Hildigunnur Sigvaldadóttir fæddist 25. mars 1931 á Akureyri. Hún lést 5. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Sigvaldi Þorsteinsson, f. 22. febrúar 1898, d. 23. ágúst 1952, og María Jóhannsdóttir, f. 22. nóvember 1904, d. 18. maí 1939. Systkini hennar eru Ragnheiður Sigvaldadóttir, f. 5.5. 1934, María Einarsdóttir, f. 30.4. 1939, d. 24.9. 2016, Sigvaldi Sigvaldason, f. 30.4. 1939, og Helgi Magnús Sigvaldason, f. 26.1. 1929. Samfeðra er Hulda Sigvaldadóttir Schiønning, f. 28.1. 1945.

Hildigunnur var gift Jóni Torfa Jörundssyni, f. 10.9. 1932, d. 8.5. 1988. Áttu þau fimm syni; Jörund, Ara Má, Sigvalda, Torfa Geir og Jón Berg.

1) Jörundur Sveinn Torfason, f. 1.6. 1952, giftur Jónu Bergdal Jakobsdóttur. Börn: a) Jakob Torfi Jörundsson, f. 19.1. 1974, giftur Ásu Björk Broddadóttur, dætur þeirra eru Dagný Björt, Sara Nótt og Ísabella Gló. b) Hildigunnur Jörundsdóttir, f. 19.3. 1977, gift Þórlindi Magnússyni, börn þeirra eru Magnús Bjarki, Eyþór, Bergdís Anna og Kári Wilhelm. c) Ásdís Jörundsdóttir, f. 2.1. 1979, gift Valþóri Druzin Halldórssyni, börn þeirra eru Freyja og Magni.

2) Ari Már Torfason, f. 19.10. 1955, sambýliskona hans er Sigurborg Jóna Hilmarsdóttir. Börn Ara eru: a) María Ragna Aradóttir, f. 15.8. 1979, gift Birni Hákonarsyni. Börn; Berglind, Ísabella og Elísa. b) Jón Óskar Arason, f. 9.6. 1983, sambýliskona hans er Erna Guðrún Gunnarsdóttir. Börn: Gunnar Ágúst, Torfi, Magnús og Elísabet Klara. c) Vigdís Aradóttir, f. 1.4. 1988, sonur sonur hennar er Kristian Darri. d) Guðrún Arndís Aradóttir, f. 16.4. 1994, synir hennar eru Ásgeir Karl og Róbert Orri.

3) Sigvaldi Torfason, f. 3.1. 1957, giftur Dagnýju Sif Einarsdóttur. Börn þeirra eru: a) Ágúst Sigvaldason, f. 24.5. 1978, sambýlisona hans er Helga Ingadóttir, dætur þeirra eru Jóhanna Heiðrún og Friðrika. Ágúst átti fyrir dótturina Ljósbrá Erlín, sonur hennar er Rökkvi. b) Hildigunnur Sigvaldadóttir, f. 28.11. 1992, sambýlismaður hennar er Robert Samuel Wilson.

4) Torfi Geir Torfason, f. 11.3. 1963, giftur Lenu Steinunni Kristjánsdóttur. Börn: a) Salome Sævarsdóttir, f. 19.10. 1980, börn hennar eru Arnar Geir, Katla María og Harpa Rakel. b) Helga Rut Torfadóttir, f. 9.7. 1984, sonur hennar er Victor Andreas. c) Andri Geir Torfason, f. 30.7. 1992, sambýliskona hans er Gabriella Csavas, barn þeirra er Óliver Geir. d) Eva Lind Torfadóttir, f. 29.1.1995, sambýlismaður hennar er Ali Eroubyl.

5) Jón Berg Torfason, f. 14.3. 1971, giftur Dagmar Óskarsdóttur. Börn: a) Birkir Egill Högnason, f. 7.10. 1982, giftur Gharib Gharib Zahor. Börn: Jón Bjarki og Emilía Sara. b) Snædís Högnadóttir, f. 1.7. 1986, sambýlismaður hennar er Hrannar Bogi Jónsson. Dætur: Andrea Björk og Stefanía Dagmar. c) Jón Torfi Jónsson, f. 21.7. 1995, sambýliskona hans er Ásdís Birna Davíðsdóttir. d) Óskar Jónsson, f. 28.1. 1997, sambýliskona hans er Karólína Jack.

