Málarekstur Hafi landeigendur pappíra tiltæka er yfirleitt engu að kvíða í málarekstri, segir Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður frá Úthlíð í Biskupstungum sem mikið hefur síðustu árin sinnt þjóðlendumálum.
Málarekstur Hafi landeigendur pappíra tiltæka er yfirleitt engu að kvíða í málarekstri, segir Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður frá Úthlíð í Biskupstungum sem mikið hefur síðustu árin sinnt þjóðlendumálum. — Morgunblaðið/Óttar
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Eignarhald á jörðum þarf að vera á hreinu og mikilvægt er að koma málum á hreint. Oft fylgir þessu heilmikið strögl fyrir dómstólum og taka þarf allskonar sjónarmið með í reikninginn. Hafi landeigendur pappíra tiltæka er yfirleitt engu að kvíða í málarekstri,“ segir Ólafur Björnsson hæstaréttarlögmaður. – Um þessar mundir eru liðin 25 ár frá því að stjórnvöld stofnuðu til óbyggðanefndar, en hennar er að úrskurða um kröfur um yfirráð ríkisins á óskiptu landi í óbyggðum. Á þeim aldarfjórðungi sem síðan er liðinn hefur kröfum verið lýst á svæðum um allt land og eignarhald þar útkljáð af dómstólum.

Línan lá í gegnum hjónarúmið

Fyrsta þjóðlendukrafan kom fram af hálfu fjármámálaráðuneytis, sem fer með fyrirsvar ríkisins í þessum málum, árið 1999. Slíkt var á grundvelli þjóðlendulaga sem sett voru ári fyrr. Krafan náði til efstu jarða og afrétta í uppsveitum Árnessýslu. Þar með taldist jörðin Úthlíð í Biskupstungum, þá eign hjónanna Björns Sigurðssonar og Ágústu Ólafsdóttur, sem bæði eru látin. Meðan þeirra naut við leituðu þau eðlilega til Ólafs sonar síns, lögmannsins sem síðan þá hefur sinnt þjóðlendumálum fyrir fjölda umbjóðenda víða um land

„Talið var nauðsynlegt að koma merkjum á hreint milli jarða og afrétta, það er eignarlanda og almenninga. Deilt hafði verið um þetta lengi. Stundum voru til dæmis erjur milli landeigenda og skotveiðimanna sem bentu á að veiðar væru öllum heimilar á almenningum,“ segir Ólafur.

Fyrsta krafa ríksins í þjóðlendumálum, sem birt var 1. mars 1999, kom mörgum algerlega í opna skjöldu. Sú var dregin þvert í gegnum heimalönd jarða og stundum nálægt bæjarhúsum. Frægt varð að línan virtist fara í gengum hjónarúmið á bænum Fossi í Hrunamannahreppi. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og í þjóðlendumálum hafa fallið meira en 60 dómar í Hæstarétti.

Kröfur að ósekju

Nú, á útmánuðum 2024, er málsmeðferð óbyggðanefndar á Austurlandi á lokastigi. Einnig er nefnd að störfum vegna nokkura endurupptökumála, samanber breytingu á þjóðlendulögum. Þá eru nokkur óútkljáð mál til meðferðar hjá dómstólum er varða Vesturland og Vestfirði. Nýjast er svo að fyrir skemmstu gerði óbyggðanefnd kröfur í eyjar og sker við Ísland. Sem fyrr eru kröfur ríkisins ítarlegar, að sögn Ólafs Björnssonar, og hafa valdið óánægju meðal landeigenda.

„Sumum finnst sem ríkið hafi að ósekju gert kröfur í þinglýstar jarðeignir sínar, sem sumar liggi nærri landi og séu jafnvel landfastar á fjöru. Í mörgum þessum eyjum var búseta um aldir og flestar eru metnar til fasteignaverðs. Frestur landeigenda til að skila sínum gögnum og kröfum til óbyggðanefndar er fram í miðjan maí. Þessi mál taka jafnan um tvö ár hjá óbyggðanefnd, en svo er hægt að skjóta úrskurðum til dómstóla og þá getur slík meðferð tekið nokkur ár,“ segir lögmaðurinn.

