Í Liverpool Hjónin með börnum og tengdabörnum á Anfield síðastliðna helgi.
Í Liverpool Hjónin með börnum og tengdabörnum á Anfield síðastliðna helgi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinrik Kristjánsson fæddist 18. mars 1954 á Flateyri við Önundarfjörð. „Uppvaxtarárin á Flateyri fóru mikið í útiveru og alls kyns leiki, svo sem fallin spýtan, yfir, hverfu og boltaleiki. Þá var vinsælt hjá strákum að smíða fleka og sigla í fjöuborðinu

Hinrik Kristjánsson fæddist 18. mars 1954 á Flateyri við Önundarfjörð. „Uppvaxtarárin á Flateyri fóru mikið í útiveru og alls kyns leiki, svo sem fallin spýtan, yfir, hverfu og boltaleiki. Þá var vinsælt hjá strákum að smíða fleka og sigla í fjöuborðinu. Á veturna var stundað hlaup á ísjökum.“

Hinrik var mikið fyrir fótbolta og aðra boltaleiki ásamt frjálsum íþróttum.

Eftir nám í Barnaskólanum á Flateyri, þar sem hann fékk sitt fyrsta ábyrgðarhlutverk þ.e.a.s hringjari, sem felst í því að hringja bjöllu í og úr tíma. Að vori veitti skólastjórinn, Hjörtur Hjálmarsson, honum viðurkenningu um vel unnin störf, bókina um fótboltamanninn Eusébio.

Leiðin lá síðan í gagnfræðiskóla Borgarnes þar sem hann dvaldi hjá móðursystur sinni, Rögnu Hjartar, og hennar fjölskyldu í góðu yfirlæti en á þessum árum starfaði faðir Hinriks sem sjómaður og var mikið fjarverandi frá eiginkonu og börnum. Í Borgarnesi var mikið íþróttalíf sem heillaði ungan dreng að vestan sem stundaði þar íþróttir af kappi.

„Eftir gagnfræðiprófið vann ég í fiski heima á Flateyri og safnaði fyrir námi. Veturinn eftir fór ég í Héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði í 5. bekk Þar var gaman að vera og mikið spilaður körfubolti og fótbolti, auk þess var þar mjög skemmtilegt félagslíf.

Veturinn eftir, árið 1973-1974, fór ég í Verslunarskóla Íslands. Það var mjög framandi fyrir mig og mikil og ný upplifun. Námið gekk sæmilega en hugurinn var mikið við íþróttir. Í keppnisferð með skólaliði Versló í fótbolta til Akureyrar, en þangað hafði ég ekki komið áður, hitti ég unga ljóshærða sæta stelpu sem heitir Ingibjörg Kristjánsdóttir sem síðar varð eiginkona mín. Og eigum við því 50 ára samveruafmæli núna í mars. Um vorið eftir nám í Versló var haldið til Flateyrar ásamt kærustunni. Þar tók við vinna í fiski, beitningu og slægingu.

Eftir að hafa verið í verkstjórn og fiskvinnslu ásamt tilraunum til að verða sjómaður, skipstjóri var draumastarfið, varð mér það ljóst að vegna sjóveiki gengi það ekki.

Það var síðan árið 1983 að ég og bróðir minn, Guðmundur Helgi ásamt mági mínum og okkar mökum, ákváðum við að fara í útgerð og keyptum við okkar fyrsta bát frá Húsavík. Þegar við fórum norður til þess að skoða bátinn þá áttum við aðeins fyrir flugfarinu til Akureyrar og fengum síðan lánaðan bíl hjá svila mínum á Akureyri til þess að keyra til Húsavíkur. Eftir skoðun ákváðum við að kaupa bátinn sem var 37 tonna eikarbátur. Bróðir minn og mágur urðu eftir til þess að gera bátinn kláran, ég flaug heim til fundar við gamla skólastjórann minn, Hjört Hjálmarsson sem þá var orðinn sparisjóðsstjóri, til að athuga hvort við fengjum lán fyrir útborgun í bátinn og veiðarfærum.

Þetta gekk eftir og reyndist sparisjóðurinn okkur vel fyrstu árin okkar í útgerð. Árið 1987 stofnuðum við, ásamt öðrum, fiskvinnslu sem fékk nafnið Fiskvinnslan Kambur. Það varð mitt hlutskipti að vera í forsvari fyrir þessi félög okkar en Guðmundur Helgi og mágur minn, Guðmundur Njálsson, sóttu sjóinn af miklum dugnaði og eljusemi.

Það var svo árið 1993 að Fiskvinnslan Kambur ehf. kaupir meirihluta í Hjálmi hf. sem var stærsti atvinnurekandi á staðnum. Síðan gerist það að mikil ógæfa dynur yfir á Flateyri, þ.e.a.s. snjóflóð fellur á eyrina í október 1995. 20 íbúar láta lífið og í framhaldinu flytja 80-100 manns í burt frá Flateyri. Við ákváðum að spyrna við fótum og reyna að halda okkar starfsemi áfram.