Hildigunnur var fædd og uppalinn á Akureyri. Hún flutti ásamt fjölskyldunni í Hafnarfjörð 1972 og bjó
lengst af á Skúlaskeiði, þar
til hún fór á Hrafnistu í Hafnarfirði 2023 þar sem hún lést. Hún starfaði lengst af sem verkakona og við umönnun. Hún hafði áhuga menningu og listum auk lestri góðra bóka, hafði gaman af handavinnu og söng. Hildigunnur var alla tíð ættrækin, en fyrst og fremst var hún mamma, amma, langamma og langalangamma og vissi ekkert betra en að njóta tímans með og eða
fylgjast með afkomendum sínum.

Útför Hildigunnar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 18. mars 2024, klukkan 13.

Ég var bara 16 ára gömul þegar ég kom í fyrsta sinn í litlu íbúðina á Skúlaskeiðinu í Hafnarfirði. Þar var mér heilsað með hlýju faðmlagi frá Hildigunni og Torfa heitnum sem síðar urðu tengdaforeldrar mínir. Þau voru alltaf tilbúin að gera allt fyrir okkur og voru til staðar fyrir sitt fólk. Torfi féll frá allt of snemma og eftir sat Hildigunnur bara 57 ára móðir 5 drengja. Hún hafði gengið í gegnum marga raunina í lífinu og er þá helst að nefna að hún missti móður sína þegar hún var 8 ára en sá atburður markaði allt hennar líf.

Hildigunnur var mjög falleg kona, litríkur og skemmtilegur persónuleiki, sem allir tóku eftir. Hún var hjá okkur mörg jól og fór með okkur í frí og áttum við margar góðar stundir saman. Þar stóð upp úr ferð til Þýskalands og Ítalíu, sem hún fór með okkur um páska. Hún var vel lesin og áhugasöm um staði og sögu þeirra, maður fann hvað hún naut þess að skoða þessar slóðir. Ávallt var hún til í glens og grín með krökkunum og að segja góðar sögur gjarnan með leikrænum tilþrifum.

Hún var alltaf með eitthvað á prjónunum og var allt árið að sauma, hekla og prjóna jólagjafir og afmælisgjafir fyrir afkomendur sína. Nú er hún komin í draumalandið til Torfa, foreldra sinna og allra hinna sem voru farnir á undan en við hin höldum áfram og getum yljað okkur við minningarnar um ömmu Hildigunni.

Dagný Sif
Einarsdóttir.

Elsku amma Hildigunnur, okkur finnst sárt að kveðja þig en erum svo þakklátar fyrir að hafa getað haft þig í lífi okkar í svona langan tíma. Við minnumst þess allar hversu hress og björt þú varst alltaf. Það var dýrmætt að eiga langömmu og vorum við svo ótrúlega heppnar að hafa átt þig. Við vitum að það verður tekið vel á móti þér á næsta stað, og munt þú mæta með söng og sól í hjarta eins og alltaf. Takk fyrir allar góðu stundirnar.

En handan við fjöllin

og handan við áttirnar og nóttina

rís turn ljóssins

þar sem tíminn sefur.

Inn í frið hans og draum

er förinni heitið.

(Snorri Hjartarson)

Góða ferð, elsku amma, og blessuð sé minning þín.

Dagný Björt, Sara Nótt og Ísabella Gló.

Elsku amma Hildigunnur.

Nú ertu farin til afa og skrítið til þess að hugsa að ég geti ekki heimsótt þig í Hafnarfjörðinn. Alla mína ævi bjóst þú þar og ég var svo heppin að fá að eyða ófáum sumrum í pössun hjá ömmu og afa í Hafnarfirði. Það voru dásamlegir tímar, leikið í Hellisgerði og við krakkana í hverfinu, fór í hornsjoppuna að kaupa kúlur og snúllast í heimsóknum með ykkur. En það sem var best var að vera umvafin ást og umhyggju ömmu og afa. Ég á margar dýrmætar og góðar minningar frá þessum tíma. Svo síðar á unglingsárum var ég svo heppin að fá að búa hjá þér um stund og var það dásamlegur tími sem við áttum saman þótt það hafi tekið tíma að venjast klukkunni sem sló á klukkutímafresti. En mikið var notalegt að vakna þegar ég heyrði að þú varst að brasa á efri hæðinni, raulandi lag eða eins og oftast að blístra einhvern lagstúf. Þú varst alltaf svo fín og vel tilhöfð, afar hugguleg kona alla tíð, áttir mikið af snyrtidóti og fallegum fötum sem ég dáðist að og gaman að eiga ömmu sem er svona mikil skvís. Ég er svo stolt af því að vera nafna þín, því það er ekki amalegt að heita í höfuðið á svona frábærri konu eins og þér. Svo var það mikil tilviljun að ég eignaðist dóttur mína Bergdísi Önnu á afmælisdeginum þínum og þér þótti svo vænt um það og verður því ávallt auðvelt að minnast þín á þeim fallega degi.

