Baldur Einarsson fæddist í Ekkjufellsseli í Fellum, Norður-Múlasýslu, 26. ágúst 1938. Hann lést á Kanaríeyjum 19. febrúar 2024.

Foreldrar Baldurs voru Jóna Jónsdóttir húsmóðir, f. 21. október 1910, d. 8. desember 1983, og Einar Sigurbjörnsson bóndi, f. 2. desember 1901, d. 8. febrúar 1995. Baldur átti fjórar systur, Sigurbjörgu, f. 20. ágúst 1927, Margréti, f. 12. október 1929, Guðrúnu, f. 23. desember 1932, og Bryndísi, f. 23. janúar 1945. Þær eru allar látnar.

Eiginkona Baldurs var Svala Eggertsdóttir, f. 11. febrúar 1937, d. 4. október 2019.

Baldur ólst upp í foreldrahúsum í Ekkjufellsseli, lauk gagnfræðaprófi frá Alþýðuskólanum Eiðum, hóf síðan nám í húsasmíði hjá Trésmiðju KHB og lauk sveinsprófi 1960. Baldur sigldi til Kaupmannahafnar 1961 og nam byggingartæknifræði við Köbenhavns Teknikum og lauk þaðan prófi 1966.

Svala og Baldur gengu í hjónaband 6. apríl 1963 og hófu búskap í Kaupmannahöfn þar sem Baldur stundaði nám. Baldur vann hjá E-PhilSön Kaupmannahöfn við byggingastjórn, tilboðsgerð og mælingar til 1968 þegar þau hjónin fluttust heim. Fyrst eftir heimkomuna vann Baldur við mælingar við byggingu Búrfellsvirkjunar en árið 1970 réð hann sig sem deildartæknifræðing til Rafmagnsveitu Reykjavíkur og starfaði þar til 1975. Þá fluttu þau hjónin að Ullartanga í Fellabæ þar sem hann tók við starfi byggingarfulltrúa hjá Byggingarstofnun landbúnaðarins og var hans umdæmi N-Múlasýsla, S-Múlasýsla og A-Skaftafellssýsla. Árið 1975 var hafinn undirbúningur að borun eftir heitu vatni fyrir Egilsstaði og Fell og tók það hug Baldurs enda var ákveðið að hefja leitina í Urriðavatni í landi Ekkjufellssels. Baldur tók við starfi hitaveitustjóra Egilsstaða og Fella í júní 1979 og sinnti því til ársins 1985. Þá fluttu þau hjónin til Reykjavíkur og hann tók aftur til starfa sem deildarstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og endaði þar starfsferil sinn 2008. Þau hjónin bjuggu síðustu árin í Bólstaðarhlíð 41 og var Baldur í stjórn húsfélagsins í Bólstaðarhlíð í mörg ár. Eftir að starfsferlinum lauk sinnti hann hugðarefnum sínum, ferðalögum, golfi, dansi, tálgun og hélt utan um félag fjölskyldunnar Ekkjufellssel sf.

Útförin fer fram frá Háteigskirkju í dag, 18. mars 2024, klukkan 13.

Kæri Baldur.

Þú ert búinn að vera okkur eins og afi. Alltaf þegar ég kom þá varstu með Oreo, sætabrauð eða eitthvert nammi alveg eins og hinir afarnir okkar.

Þú varst alltaf glaður, hress og kátur, nenntir alltaf að gera allt sem gerði alla aðra glaða. Þú munt enn þá lifa í hjarta okkar allra. Vona að þér líði vel uppi í himnaríki með Svölu Eggertsdóttur.

Elska ykkur af öllu mínu hjarta og ég mun aldrei gleyma ykkur.

Kær kveðja,

Svala Margrét.

Fallinn ertu frá okkur, elsku Baldur.

