Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir
Á tímabilinu 2018 til júlí 2022 átti Dagur 67 fundi með Orkuveitunni. Einungis sjö þeirra voru eftir formlegum leiðum.

Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir

Í október árið 2022 yfir morgunbollanum í fæðingarorlofi rak ég augun í frétt sem lýsti metnaðargjörnum áformum Ljósleiðarans, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, um að leggja landshring ljósleiðaranets og fara í hlutafjáraukningu. Þar á undan hafði Ljósleiðarinn haft betur gegn Sýn í leigusamningsútboði á tveimur NATO-strengjum svokölluðum sem liggja hringinn í kringum landið. Ljósleiðarinn keypti svo stofnnet Sýnar fyrir 3 milljarða til að nýta strenginn til fulls, en tók til þess heldur óhagstæð lán samkvæmt fréttum. Ég skrifaði grein um málið því að engin þessara ákvarðana sem fólu í sér verulega stefnubreytingu varðandi meginstarfssvæði Ljósleiðarans (og þar með Orkuveitunnar) og margra milljarða króna fjárfestingar hafði verið borin undir eigendur. Þetta var skýrt brot á eigendastefnu Orkuveitunnar og svo virtist sem borgarstjórn kæmi af fjöllum við þessar fréttir. Í kjölfarið fór af stað nýstárlegt ferli eftirásamþykkis frá borgarfulltrúunum sem, ásamt starfsfólki borgarinnar, gerðu sitt besta til að beina málinu í viðeigandi farveg en aðstæðurnar voru afleitar og engum leið vel með hvernig málinu hafði verið háttað. Að loknu fæðingarorlofi settist ég í stjórn Orkuveitunnar og óskaði eftir því að innri endurskoðun tæki til skoðunar þessar ákvarðanir Ljósleiðarans með tilliti til eigendastefnunnar.

Leynifundir með þáverandi borgarstjóra

Í eigendastefnu Orkuveitunnar segir að samskipti milli eigenda og fyrirtækisins skuli vera eftir formlegum leiðum og leitast skuli við að beina þeim í farveg aðalfunda og reglubundinna eigendafunda. Í reglum stjórnar Orkuveitunnar stendur skýrum stöfum að stjórnarmenn eigi að vera upplýstir um öll samskipti milli funda. Þáverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, kom að gerð eigendastefnunnar og þekkir vel til reglna Orkuveitunnar verandi fyrrverandi stjórnarmaður. En Dagur hefur talið sig yfir eigendastefnuna hafinn því hann stundaði um árabil að kalla til sín forsvarsmenn Orkuveitunnar og hluta stjórnarinnar reglulega á óformlega launfundi. Engar fundargerðir voru ritaðar og hvorki hinir útvöldu stjórnarmenn né forsvarsmenn Orkuveitunnar upplýstu aðra stjórnarmenn hennar um fundina og augljóslega stóð það aldrei til. Það voru ábendingar utan úr bæ sem leiddu til þess að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir upplýsingum um óformlegt fundarhald borgarstjóra. Ári síðar, á síðasta fundi borgarráðs fyrir sumarfrí 2023, var svarið lagt fram. Þess ber að geta að hlutaðeigandi stjórnendur og stjórnarmenn eru reynsluboltar í stjórnun og starfsháttum stjórna og innan annarra stjórna samstæðunnar er bókað um samskipti milli funda í fundargerðum. Því voru einungis þessir tilteknu fundir með borgarstjóra hjúpaðir leynd.

Á tímabilinu 2018 til júlí 2022 átti Dagur 67 fundi með Orkuveitunni. Einungis sjö þeirra voru eftir formlegum leiðum, þ.e.a.s. ársfundir og aðalfundir, fimm fundir tengdust Carbfix en hinir voru einkafundir með forsvarsmönnum Orkuveitunnar, formanni stjórnar OR og ákveðnum hluta stjórnarmanna. Athygli vakti hve einkafundum Dags með forsvarsmönnum OR tók að fjölga eftir því sem áformum Ljósleiðarans vatt fram. Dagur fundaði tíu sinnum óupplýst með forsvarsmönnum og útvöldum stjórnarmönnum OR árið 2018, 14 sinnum árið 2019, 15 sinnum 2020 og 2021 hafði svo átt fimm leynifundi fyrir sumarfrí árið 2022. Þessir fundir hafa því stundum verið oftar en einu sinni í mánuði og þannig tíðari en fastir fundir í stjórn OR.