Eftir mitt ár 1996 kemur upp umræða um sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja á norðanverðum Vestfjörðum undir merkjum Básafells á Ísafirði. Þetta gengur eftir og sameinast Fiskvinnslan Kambur Básafelli. Af ýmsum ástæðum gengur rekstur Básafells ekki upp og er selt árið 1999. Þá gefst okkur tækifæri á að kaupa fasteignir, vélar og tæki vinnslunnar á Flateyri til baka sem og við gerðum, byrjuðum við aftur á núllpunkti.

Okkur bauðst líka að kaupa skip og kvóta af nýjum eigendum Básafells en höfðum ekki bolmagn til þess. Heldur keyptum við smábáta og kvóta í því kerfi sem var ódýrara. Síðar keyptum við tvo beitningavélabáta og kvóta. Voru þessi kaup mjög dýr og skuldsetning félagana þar af leiðandi mjög mikil. Rekstrarskilyrði á þessum tíma voru mjög erfið, sterk króna, flutningskostnaður mjög hár sem og aðrar rekstrarvörur. Þá reyndist einnig erfitt að manna bátana og vinnsluna. Var þetta til þess að árið 2007 ákváðum við að selja fyrirtækið.

Í framhaldinu flytur fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Eftir góða hvíld í tæplega ár leitar hugurinn hjá fjölskyldumeðlimum aftur í útgerð og vinnslu. Við látum smíða fyrir okkur bát í smábátakerfinu hjá Trefjum Hafnarfirði og byrjum aftur að kaupa kvóta. Kaupum við einnig litla fiskvinnslu í Hafnarfirði sem við stækkuðum smá saman. Þegar ég er kominn á aldur eins og sagt er, ákváðum við fjölskyldan að selja og láta staðar numið í útgerð og fiskvinnslu. Lengst af höfum við hjónin ásamt börnum okkar og tengdasyni staðið í þessu brölti saman.

Þá tók ég einnig þátt í rekstri á ferðaþjónustufyrirtæki með yngri syni mínum sem heitir Special Tours.“

Hinrik tók þátt í félagsstarfi eins og kostur gafst. Þar á meðal í hreppsnefnd Flateyrarhrepps í átta ár fyrir Sjálfstæðisflokkinn, frá 1978-1986. „Hin seinni ár hafa áhugamál okkar hjóna verið golf, ferðalög og samvistir við börn og barnabörn.“

Fjölskylda

Eiginkona Hinriks er Ingibjörg Kristjánsdóttir frá Akureyri, f. 15.10. 1957. Þau eru búsett í Garðabæ. Foreldrar Ingibjargar voru hjónin Kristján Halldórsson, f. 26.9. 1912, d. 24.5. 1991, smiður, og Steinunn Kristín Guðmundsdóttir, f. 14.3. 1923, d. 22.12. 2010, húsmóðir.

Börn Hinriks og Ingibjargar eru: 1) Kristjana, f. 16.8. 1976, skrifstofumaður, búsett í Garðabæ. Maki: Atli Freyr Kjartansson, f. 9.8. 1975, skipstjóri. Dætur þeirra eru Katrín Rut, f. 2008 og Freydís María, f. 2014; 2) Hólmar Jóhann, f. 8.12. 1981, framleiðslustjóri, búsettur í Garðabæ. Maki: Tinna Björg Guðmundsdóttir, f. 15.6. 1984, tannlæknir. Þeirra börn eru Rakel Mist, f. 2004, Vilhelm Ari, f. 2006, og Ingibjörg Ása, f. 2018; 3) Friðfinnur Hjörtur, f. 24.9. 1984, athafnamaður, búsettur í Garðabæ. Maki: Ásta Guðrún Óskarsdóttir, f. 23.10. 1985, ljósmyndari. Synir þeirra eru Hinrik Axel, f. 2015, og Kristján Stormur, f. 2018. Fyrir átti Hjörtur dóttur, Kristínu Birnu, f. 2005.

Systkini Hinriks eru Guðmundur Helgi Kristjánsson, f. 20.10. 1952, Hálfdán Kristjánsson, f. 6.2. 1956, Kristjana Kristjánsdóttir, f. 14.1. 1958, Ragnar Hjörtur Kristjánsson, f. 15.9. 1959, Guðríður Rúna Kristjánsdóttir, f. 21.10. 1965, og ein hálfsystir, samfeðra, Þórdís Kristjánsdóttir, f. 26.5. 1949, d. 26.4. 1995.

Foreldrar Hinriks voru hjónin Kristján Hálfdánarson, f. 3.3. 1929, d. 16.10. 2008, sjómaður og síðar kennari og skrifstofumaður á Flateyri, og Jónína Hjartardóttir, f. 3.2. 1930, d. 5.7. 1996, húsmóðir.