8 Isabella Fraga var markahæst með átta mörk í liði KA/Þórs.
8 Isabella Fraga var markahæst með átta mörk í liði KA/Þórs. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
KA/Þór vann lífsnauðsynlegan sigur á Aftureldingu, 26:18, í 20. og næstsíðustu umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu á Akureyri á laugardag. Stórleikur Sögu Sifjar Gísladóttur í marki Aftureldingar dugði ekki til en hún varði alls 24 skot í leiknum

KA/Þór vann lífsnauðsynlegan sigur á Aftureldingu, 26:18, í 20. og næstsíðustu umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í KA-heimilinu á Akureyri á laugardag.

Stórleikur Sögu Sifjar Gísladóttur í marki Aftureldingar dugði ekki til en hún varði alls 24 skot í leiknum.

Þegar ein umferð er eftir munar aðeins einu stigi á Aftureldingu og KA/Þór, sem er áfram í 8. og neðsta sæti en nú með 7 stig. Afturelding er sæti ofar með 8 stig.

Bæði lið eiga erfið verkefni fyrir höndum í lokaumferðinni um næstu helgi. KA/Þór heimsækir Fram í Úlfarsárdalinn á meðan Afturelding fær deildar- og bikarmeistara Vals í heimsókn.

Stjarnan gerði góða ferð í Breiðholt og vann ÍR, 28:23.

Með sigrinum á laugardag forðaði Stjarnan sér endanlega frá falli og tryggði sér um leið 6. sæti, síðasta sætið í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

ÍR hafnar í 5. sæti og mætir ÍBV, sem hafnar í 4. sæti, í 1. umferð úrslitakeppninnar. Stjarnan mætir þar annaðhvort Fram eða Haukum, sem berjast um 2. sætið. Efstu tvö liðin sitja hjá í 1. umferð og koma svo inn í undanúrslitin.

Fram og Haukar töpuðu bæði leikjum sínum á laugardag. Fram laut í lægra haldi fyrir ÍBV, 26:23, í Vestmannaeyjum og Haukar töpuðu fyrir Val, 30:23, á Hlíðarenda.

Fram er sem stendur 2. sæti og Haukar í 3. sæti. Kemur það í ljós næstkomandi laugardag hvort þeirra situr hjá í 1. umferð og hvort þeirra mætir þar Stjörnunni. Haukar fá ÍR í heimsókn í lokaumferðinni.