Trúnaður um trúnaðarbrest gagnvart eigendum?

Í nóvember í fyrra kom út skýrsla innri endurskoðanda um stjórnarhætti og miðlun upplýsinga hjá Orkuveitunni. Skýrslan svaraði erindi mínu og gott betur um háttalag við ákvarðanatökur Ljósleiðarans líkt og nafnið gefur til kynna. Síðan þá hef ég sérstaklega flaggað tilvist skýrslunnar innan borgarráðs, kallað eftir og flutt tillögur um að eigendur fái aðgang að skýrslunni og trúnaði um hana verði aflétt bæði innan stjórnar Orkuveitunnar og í borgarráði. Þetta vakti takmarkaðan áhuga í borgarráði sem vísaði tillögunni til umsagnar til stjórnar OR. Þar benti ég á og bókaði að hluti stjórnarinnar væri hlutaðeigandi í aðfinnslum skýrslunnar og því væri verið að láta bersýnilega vanhæfa stjórnarmenn veita umsögn um afléttingu trúnaðar á skýrslu um eigin aðfinnslur. Innan stjórnar OR var þessu svarað með því að láta allar bókanir mínar vegna skýrslunnar og tillagna minna sæta trúnaði, í minni óþökk. Þetta hefur gengið svo langt að núna síðast átti að láta tillöguna sem ég flutti í borgarráði og er þar getið í opinberum fundargerðum sæta trúnaði í fundargerð stjórnar OR. Dagur er skólabókardæmi um skuggastjórnanda sem hefur greinilega skuggastýrt Orkuveitunni og dótturfélögum hennar svo árum skiptir! Þetta skýra brot á eigendastefnu, reglum og öllum góðum stjórnarháttum felur í sér grafalvarlegan trúnaðarbrest gagnvart stjórn, borgarstjórn og eigendum Orkuveitunnar, vægast sagt.

Slök útkoma skuggastjórnunar Dags

Langoftast leiðir skuggastjórnun af sér verri útkomur en fengist hefðu með heilbrigðu ákvörðunartökuferli innan fyrirtækja og stofnana. Ekki er að sjá á ársreikningum Ljósleiðarans að fyrirtækið hafi innleyst þann ágóða sem vænst var af ákvörðunum sem voru líklegast teknar á leynifundum með oddvita Samfylkingarinnar. Hitt þó heldur, sem rennir enn frekari stoðum undir það álit mitt að fyrirtækið eigi ekki heima í samstæðu Orkuveitunnar heldur færi best á því að það væri í höndum öflugra fjárfesta sem geta staðið fyrir alvöru samkeppni á fjarskiptamarkaðnum.

Til huggunar fyrir okkur sem erum dyggir notendur miðla Sýnar skilaði það félag vænum rekstrarhagnaði upp á rúma 2 milljarða sem er aðeins lægra en sú upphæð sem Ljósleiðarinn greiddi fyrir stofnnetið með bankalánum. Það má minna á að skuldir Ljósleiðarans eru hluti af samstæðureikningi Orkuveitunnar og þar með samstæðu Reykjavíkurborgar og því eru Reykvíkingar hinir endanlegu bakhjarlar fyrirtækisins.

Í kjölfarið á leyfisleysisför Ljósleiðarans urðu ýmis mannaskipti. Nú er Orkuveitan komin með nýjan forstjóra sem er sérlega öflugur stjórnandi að mínu mati og nýr framkvæmdastjóri Ljósleiðarans lofar einnig mjög góðu. Þeirra vegna og vegna hagsmuna fyrirtækisins, haghafa og samstæðunnar er þessi grein skrifuð. Það er einfaldlega óboðlegt að stjórnarmenn og stjórnendur Orkuveitunnar fái ekki að starfa í friði án skuggastjórnunar úr Ráðhúsinu. Ég kalla eftir að Dagur og aðrir hlutaðeigandi geri grein fyrir því hvernig þeir hyggjast axla ábyrgð á því að hafa brotið gegn eigendastefnu Orkuveitunnar og trúnað við eigendur.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Höf.: Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir