Samtal Pétur Hjörvar Þorkelsson tekur stöðuna með starfssystkinum þar sem fjölbreytt verkefni dagsins í höfuðborginni Naíróbí eru undirbúin.
Samtal Pétur Hjörvar Þorkelsson tekur stöðuna með starfssystkinum þar sem fjölbreytt verkefni dagsins í höfuðborginni Naíróbí eru undirbúin.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í verkefnum við þróunarhjálp, sem UNICEF – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sinnir í Kenía, þykir hafa náðst góður árangur. Starfið felst meðal annars í ýmsum aðgerðum sem talist geta viðbrögð við loftslagsbreytingum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Í verkefnum við þróunarhjálp, sem UNICEF – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sinnir í Kenía, þykir hafa náðst góður árangur. Starfið felst meðal annars í ýmsum aðgerðum sem talist geta viðbrögð við loftslagsbreytingum. Þá eru málefni barna ofarlega á baugi og þungi í aðgerðum til að bæta félagslega stöðu þeirra. Meðal þeirra sem þessari vinnu sinna er Íslendingurinn Pétur Hjörvar Þorkelsson.

Forgangsraðað í þágu barna

„Barnahjálpin vinnur mest að verkefnum sem tekur oft tugi ára að sjá árangurinn af,“ segir Pétur Hjörvar. „Barnahjónabönd, jafnrétti kynjanna, ofbeldi gegn börnum og sú mikla vinna sem fer í að þrýsta á og styðja stjórnvöld að forgangsraða verkefnum sem snúa að réttindum barna. Þetta eru stóru málin en áherslur eru oft mótaðar út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Árangurinn sést af tölfræðinni.“

Pétur Hjörvar, fæddur 1991, er menntaður á sviði félagsvísinda og hefur í tímans rás sinnt margvíslegu starfi með ungu fólki. Hann segist lengi hafa fylgst með þróunarsamvinnu, mannúðaraðstoð og starfi Sameinuðu þjóðanna almennt. Hann hóf störf hjá UNICEF á Íslandi árið 2018. Fór þar að starfa með fólki sem brennur fyrir réttindum barna. Þetta fólst meðal annars í því að styðja skóla og félagsmiðstöðvar að vinna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, til dæmis með mannréttindakennslu og verkefnum sem auka þátttöku barna í ákvarðanatöku.

Lærdómsríkur tími

„Þegar ég sá auglýsinguna um stöðuna sem ungliði hjá UNICEF í Kenía ákvað ég að sækja um starfið og fékk. Í flutningunum hingað út fólst auðvitað heilmikil breyting fyrir okkur öll; mig, konuna mína og ungan son okkar. Hingað komum við fyrir einu og hálfu ári og tíminn hér hefur verið lærdómsríkur. Við eigum bara hálft ár eftir. Ég hef verið heppinn með verkefni og samstarfsfólk hér. UNICEF í Kenía er mjög metnaðarfullt á sviði loftslagsmála,“ segir Pétur. Þar tiltekur hann að í Kenía fylgi hamfarahlýnun til að mynda vatnsskortur, vannæring, sjúkdómar, fólksflótti og fleiri ógnir við líf og þroska. Í Kenía séu svæði þar sem skortur er svo mikill að svigrúmið til þess að takast á við áföll eins og flóð og þurrka er nánast ekkert.

Meðal annara verkefna sem Pétur hefur haft með höndum í Kenía er valdefling ungs fólk til þess að takast á við ýmsar félagslegar birtingarmyndir hamfarahlýnunar. UNICEF styður hópa ungs fólks til þess að hittast vikulega á öruggum stað og fræðast um málefni tengd hamfarahlýnun. Þau ræða málin undir leiðsögn jafningja sem hafa fengið þjálfun og verkfæri og ákveða síðan hvernig þau geta hjálpað nærsamfélagi sínu.

Stórborgin stendur vel

Í Nairobi, höfuðborg Kenía frá 1963, búa 4,3 milljónir manna. Þetta er stórborg með allt til alls og þúsundir stórfyrirtækja hafa höfuðstöðvar sínar þar.

„Kenía og Nairobi standa vel; til staðar eru allir þeir innviðir sem samfélög nútímans kalla eftir. Um 80% af orku í landinu eru endurnýjanleg og sóun hennar er lítil. Vandamálin eru þó til staðar og aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu ræðst af efnahagsstöðu fólks. Í Kenía er víða mikil fátækt og ofan á það er stærstur hluti landsins mjög þurr. Vatn er auðvitað ein dýrmætasta auðlind landsins og hún verður bara verðmætari með hverjum nýjum degi,“ segir Pétur Hjörvar Þorkelsson að síðustu.