Mín fyrstu kynni af þér voru þegar við unnum saman hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þá fannst mér þú vera þungur á brún og bauðst ekki upp náin kynni, en annað átti eftir að koma á daginn þegar ég var svo heppinn að fá að tengjast þér nánari fjölskylduböndum. Þá fékk ég að sjá hvaða mann þú hafðir sannarlega að geyma, hreinn og beinn, mikill húmoristi og ekki síst sannur vinur.

Nú verða ekki fleiri heimsóknir í Sel eða fallega sumarbústaðinn ykkar Svölu. Við áttum nokkrar góðar rólegheitastundir þar sem ræddum öll hin skemmtilegustu mál og einnig alvarlegri málefni sem lágu á okkur á þeirri stundu sem við settumst saman á bekkinn við Sel.

Takk fyrir allt sem þú hefur fært okkur fjölskyldunni, gleði, hamingju og að fá að eyða með þér tíma á ferðalögum og heimsóknum til þín. Þú varst og ert stór hluti af okkur. Takk fyrir allt og þá sérstaklega fyrir þína vináttu í minn garð.

Farðu í friði, elsku vinur.

Jón Bjarni.

Þá er fallinn frá einstakur vinur og öðlingur Baldur Einarsson. Það er óhætt að segja að það hafi komið okkur á óvart því það var ekkert sem að benti til þess að við þyrftum að fara að kveðja, þrátt fyrir árin 85. Erlu og Ingólfi var hann kær vinur, félagi og mágur í rúmlega 60 ár. Fyrir okkur systur var hann eins og aukaafi eða pabbi og svo nutu börnin okkar sömu gæða og gekk hann undir nafninu langi-afi, þar sem hann var svo langur. Baldur var rólegur og yfirvegaður en um leið einstakur húmoristi og sá hið skoplega í flestum aðstæðum. Hann var einstaklega traustur, hlýr, vandvirkur og nýjungagjarn.

Samvera og vinátta við Baldur og Svölu er fléttuð í minningar okkar systra frá fæðingu, það var lukka okkar að hafa þau hjónin með okkur á lífsleiðinni. Þau voru samtaka og samrýnd og kunnu að njóta lífsins. Það var alltaf yndislegt að koma til þeirra og okkar fyrstu minningar tengjast heimsóknum til þeirra á Ullartangann þar sem alltaf var sól og sæla og Lucky Charms í morgunmat. Þá voru ófá skiptin sem við mættum spennt í heimsókn til að sjá hvort bæst hafi í safnið af hrekkjadóti. Þegar þau fluttust aftur til Reykjavíkur urðu samverustundir fjölskyldnanna svo miklu fleiri, þar með talin jól og áramót, og ekki hefur liðið það sumar að við höfum ekki ferðast saman. Minningabrunnurinn er mjög stór, svo endalaust margar yndislegar samverustundir. Það var alltaf svo yndislegt að koma á æskuheimili Baldurs, að Ekkjufellsseli, þar rifjaði hann upp æskuminningar sínar og sagði sögur af foreldrum sínum og systrum. Síðustu árin áttum við ótal góðar stundir, oftast yfir góðum mat og drykk.

Systurnar Svala og Erla voru mjög samrýndar og fjölskyldurnar vörðu miklum tíma saman og áttu ýmis sameiginleg áhugamál. Sem dæmi átti golf allan þeirra huga á tímabili, ferðalög bæði innanlands og utan, línudans, veiðar og svo margt fleira. Þeir svilar, Ingólfur og Baldur, voru miklir vinir og áttu ýmis sameiginleg áhugamál og nýjasta áhugamálið var að tálga og mála íslenska fugla úr tré.

Baldur hefur verið okkur systrum mikil fyrirmynd í lífinu. Hann kenndi okkur að hafa húmor fyrir sjálfum okkur og sjá hið skoplega í aðstæðum en samhliða að vera alvarlegur þegar það á við. Hann lagði áherslu á vandvirkni og að fara vel með. Hann gat endalaust haft áhuga á því sem við vorum að brasa og gera og hvatti okkur áfram og var alltaf fyrstur að gleðjast með okkur þegar vel gekk. Baldur var sérlega flinkur í að njóta lífsins og alls hins góða sem það bauð upp á en á látlausan og yfirvegaðan hátt.

