Akureyri Starfshópur ráðherra leggur til að Akureyri verði svæðisborg.
Akureyri Starfshópur ráðherra leggur til að Akureyri verði svæðisborg. — Morgunblaðið/Margrét Þóra Þórsdóttir
Arinbjörn Rögnvaldsson arir@mbl.is Starfshópur sem innviðaráðherra skipaði til að móta borgarstefnu leggur til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. „Við viljum færa borgargæði nær dreifðari byggðum svo fólk hafi tækifæri til að velja milli tveggja borga til þess að búa í,“ segir Ingvar Sverrisson formaður starfshópsins í samtali við Morgunblaðið.

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Starfshópur sem innviðaráðherra skipaði til að móta borgarstefnu leggur til að Akureyri verði næsta borg á Íslandi. „Við viljum færa borgargæði nær dreifðari byggðum svo fólk hafi tækifæri til að velja milli tveggja borga til þess að búa í,“ segir Ingvar Sverrisson formaður starfshópsins í samtali við Morgunblaðið.

Starfshópnum var ætlað að styðja við þróun borgarsvæða sem drifkrafts velsældar, fjölbreyttari búsetukosta og aukinnar samkeppnishæfni landsins. Í stefnunni er lagt til að tvö borgarsvæði verði skilgreind á Íslandi, annars vegar með því að styrkja höfuðborgarhlutverk Reykjavíkur og hins vegar festa Akureyri í sessi sem svæðisborg með því að skilgreina og efla hlutverk hennar.

Mannkynið færir sig í borgir

„Við teljum að það muni styrkja landið í alþjóðlegri samkeppni og muni hjálpa okkur til lengri tíma með því marka langtímastefnu í þessum málum,“ segir Ingvar.

Hann segir stefnuna að undirlagi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sem leggur áherslu á að aðildarríkin móti sér borgarstefnu, sem margar borgir hafa þegar gert.

„Áherslur OECD eru raktar til þess að mannkynið hefur í auknum mæli verið að færa sig inn í borgir og borgarsvæði, þar sem nú búa 50% fólks í þéttum byggðum og borgum. Áætlanir Sameinuðu þjóðanna um þessi efni benda til að 70% mannkyns komi til með að búa á þéttbýlissvæðum og í ljósi þess hefur verið farið í að skoða hvernig hægt sé að nýta borgir til langs tíma og kraftinn sem verður til í þeim,“ útskýrir Ingvar.

Að hans sögn hefur hingað til ekki verið fjallað um hlutverk Reykjavíkur í byggðastefnu landsins og á þeim grunni var starfshópurinn skipaður til að reyna að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar í alþjóðlegri samkeppni.

„Þar sem við erum í samkeppni við aðrar þjóðir í að laða til okkar erlenda fjárfestingu, fyrirtæki og fólk með sérfræðikunnáttu, þá skipta borgarsvæði miklu máli í því sambandi. Einnig skiptir máli að halda sérfræðikunnáttunni hér heima, svo að það sé mögulegt verða borgarsvæði landsins að hafa eitthvað til brunns að bera í menningu og þjónustu,“ bendir Ingvar á.

Eitt borgarsvæði

Ingvar segir að þegar OECD tali um eitt borgarsvæði í framangreindum skilningi verði í því sambandi að skilgreina áhrifasvæði borgarsvæðanna hér á landi. Reykjavík er til að mynda lítil borg á mælikvarða OECD. Hins vegar ef sveitarfélögin á suðvesturhorni landsins eru tekin með, sé Reykjavík meðalstór á þann mælikvarða.

„Atvinnusókn frá þessum svæðum til Reykjavíkur er meira en 15% og þjónustusóknin er ennþá meiri. Sama á við ef Akureyri verður ný borg, þá verður að stækka sóknarsvæði borgarinnar. Við sjáum að það er einhver þjónustusókn Skagfirðinga til Akureyrar en mjög lítil atvinnusókn, sem er líklegast út af erfiðum samgöngum,“ útskýrir Ingvar.

Styrkja samstarfið

Fyrsta skrefið er að mati Ingvars að búa til sóknaráætlun sem mæli fyrir um samstarf ríkisins og svæðanna fyrir hvort borgarsvæði fyrir sig.

„Um leið og áætlun liggur fyrir sem byggð er á þessum hugmyndum verður farið í að vinna í þessum aðgerðum til þess að geta uppfyllt stefnuna. Annað skrefið væri að efla og styrkja samstarf ríkisins og þessara svæða í því að ná þessum markmiðum, sem hefur ekki verið upp á sitt besta á undanförnum árum,“ segir Ingvar að lokum.