Moskva Varnarmálaráðherra Rússlands vill auka getu flotans.
Moskva Varnarmálaráðherra Rússlands vill auka getu flotans. — Ljósmynd/AFP
Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur ákveðið að herða þjálfun sjóliða sem skipa Svartahafsflotann, en að auki stendur til að efla loftvarnir skipanna. Ástæðan fyrir þessu er slæmt gengi flotans að undanförnu, mikil blóðtaka og tækjatjón

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur ákveðið að herða þjálfun sjóliða sem skipa Svartahafsflotann, en að auki stendur til að efla loftvarnir skipanna. Ástæðan fyrir þessu er slæmt gengi flotans að undanförnu, mikil blóðtaka og tækjatjón. Er það fréttaveita AFP sem greinir frá þessu.

„Við verðum að stunda daglega þjálfun. Nauðsynlegt er að æfa viðbrögð við árásum úr lofti og frá drónabátum,“ er haft eftir Sergei Shoígú varnarmálaráðherra Rússlands í tilkynningu. Var ráðherrann þá að kynna sér aðstæður og aðbúnað Svartahafsflotans.

Loftvarnir skipanna verða efldar með öflugum vopnakerfum sem nota sjálfvirkar vélbyssur.

Mikil blóðtaka

Á þeim tveimur árum sem liðin eru frá upphafi Úkraínustríðsins hefur Svartahafsflotanum gengið illa að athafna sig. Er nú búið að skemma og sökkva rúmlega 20 herskipum, þ. á m. flaggskipi flotans og einum nýjasta kafbáti Rússlands. Í aðgerðum sínum hafa Úkraínumenn notað öflugar skipaeldflaugar sem skotið er frá landi, árásardróna og bátadróna. Svo virðist sem þeim hafi tekist að kortleggja veikleika Svartahafsflotans með fyrrgreindum afleiðingum. Tjón flotans er það mikið að hernaðarsérfræðingar hafa ósjaldan lýst yfir undrun sinni.

Til að bregðast við þessum árásum hafa Rússar sent fjölmörg herskip sín fjarri ströndum Úkraínu og eru mörg þeirra farin frá rússnesku flotastöðinni Sevastopol á Krímskaga.

Vestrænir hernaðarsérfræðingar hafa talað fyrir mikilvægi árása á flotastöðina, koma verði í veg fyrir að Rússar geti nýtt flota sinn.