Það er sárt og erfitt að kveðja og Baldurs verður sárt saknað.

Ingólfur, Erla, Brynja, Magnea og Gyða.

Við kveðjum í dag móðurbróður minn og vin.

Baldur var góð fyrirmynd fyrir yngri kynslóð ættingja, þar á meðal mín. Baldur var mjög jákvæður og fljótur að tileinka sér nýjungar sem létt gætu lífið, ekki bara hans sjálfs heldur líka þeirra sem í kringum hann voru.

Hann ólst upp við örar breytingar í Seli hjá afa og ömmu, allt frá slætti með orf og ljá, yfir í sláttuvélar dregnar af hestum og svo loks af dráttarvélum.

Hann var mikill drifkraftur í að þessar nýjungar og aðrar væru teknar upp í Seli og þessi jákvæða afstaða hans gagnvart nýjungum entist honum út lífið.

Baldur var með eindæmum ráðagóður þegar kom að framkvæmdum, hvort sem það var innanhúss eða utan og voru þau ófá símtölin sem hann fékk frá okkur þegar verið var að velta fyrir sér hvernig best væri að framkvæma hlutina.

Alltaf var notalegt að koma í heimsókn til Baldurs og Svölu. Afkomendur okkar minnast Baldurs og Svölu vegna þess hversu skemmtileg þau voru.

Baldur var líka með eindæmum stríðinn og í dótakassanum hjá þeim hjónum var yfirleitt að finna eitthvert óvænt leikfang, t.d. könguló eða snák.

Baldri var alltaf mikið í mun að halda Seli i góðu standi og í eigu ættarinnar og eftir að afi og amma voru fallin frá tók Baldur að sér að halda utan um alla anga sem tengdust Seli sem hann auðvitað gerði með myndarbrag.

Í Seli vorum við afkomendurnir, makar og börn vön á árum áður að hafa vinnuviku á hverju sumri og komu þá allir sem vettlingi gátu valdið og hjálpuðust að við að halda húsinu og umhverfinu við eða framkvæma einhverjar nýjungar.

Sem dæmi má nefna verk eins og að smíða og bera á pallinn við húsið og við hjólhýsið ásamt því að smíða utan um heita pottinn. Ekki má gleyma því að gróðursett voru tré og runnar sem veita í dag mikið skjól umhverfis húsið. Alltaf var líf og fjör í Seli í vinnuviku. Ef hægt var vegna veðurs þá var farið út að Urriðavatni og lögð net með spírum sem síðan var vitjað um daginn eftir. Oftast var aflinn einhver og þá var drifið í að koma fiskinum heim og elda hann. Sumum fannst meira varið í að veiða fiskinn en að borða hann.

Í lok vinnuviku var alltaf slegið upp veislu og þá oftar en ekki var elduð holusteik sem er lambalæri grillað í holunni bak við húsið.

Fastur liður var síðan alltaf í það minnsta ein ferð upp á fellin fyrir ofan Sel þar sem jafnt fullorðnir sem börn reyndu að velta hinu fræga Grettistaki sem er stór steinn í fellinu sem lítur út fyrir að vera að detta.

Trúlega hafa allir sem komið hafa í Sel farið upp að Grettistakinu eða í það minnsta verið bent á hvar það er.

Seinustu ár hefur vinnuvikan hopað eftir því sem aldurinn færðist yfir ættingjana.

Árið 2014 átti húsið Ekkjufellssel 100 ára afmæli og þá var auðvitað slegið upp veislu með partítjaldi og alles.

Í ár er Sel 110 ára og af því tilefni var búið að ákveða að endurtaka leikinn og halda afmælishátíð í sumar. Við munum sakna þess að hafa Baldur með okkur í persónu en við erum viss um að hann verður með okkur engu að síður.

