Dramatík Amad Diallo í þann mund að skora dramatískt sigurmark United í gær. Diallo fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir fagnið.
Dramatík Amad Diallo í þann mund að skora dramatískt sigurmark United í gær. Diallo fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir fagnið. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Manchester United lagði erkifjendur sína í Liverpool, 4:3, eftir framlengdan spennuleik í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í Manchester í gær. Scott McTominay kom heimamönnum í Man

Enski bikarinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Manchester United lagði erkifjendur sína í Liverpool, 4:3, eftir framlengdan spennuleik í átta liða úrslitum ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla á Old Trafford í Manchester í gær.

Scott McTominay kom heimamönnum í Man. United í forystu snemma leiks. Alexis Mac Allister jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks áður en Mohamed Salah sneri taflinu við í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Liverpool var við stjórn í síðari hálfleik en nýtti góð færi og góðar leikstöður afar illa. Varamaðurinn Antony refsaði fyrir það þegar hann jafnaði metin með góðu skoti þremur mínútum fyrir leikslok. Í uppbótartíma fékk Marcus Rashford dauðafæri til þess að tryggja Man. United sigurinn en skaut fram hjá og því þurfti að grípa til framlengingar.

Undir lok fyrri hálfleiks í framlengingu kom Harvey Elliott Liverpool í forystu að nýju. Um miðjan síðari hálfleik framlengingarinnar jafnaði Rashford metin fyrir Man. United eftir skelfileg mistök Darwins Núnez.

Varamaðurinn Amad Diallo tryggði svo Man. United hádramatískan sigur á fyrstu mínútu uppbótartíma með laglegri afgreiðslu eftir skyndisókn í kjölfar mistaka Elliotts.

Tvö mörk í uppbótartíma

Chelsea lenti í vandræðum með B-deildar lið Leicester City en hafði að lokum sigur, 4:2.

Chelsea komst í 2:0 með mörkum frá Marc Cucurella og Cole Palmer í fyrri hálfleik. Eftir rúmlega klukkutíma leik var Leicester hins vegar búið að jafna metin í 2:2.

Fyrst skoraði Axel Disasi slysalegt sjálfsmark og Stephy Mavididi jafnaði metin með glæsilegu skoti.

Á 73. mínútu fékk Callum Doyle, varnarmaður Leicester, beint rautt spjald. Á annarri mínútu uppbótartíma skoraði varamaðurinn Carney Chukwuemeka og annar varamaður, Noni Madueke, innsiglaði svo sigurinn með fjórða marki Chelsea á áttundu mínútu uppbótartíma.

Silva með tvennu

Ríkjandi bikarmeistarar Manchester City lentu ekki í teljandi vandræðum með Newcastle United á heimavelli á laugardag og unnu 2:0.

Bernardo Silva skoraði bæði mörk Man. City í fyrri hálfleik. Bæði komu þau eftir að skot Silva fóru af varnarmönnum Newcastle og þaðan í netið.

Lygilegur sigur Coventry

Í hádeginu á laugardag vann B-deildar lið Coventry City
ótrúlegan útisigur á Wolves,
3:2.

Ellis Simms kom gestunum frá Coventry yfir snemma í síðari hálfleik. Á 83. mínútu jafnaði Rayan Ait-Nouri metin fyrir Úlfana og lagði upp mark fyrir Hugo Bueno fimm mínútum síðar.

Simms jafnaði hins vegar metin fyrir Coventry á sjöundu mínútu uppbótartíma og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Haji Wright á tíundu mínútu uppbótartíma.

Coventry er þar með eina B-deildar liðið í undanúrslitunum í ár.

Í þeim mætast Coventry og Manchester United og í hinum leiknum eigast Manchester City og Chelsea við.