Nanna Kristín Jósepsdóttir fæddist í Sandvík, Akureyri, 18. september 1946. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Ísafold, Garðabæ, 5. mars 2024.

Foreldrar Nönnu Kristínar voru hjónin Jósep Sigurgeir Kristjánsson, f. 14. maí 1906, d. 24. desember 1985, og Guðrún Jóhannesdóttir, f. 23. apríl 1907, d. 21. apríl 1970.

Nanna Kristín var yngst af sínum systrum. Systur Nönnu Kristínar eru María Svava Jósepsdóttir, f. 28. maí 1934, d. 15. janúar 1977, og Svanhvít Jósepsdóttir, f. 5. ágúst 1936.

Nanna Kristín giftist 25. desember 1967 Erni Herbertssyni húsasmíðameistara, f. 14. ágúst 1943. Þau bjuggu lengst á Akureyri en fluttu svo á höfuðborgarsvæðið og hafa búið þar í Garðabænum. Nanna Kristín bjó svo undir það síðasta á Hjúkrunarheimilinu Ísafold.

Nanna Kristín var alin upp í Sandvík, Akureyri, en þar hófu þau búskap ásamt þremur dætrum sínum og bjuggu þar uns þau fluttust í Lyngholt 24, Akureyri.

Dætur Nönnu Kristínar eru þær Unnur Elva Arnardóttir, Rósa Berglind Arnardóttir og Ragnheiður Vala Arnardóttir.

Nanna vann við ræstingar lengi vel og verslunarstörf.

Útför Nönnu Kristínar fer fram í Bústaðarkirkju í dag, 18. mars 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Það var erfitt símtalið frá pabba að morgni 5. mars þegar hann tilkynnti okkur systrum að þú værir farin frá okkur, okkur fannst tími þinn ekki vera kominn, þegar við heimsóttum þig á sunnudeginum 3. mars þá átti það alls ekki að vera í síðasta skipti. Við efumst ekki um að þér líði vel núna og þú hafir valið þennan tíma. En mikið söknum við þín. Barnabörnin þín spyrja um þig: „Hvenær förum við aftur til ömmu Nönnu?“

Þú varst okkar fyrirmynd í alla staði. Oft greindi okkur á en það var alltaf af hinu jákvæða, þú varst fagurkeri og hafðir svo gaman af fallegum hlutum. Allar utanlandsferðirnar sem við náðum að fara í með þér gleymast seint. Þú elskaðir að fara á kaffihús og fá þér kaffi og rjómatertu með okkur. Ég vona að það sé nóg af kaffi, rjómatertum og fallegum rósum í kringum þig þar sem þú ert, elsku mamma.

Þú færð þetta að láni:

Lestin er að fara

Standið klár á stöðinni.

Ekki missa af lestinni.

Engar töskur þurfum vér,

aðeins það sem innra er.

Lestin er að fara.

Hún leggur upp í kvöld.

Í langferð milli tveggja heima.

Með í för er sálafjöld.

Já, lestin er að fara.

Ég og þú við förum með.

Hún kemur við í hverju landi.

Leiðarlok ófyrirséð.

Þér er boðið upp í ferð.

Andlegt fæði af bestu gerð.

Hvergi heyrist orðið „nei“.

field er fararstjórinn May-.

Ekkert endurgjald.

Engin skilyrði.

Enginn á fyrsta farrými,

heldur allir sem einn í rauninni.

Já lestin er að fara

um firnindi og fjöll.

Að mörkum draums og veruleika,

hún mun flytja okkur öll.

(Guðmundur Jónsson, Stefán Hilmarsson)

Unnur Elva
Arnardóttir Rósa
Berglind Arnardóttir Ragnheiður Vala
Arnardóttir.

Elsku systir!

Þannig var heilsast en nú þarf að kveðja.

Gleði æskunnar sem við áttum saman kom fyrst upp í hugann.

Sandvík var okkar paradís. Frjáls og gleðirík æska sem aldrei gleymist. Kom það vel fram síðustu daga, elsku systir, að besta umræðuefnið var gömlu, góðu dagarnir. Þar var alltaf eitthvað í gangi og í minningunni var alltaf sól jafnt sumar sem vetur. Útivera og leikir, skíði, skautar og snjókarlagerð sem við vorum mjög stoltar af.

Árin liðu. Nanna og Örn, hennar góði eiginmaður, byggðu sér hús nálægt Sandvík og ræktuðu þar gróskumikinn garð. Þrjár dætur eignuðust þau, duglegar og myndarlegar og reyndust þær móður sinni vel í veikindunum.

Ánægjulegt er að rifja upp glæsilegu kaffiboðin hjá Nönnu. Þvílíkar tertur gleymast seint og allur sá myndarskapur sem því heimili fylgdi. Nanna var ljúf og elskuleg húsmóðir sem kom ætíð brosandi til dyra.

Söknuðurinn er sár en gott er að minnast gömlu, ljúfu áranna með þakklæti.

Ég sendi elskulegum eiginmanni, dætrum og fjölskyldum þeirra mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Hver minning dýrmæt perla,

að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni

af alhug þakka hér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Elsku systir, von mín er að nú líði þér vel. Ljóssins englar leiði þig.

Svana.

hinsta kveðja

Allar minningar og hugsanir um nöfnu mína eru fallegar. Í æsku minni var hún alltaf til staðar. Hún tók alltaf vel á móti mér. Hundar, bækur, kökur og kyrrð, og einstök hlýja, er það sem lifir í hjarta mínu og ég er endalaust þakklát fyrir.

Nanna Lind.