Margrét Lea í 3. sæti.

Ný æfing í fyrsta sinn

Thelma gerði í fyrsta sinn í sögu fimleika nýja fimleikaæfingu sem enginn í heiminum hefur keppt með á stórmóti. Æfingin heitir ekkert en verður nefnd eftir Thelmu keppi hún með æfinguna á stórmóti.

Æfingin er framhringur á tvíslá tengdur beint í framheljarstökk og hefur fengið E-gildi í dómarastiganum.