Gjafmildi einkenndi þig og hvenær sem maður kom við mátti ekki fara út tómhentur, né með tóman maga, þú tókst það ekki í mál, best var að þiggja bakkelsi, sultu eða eitthvert fallegt handverk til að taka með. Þú varst mikil keppnismanneskja og elskaðir að hafa rétt fyrir þér og áttum við nokkur söguleg spilakvöld þar sem við enduðum á að leita í símaskrá þar sem að þínu mati var svarið ekki rétt í spilinu, ó amma, við hugsum til þín þegar við spilum næst. Þú varst með svo marga góða kosti, listræn, dugleg að syngja og einnig lék allt í höndunum á þér og ég á mikið af fallegum munum eftir þig sem eru uppi á vegg og eða prjónaskap sem nýtist víða og mér þykir óendanlega vænt um. Ég mun sakna þess mikið að geta ekki hringt í þig, knúsað þig, fengið kaffisopa með þér og spjallað. Þú kenndir mér að maður á ekki að taka lífið of alvarlega og alltaf var stutt í glens og grín hjá þér og ég ætla að gera mitt til að halda minningu þinni á lofti þannig.

Elska þig, elsku besta amma mín, bið að heilsa afa.

Þín nafna,

Hildigunnur
Jörundsdóttir.

Nú er elsku amma farin í sumarlandið til hans afa og hennar verður sárt saknað en ég er þakklát fyrir allar dýrmætu minningarnar sem eru ófáar.

Amma var einstök kona. Hún hafði góða kímnigáfu og það var gaman að gantast með henni. Þessi kímnigáfa hvarf reyndar eins og dögg fyrir sólu ef ræða átti staðarheiti á Íslandi, enda slíkt augljóslega mikið alvörumál sem oft krafðist þess að dregnar væru fram landafræðibækur til þess að skera úr um í málum þar sem fólk var henni ekki sammála. Hún var nefnilega dálítið þrjósk, já bara dálítið.

Amma var mikill gestgjafi og galdraði oft fram veislur á mettíma. Í seinni tíð vildi maður ekki láta hana hafa of mikið fyrir sér og reyndi því að láta vita með eins litlum fyrirvara og hægt var af væntanlegri heimsókn. Það virtist þó ekki skipta miklu máli og var hún jafnvel búin að töfra fram köku eða pönnsur á mettíma.

Amma var óttalaus þegar kom að handavinnu. Fyrir utan allan þann fjölda af peysum og húfum sem hún prjónaði á okkur barnabörnin og svo barnabarnabörnin, þá er heklaða jólaskrautið frá henni í sérstöku uppáhaldi hjá okkur og fallega útsaumaða myndin sem hún gaf okkur hjónunum í brúðkaupsgjöf. Það lék allt í höndunum á henni og hún var óhrædd við að prófa sig áfram í nýjum miðlum, prjón, útsaum, málun og glerlist svo eitthvað sé nefnt. Allt fram á síðasta dag var hún að skapa og þegar ég og Magni sonur okkar hjóna heimsóttum hana daginn áður en hún lést sýndi hún okkur stolt handmálaðan poka, frumgerð jólagjafanna til fjölskyldunnar í ár. Þann sama dag sendi hún okkur heim með fallega borðtusku sem hún hafði verið að hekla en þær framleiddi hún á við öflugustu prjónaverksmiðju og eru ófáar slíkar til á heimilinu.

Svona var hún, maður leit í heimsókn og fyrr en varði var hún komin inn í skáp að taka fram prjónaða bangsa, peysur og tuskur sem hún vildi að fylgdu okkur heim.

Amma elskaði tónlist og var afar söngelsk. Hún raulaði mikið og blístraði af innlifun enda mikill stuðbolti. Ég lærði af henni að texti laganna er ekkert aðalatriðið, heldur er það innlifunin í laglínunni sem öllu skiptir og ekkert mál að raula með þó orðin vanti.

Ég mun alltaf varðveita allar minningarnar sem ég á frá því að ég var lítil stelpa með ömmu og afa og svo nú í seinni tíð úr Skúlaskeiðinu og þegar amma kom í heimsóknir til okkar og langömmubörnin Magni og Freyja fengu öll dýrmætu langömmuknúsin.

Takk fyrir allt, elsku amma. Dísa þín,

Ásdís
Jörundsdóttir.