Óttaslegin Milly Bobby Brown í klóm drekans í Damsel.
Óttaslegin Milly Bobby Brown í klóm drekans í Damsel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netflix Damsel ★½··· Leikstjórn: Juan Carlos Fresnadillo. Handrit: Dan Mazeau. Aðalleikarar: Millie Bobby Brown, Ray Winstone, Angela Bassett, Robin Wright og Nick Robertson. Bandaríkin, 2024. 110 mín.

kvikmyndir

Helgi Snær

Sigurðsson

Streymisveitan Netflix sendi nýverið frá sér ævintýramynd af gamla skólanum með eldspúandi dreka, prinsi og öllum pakkanum. Damsel nefnist hún, eða Ungfrú og er því miður enn eitt feilskot veitunnar sem virðist nær ómögulegt að framleiða vandaðar kvikmyndir. Ein og ein ágæt hefur þó verið framleidd og örfáar sem telja má virkilega góðar.

Milly Bobby Brown fer með hlutverk ungmeyjarinnar Elodie sem gefin er ungum prinsi, Hinrik að nafni, til að greiða upp skuld föður síns, Bayfords lávarðs (Winstone). En áður en að því kemur er farið aldir aftur í tímann og sýnt hvernig konungur nokkur, sem þá ríkti, drap þrjá dreka nýskriðna úr eggjum sínum. Var þar með lögð bölvun á kónginn og alla hans erfingja sem þurft hafa um aldir að færa fórnir til að halda drekanum góðum. Og eins og oft vill vera í ævintýrum eru það ungar meyjar sem mæta örlögum sínum, er fleygt ofan í hyldjúpan helli þar sem eldspúandi dreki býr. Elodie er ein slík mey, ekki fyrr búin að ganga að eiga prinsinn en henni er kastað ofan í hyldýpið. Hún lifir fallið af, illa skrámuð, og tekur þá við langur kafli þar sem hún ýmist flýr eða leikur á drekann og ræðir við hann. Drekinn talar auðvitað þessa fínu ensku og með hreim sem breska konungsfjölskyldan yrði fullsátt við. Reyndar á það við um alla leikara, hvort heldur eru bandarískir eða breskir, þeir tala allir ensku með slíkum hreim sem er frekar skrítið. Elodie er verulega klók og fljót að átta sig og tekst að sleppa úr hellinum. En ævintýri hennar og drekans er þó ekki lokið.

Þetta er skrítin kvikmynd, of ofbeldisfull og subbuleg til að vera við hæfi barna en of barnaleg til að vera við hæfi fullorðinna. Talandi drekar eru nú oftar í barnamyndum og skrítið að sjá einn slíkan í svona mynd sem þarf þó ekki að vera slæmt. Drekinn er með svakalega flotta og ráma rödd írönsku leikkonunnar Shoreh Aghdalshoo sem hefur greinilega notið sín í talsetningunni. Röddin góða réttlætir í raun að hér sé talandi dreki.

Brown stendur sig nokkuð vel í hlutverki Elodie sem ætti ekki að koma á óvart þeim sem horft hafa á Stranger Things þar sem hún leikur Eleven. Robin Wright er sæmileg í hlutverki vondrar drottningar og Angela Bassett gerir sitt besta í afar þunnu hlutverki stjúpunnar. Ray Winstone er aftur á móti hörmulegur í hlutverki fátæks konungs og hefði gjarnan mátt finna annan leikara í það hlutverk.

Það kemur nokkuð á óvart að sjá þennan annars ágæta leikarahóp í svona lélegri mynd og sýnir, enn og aftur, mikilvægi þess að öll púsl smelli saman í kvikmyndagerð. Tölvuteiknaður bakgrunnur í fjölda atriða er hræðilega gervilegur, svo mjög að maður vill helst loka augunum og á heildina litið eru litir myndarinnar of sterkir og æpandi, líkt og væmið veggfóður í barnaherbergi. Búningahönnun er á köflum svo léleg að maður getur ekki annað en hlegið, sérstaklega að útganginum á prinsinum sem Nick nokkur Robinson leikur, gersneyddur öllum sjarma. Meira að segja hárið á Brown er undarlegt og ákaflega gervilegt.

Damsel er meingölluð mynd en þó ekki alslæm. Drekinn er ágætlega gerður og atriðin með honum og ungmeynni eru þau sem standa upp úr og bjarga því sem bjargað verður. Drekasögur hafa löngum heillað okkur mennina og munu eflaust gera áfram. En þessi drekasaga verður seint talin með þeim betri.