Eldgos Viðvörunarlúðrar í Bláa lóninu fóru strax í gang.
Eldgos Viðvörunarlúðrar í Bláa lóninu fóru strax í gang. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Á bilinu 700-800 manns voru í Bláa lóninu er eldgos hófst á laugardagskvöld. Viðvörunarlúðrar fóru strax af stað er vart varð við gosóróa og var svæðið rýmt í kjölfarið. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu,…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Á bilinu 700-800 manns voru í Bláa lóninu er eldgos hófst á laugardagskvöld. Viðvörunarlúðrar fóru strax af stað er vart varð við gosóróa og var svæðið rýmt í kjölfarið.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu, sagði á laugardagskvöld að rýming hefði gengið vel fyrir sig og þakkaði gestum fyrir góðan skilning á aðstæðum. Þakkaði hún starfsfólki enn fremur fyrir skjót og fagleg vinnubrögð.

Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld var ein þeirra sem voru í Bláa lóninu á laugardagskvöld. Var hún þar stödd með kærasta sínum, Andra Sævari Arnarsyni, sem vinnur þar. Andri hóf strax að aðstoða gesti við rýminguna og sagði Sigríði að fara í kvennaklefann til að gera sig klára.

Sigríður segir klefann fljótt hafa fyllst en að gestir hafi ekki fengið að fara í sturtu.

„Mér fannst svolítið krúttlegt að sjá hvað við stelpurnar í kvennaklefanum tókum vel hver utan um aðra,“ segir hún og útskýrir að þær hafi gengið úr skugga um að engin kona yrði eftir og þegar eitthvað kom upp á þá hjálpuðu þær hver annarri.

„Ef einhver gleymdi einhverju var önnur að minna á. Þetta gekk rosalega hratt fyrir sig.“

Hún segir að einhverjir ferðamenn hafi bersýnilega verið í uppnámi og verið hræddir. Starfsmenn héldu þó vel utan um fólk og hvöttu gesti til að halda ró sinni og fylgja fyrirmælum.

„Mér fannst þetta spennandi því miðað við það hvernig gosin hafa verið þá var ég ekkert það smeyk. En jú, lúðrarnir kveiktu smá hræðslu hjá mér,“ segir Sigríður og útskýrir að þetta hafi verið eins og í bíómynd.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson