Grammy Laufey Lín Jónsdóttir hlaut Grammy-verðlaun 2024.
Grammy Laufey Lín Jónsdóttir hlaut Grammy-verðlaun 2024. — AFP/Frederic J. Brown
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum að tala um 124 milljóna hækkun á næsta ári og ef við lítum til annarra málaflokka, þá er þetta alls ekki mikil hlutfallsleg aukning,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, þegar hún er spurð hvort hún…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Við erum að tala um 124 milljóna hækkun á næsta ári og ef við lítum til annarra málaflokka, þá er þetta alls ekki mikil hlutfallsleg aukning,“ segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, þegar hún er spurð hvort hún telji að ný drög til frumvarps um breytingar á lögum um listamannalaun, sem nú liggja fyrir frá ráðuneytinu í Samráðsgátt til umsagnar, muni ganga í gegn hjá sífellt aðþrengdari ríkissjóði.

Lilja segir að í stóra samhenginu sé þetta hóflegt og hún nefnir sérstaklega að miklar hækkanir hafi verið lagðar til háskólastigsins til rannsókna og nýsköpunar. „Þetta er brotabrot af því fjármagni sem er að fara þangað og því tel ég þessar tillögur að breytingum mjög hóflegar,“ segir hún og bendir á að engar breytingar hafi orðið á þessum lögum frá árinu 2009.

„Frá þessum tíma hefur verið mikill uppgangur í skapandi greinum og í þessum drögum að frumvarpi erum við að mæta því, m.a. með því að setja inn sjóði fyrir kvikmyndahandritshöfunda og einnig tvo nýja, annars vegar Vöxt, sem er fyrir listamenn 35 ára og yngri, og hins vegar Vegsemd, sem er fyrir listamenn 67 ára og eldri,“ segir Lilja og bendir á að mikilvægt sé að nýta starfskrafta eldri listamanna lengur.

„En varðandi kostnaðinn og hvernig þetta er að breytast þá fer stuðningurinn stighækkandi. Þetta er hófleg hækkun á árinu 2025 og hækkar svo 2026, en er alls ekki fjarri lagi miðað við vöxtinn í greinunum. Segjum svo að þetta nái allt fram að ganga, þá er heildarkostnaðurinn við starfslaun listamanna 1,6 milljarðar og ef við setjum það í samhengi við t.d. háskólastigið, þá er sá málaflokkur vel yfir 65 milljarðar.“

Lilja segir að mikilvægt sé að líta á samfélagið og skoða hvar okkur gangi vel. „Við erum með framúrskarandi tónlistarmenn á heimsvísu, það hefur verið gríðarlegur vöxtur í öllu sem tengist myndlistinni og sama má segja um hönnun sem hefur verið að sækja í sig veðrið. Þá má ekki gleyma kvikmyndalistinni, en Ísland er að verða einn af eftirsóknarverðari stöðum heimsins, bæði í innlendri kvikmyndagerð og svo erlendri. Þannig að margföldunaráhrif af öflugu kerfi í tengslum við skapandi greinar er bara skilyrði. Við sjáum það í alþjóðlegum viðurkenningum hvað Íslendingar eru að standa sig vel á þessum vettvangi og þá má nefna verðlaun eins og Grammy-verðlaunin og Óskarsverðlaun sem við höfum verið að fá fyrir tónlist bara á síðustu fjórum árum.“ Hún bætir við að sem ráðherra skapandi greina beri henni að styðja við greinina.

„Við erum að gera eitthvað sem virkar og heimurinn tekur eftir, og þar má líka nefna rithöfundana okkar sem er verið að þýða á erlend tungumál sem aldrei fyrr, hvort sem það er í Frakklandi, Þýskalandi eða Bandaríkjunum, og þeir hafa komist á metsölulista og fengið mikið lof fyrir ritverk sín. Við eigum að vera stolt af listafólkinu okkar og ekki tala þetta niður. Það er alltaf sagt að það sé ekki tími núna, en ég bendi á vöxtinn í listalífi þjóðarinnar og spyr á móti: Ef ekki núna, þá hvenær?“

Hækkun starfslauna 40% næstu fjögur árin

Stigvaxandi hækkun: 125 milljónir 2025, 280 milljónir 2026, 490 milljónir 2027 og 700 milljónir 2028.

Starfslaunamánuðir tvöfaldast og fjölgar úr 1.600 í 2.850 á fjórum árum.

Heildarkostnaður við frumvarpið: 700 milljónir á 4 árum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir