Guðbjörg Hreindal Pálsdóttir fæddist 28. maí 1953 í Sandgerði. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 10. febrúar 2024.

Hún var dóttir hjónanna Ingilaugar Valgerðar Sigurðardóttur, f. 22. janúar 1918, d. 6. október 1983, og Páls Gunnarssonar, f. 6. október 1917, d. 5. nóvember 2007.

Guðbjörg var næstyngst í sex systkina hópi. Elstur var hálfbróðirinn Kristinn Svavar, f. 1939, d. 1998, þá Gunnar, f. 1947, d. 2023, Sigurbjörn, f. 1950, d. 2010, Sigríður Pálína, f. 27. maí 1951, d. 7. júlí sama ár, og yngstur er Örn, f. 1955.

Hún fluttist í Vogana 16 ára gömul með Stormi Þór Þorvarðarsyni á Hábæ. Þar eignuðust þau Sigríði Þóru, f. 2. nóvember 1969, hún á fjögur börn og fjögur barnabörn með fyrri manni sínum Alf Wardum og eina dóttur með seinni manni sínum Jóni Indriðasyni. Síðan fluttu þau í Fellabæ árið 1977, þar eignuðust þau soninn Hjört Berg, f. 28. nóvember 1983, hann á eina dóttur, unnusta hans er Erla Guðjóns.

Guðbjörg og Stormur giftu sig 13. ágúst 1972 en slitu samvistum árið 1987. Guðbjörg fluttist þá til Reykjavíkur.

Hún vann hin ýmsu störf um ævina, við verslunarstörf, saumaði fyrir 66°Norður, vann á smurbrauðstofu, keyrði leigubíl og vann í mötuneyti, svo eitthvað sé nefnt, en hún var nuddari fyrst og fremst og rak sína eigin stofu, sú fyrsta hét Nuddhöndin þín í Grafarvogi. Hún var mjög virk í handverki hvers konar frá því að prjóna upp í silfursmíði og allt þar á milli. Fyrir átta árum endurnýjuðu hún og Tom Midjord æskuástin hennar kynni sín aftur.

Guðbjörg átti heima í Reykjanesbæ er hún lést.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Kæra Bubba mín hefur nú kvatt okkur allt of fljótt og snöggt.

Ég var svo heppin þegar þú fluttir aftur suður frá Króknum. Þá urðum við ennþá nánari. Margir héldu að þú værir mamma mín, fannst við svo líkar. Ekki þótti okkur það leiðinlegt. Við áttum svo margar yndislegar stundir sem ég er svo þakklát fyrir. Svo margt sem þú kenndir mér og gafst með nærveru þinni. Þú varst einstaklega handlagin, listræn og hugmyndarík með eindæmum. Fljótlegra að telja upp allt sem þú sagðist ekki geta frekar en allt sem þú gerðir. Þú sagðir að þú kynnir ekkert á rafmagn, sposk á svipinn. Svo varstu einstakur nuddari og með náðargáfu. Þegar þú og Grettir þinn voru í göngu hlógum við svo oft að því að hann dró þig alltaf til okkar í kaffi. Ég gæti lengi talað um góðvild þína, dugnað og kosti enda varstu alveg einstök, mín kæra. Ég og fjölskyldan mín munum ávallt sakna þín og minnast með hlýhug.

Með sorg í hjarta kveð ég einstaka manneskju sem bætti heiminn með nærveru sinni.

Elsku Tom, Hjörtur og fjölskylda, missir ykkar er mikill og sár en minningin um einstaka, sterka og góða manneskju mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Þótt sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kölluð á örskammri
stundu,

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga
og góða,

svo gestrisin, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða,

við hittumst ei framar á ný.

Megi algóður Guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp
sár.

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(Sigríður Hörn Lárusdóttir)

Kveð ég þig nú, elsku frænka,

Ingilaug (Inga).