Mörkin hafa verið skýrð

Helsta niðurstaða óbyggðanefndar, sem staðfest hefur verið af dómstólum, er að jarðir með þinglýstum landamerkjabréfum, sem eru athugasemdalaus, eru eignarland, segir Ólafur aðspurður hvað áunnist hafi með málarekstri þessum í heilan aldarfjórðung.

„Afréttir og almenningar eru þjóðlendur. Mörk eignarlands og þjóðlendna hafa því verið skýrð. Umráðaréttur og skipulagsvaldið á þjóðlendum er hjá sveitarfélögum og bændur hafa þar hefðbundinn afnotarétt,“ segir lögmaðurinn og heldur áfram:

„Kröfurnar sem óbyggðanefnd hefur komið með á síðustu árin hafa þó sumar hverjar verið óvæntar. Almennt hefur verið litið svo samkvæmt netlögum að eignarland bænda nái 115 metra út í sjó frá punkti á stórstraumsfjöru, en stundum bregður nýrra við. Krafa um að hluti af Heimaey sé þjóðlenda er eftirtektarverð; afsal á landi þar í ríkiseigu til Vestamannaeyjabæjar árið 1963 er tiltækt og alveg skýrt. Þá er staðfest í þinglýsingarbókum að Drangey á Skagafirði er eign sveitarfélagsins og því sérstakt að ríkið telji nú að eyjan sé þjóðlenda.“

Kröfugerðir ríkisins til óbyggðarnefndar segir Ólafur að taki iðulega breytingum. Eins og nú hátti til þurfi landeigendur að taka saman gögn og merkja inn á kort hvernig landið liggi. Skýra slíkt síðan út við óbyggðanefnd. Best sé að gera þetta með aðstoð lögmanna, en almennt fái landeigendur gjafsókn í þessum málum. Í framhaldinu skili ríkið svo greinargerð og kemur þá gjarnan fram með endanlegar kröfur sínar, áður en málin gagna til dóms. Á því stigi eru skýrslur teknar af fólki og gjarnan farið á vettvang.

Máldagar, lögfestur, landamerkjabréf, dómar og afsöl

„Þjóðskjalasafnið sér einkum um gagnaöflun. Þar eru allar skriflegar heimildir um jarðeignir teknar saman, m.a. máldagar, vísitasíur, lögfestur, landamerkjabréf, skiptagerðir, dómar, kaupsamningar, afsöl og önnur eignaskjöl,“ segir Ólafur.

Mál sem lúta að þjóðlendum segir lögmaðurinn að komi gjarnan öðru á hreyfingu, svo sem skiptingu landamerkja í byggð.

„Stundum er meiningarmunur um merki milli jarða. Einkum eru málin þannig að deilt er um staðsetningu örnefna skv. landamerkjabréfum. Nú eru hins vegar komin ný landamerkjalög og því má búast við að merki verði hnitsett í auknum mæli. Þess vegna er í raun alveg viðbúið að lögfræðingar og fleiri þurfi að lesa úr ágreiningi við að staðsetja örnefnin nákvæmlega. Stóra viðfangsefnið núna er samt að ljúka þeim málum sem stofnuð hafa verið vegna krafna óbyggðanefndar, sem á að hafa lokið störfum fyrir lok næsta árs,“ segir Ólafur Björnsson að síðustu.

Hver er hann?

Ólafur Björnsson er fæddur árið 1962. Hann hefur í um 30 ár starfað sem lögmaður á Selfossi og sem slíkur sinnt fjölbreyttum verkefnum. Rekur í dag eigin lögmannsstofu og fasteignasölu, jafnhliða því að stunda búskap og reka ferðaþjónustu í Úthlíð í Biskupstungum.