Hvíl í friði, elsku Baldur.

Arnbjörn og Jóhanna.

Okkar kæri vinur Baldur er fallin frá. Minning um hann er sveipuð gleði sem tengist óteljandi samverustundum bæði hér heima og erlendis síðastliðin 60 ár. Baldur tileinkaði sér nýjustu tækni og hafði óendanlega þolinmæði við að láta græjurnar virka enda lærður byggingatæknifræðingur, yfirvegaður og nákvæmur í öllu sem hann gerði. Baldur var höfðingi heim að sækja og nutum við gestrisni þeirra Svölu oft meðan þau bjuggu austur í Fellabæ við Egilsstaði, þar sem Baldur var fæddur og uppalinn. Þar keyptu þau hjónin sér tvo hesta og ætluðu að gerast hestamenn en vantaði genin sem til þurfti svo hestamennskan varð skammvinn. Eftir að Baldur var orðinn einn urðu samskipti okkar tíðari því að við ákváðum að nota tæknina og skrifast á einu sinni í viku. Höfðum við ómælda ánægju af þessum bréfaskiptum þar sem kímnigáfa Baldurs naut sín vel. Stundum skrifaði hann um atvik úr æsku sinni þar á meðal þegar hann var innan við fermingu og vildi fá að fara á skemmtun með systrum sínum sem eldri voru. Þær tóku það ekki í mál af því að hann væri með svo langa og mjóa fótleggi. En hann sótti fast að fara með þeim. Þá ákváðu þær að klæða hann í hverja sokkana utan yfir aðra til að fæturnir sýndust sverari. Á þeim árum var til siðs að börn og unglingar gengu í uppháum sokkum prjónuðum úr ullargarni. Honum var í fersku minn hve honum var heitt og leið illa í sokkunum.

Við kveðjum kæran vin og biðjum honum blessunar á æðri stigum.

Ingibjörg og Pétur.

Kær vinur og félagi er fallinn frá. Hugurinn fyllist trega og söknuði en jafnframt þakklæti fyrir gott samstarf í stjórn húsfélags Bólstaðarhlíðar 41 árin 2019-2023 en þó fyrst og fremst einlæga vináttu til hinstu stundar sem aldrei bar skugga á. Baldur var mikill öðlingur, ljúfur, traustur, heiðarlegur, réttsýnn, skemmtilegur, hnyttinn í tilsvörum og ráðagóður um hvaðeina. Ef vafi lék á hvernig húsfélagið ætti að ráðast í framkvæmdir og hvenær var oftar en ekki spurt: „Hvað leggur Baldur til?“ Ávallt lagði hann fram vel ígrundaða og rökstudda áætlun sem flestir gátu sammælst um.

Þau Svala og Baldur fluttu í Bólstaðarhlíð 41 árið 2004. Þau voru afar glæsileg hjón sem eftir var tekið og nutu virðingar og trausts samferðafólksins í húsinu. Svala lést haustið 2019 eftir erfið veikindi. Baldur sem hafði verið í stjórn húsfélagsins um árabil var niðurbrotinn eftir makamissinn og vildi hætta en einhvern veginn tókst að fá hann til að gefa kost á sér áfram. Það varð okkar litla samfélagi til mikilla heilla.

Baldur hleypti gleðinni inn í líf mitt í fyrrasumar eftir langt sorgarferli okkar beggja. Samverustundunum fjölgaði og við kynntumst fleiri hliðum í fari hvort annars, það varð aftur gaman að lifa. Hann kenndi mér að njóta lífsins að nýju, list sem ég kunni ekki lengur að tileinka mér. Söknuðurinn er vægðarlaus og sár, hann hverfur aldrei en víkur smám saman til hliðar fyrir ómetanlegum minningum.

Takk, elsku Baldur, fyrir að gefa mér þann dýrmæta og ógleymanlega tíma sem við áttum saman.

Aðstandendum votta ég hugheila samúð.

Amalía
Skúladóttir.