Þéttbýli? Skepnuhald við ofanverðan Laugaveg, nálægt Hlemmi, árið 1910. Eitt megineinkenna frumþéttbýlis.
Þéttbýli? Skepnuhald við ofanverðan Laugaveg, nálægt Hlemmi, árið 1910. Eitt megineinkenna frumþéttbýlis. — Ljósmynd/Ónafngreindur franskur ferðamaður, Ljósmyndasafn Reykjavíkur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þéttbýli á bernskuskeiði [...] Í þorpunum ægði öllu saman í forinni, fiskreitum, sjóbúðum, beitningarskúrum, fjósum, fjárhúsum, og hlöðum ásamt kofum og híbýlum fólks. Byggðin var oft sundurleit og dreifð vegna túna og garðlanda og stígakerfið einkenndist af hlykkjóttum moldartroðningum

Þéttbýli á bernskuskeiði

[...] Í þorpunum ægði öllu saman í forinni, fiskreitum, sjóbúðum, beitningarskúrum, fjósum, fjárhúsum, og hlöðum ásamt kofum og híbýlum fólks. Byggðin var oft sundurleit og dreifð vegna túna og garðlanda og stígakerfið einkenndist af hlykkjóttum moldartroðningum. Gamla þjóðleiðin, eða alfaravegurinn sem hafði hlykkjast með ströndinni um aldaskeið, varð oft sjálfkrafa að aðalgötu þorpsins. Þau fáu reisulegu hús sem voru úr varanlegra efni stóðu gjarnan við aðalgötu staðarins, sem oftar en ekki var eina raunverulega gatan. Í frumbernsku sinni einkenndust flestir þéttbýlisstaðirnir þannig af „sjálfsprottnum“ byggðum frumframleiðslusamfélagsins, og örlitlum vísi að skipulögðum stað á kaupstaðarlóðinni, þar sem reisulegri hús kaupmanna, vörugeymslur og híbýli embættis- og menntamanna stóðu.

Ákveðin bæjarmenning var þó farin að skapast í stærri og eldri bæjunum um aldamótin. Fólki sem hafði betri efni fór mjög fjölgandi, einkum því sem tilheyrði kaupmanns- og útgerðarstétt, stétt embættismanna, menntamanna eða sérhæfðra handverksmanna. Það var fólk úr þessum stéttum, sem við getum kallað fyrstu borgarana, sem einkum fór að tala fyrir bættri bæjarmenningu og tæknilegum framförum. Með bættum fjarskiptum, fjölmiðlun, viðskiptum, ferðalögum og ekki síst veru erlends aðkomufólks, einkum dansks, var fólk jafnvel í hinum smærri bæjum orðið vel meðvitað um hvernig „rétt“ væri að standa að eflingu bæjarmenningarinnar.

Flest þessara framfaramála voru samfélagslegs eðlis og lutu að mennta-, menningar- og velferðarmálum og ekki síst verklegum framkvæmdum sem vörðuðu hið byggða umhverfi. Efst á baugi í hinum tæknilegu framfaramálum voru í fyrstu einkum vatnsveita og skólpveita með lagningu holræsa, lýsing bæjanna og rafveita, kynding og síðar hitaveita, fjarskipti og svo gerð varanlegri gatna og gangstétta og vandaðri húsa. Þessar framkvæmdir kölluðu sannarlega á meiri festu í skipan byggðarinnar. Ákall um formlegt skipulag til framtíðar fór að heyrast oftar, jafnvel í hinum smærri bæjum. Hinar tæknilegu framkvæmdir voru kostnaðarsamar fyrir veikburða samfélög þéttbýlisins og umdeildar, sérstaklega ef þorpið var enn hluti aðliggjandi sveitar og undir valdi hreppsnefndar þar sem bændur höfðu ef til vill enn tögl og hagldir. Það ýtti undir, með öðru, að þéttbýlið klauf sig frá sveitinni eða sveitin frá þéttbýlinu, en það var þó háð því að íbúar þorpsins væru 300 hið minnsta. Stærri framkvæmdirnar kölluðu oft á sérfræðiaðstoð „að sunnan“ og með þeim hætti barst tæknileg þekking milli þéttbýlisstaðanna. Gerð uppdrátta í tengslum við framkvæmdirnar auðveldaði einnig yfirvöldum að horfa heildrænna til skipulags byggðarinnar.

Framfaramál í þéttbýlisstöðunum lutu einnig að jarðræktarmálum og landbúskap. Raunar er eitt meginsérkenni frumþéttbýlis hér á landi hversu stóru hlutverki garðrækt og hefðbundinn landbúskapur gegndi meðal íbúanna. Þetta lá meðal annars í áherslunni á að íbúar þéttbýlisins hefðu bjargræði af landbúskap meðfram sjómennsku og öðrum störfum. Fyrir marga voru grasnytjar mikilvægar, til að halda í það minnsta eina kú, sérstaklega meðan mjólkurskortur var enn landlægur í þéttbýlisstöðum landsins. Síðari áherslur ráðamanna á eflingu ræktunar innan þéttbýlisstaða ýttu enn frekar undir þetta sérkenni, en einnig réði miklu sú staðreynd að margar þær hjáleigur og grasbýli sem urðu smátt og smátt hluti þéttbýlisins höfðu haft allnokkra grasnyt fyrir.

Markviss efling landbúnaðar í þéttbýlisstöðunum hófst einkum eftir að atvinnuleysi varð sýnilegra, samfara aukinni stéttarvitund. Að frumkvæði sveitarstjórna og síðar einnig verkalýðsfélaga var hafinn stuðningur við landbúnað sem hliðargrein við aðra atvinnu þéttbýlisbúanna. Kaupstaðir og kauptún leituðu því oft eftir að kaupa nágrannajarðir, til ræktunar og beitar, stundum með eignarnámi. Sú ályktun hefur stundum verið dregin að með þessu hafi yfirvöld sýnt mikla fyrirhyggju, til að tryggja þróun þéttbýlisins til framtíðar, en í mörgum tilvikum voru þó ástæðurnar fremur þær að tryggja íbúanum ræktarland vegna hjábúskapar síns. Með þessu var dæminu sem tíðkast hafði um aldir í raun snúið við. Sjávarútvegur varð aðalatvinnan en landbúnaðurinn aukageta. Þessi þróun, sem átti sér stað í mörgum þorpum og bæjum, undirstrikaði að þessi fyrsta gerð þéttbýlis hér á landi var varla nema frumgerð bæjarsamfélags og aðeins næsta stig fyrir ofan hin fornu fiskiþorp. Skil milli sveita og þéttbýlis voru þannig fremur óskörp og gamla bændamenningin sleppti ekki auðveldlega hendinni af fólkinu. Tengsl milli þéttbýlis og sveita hafa raunar jafnan verið mjög sterk hér á landi, eða að minnsta kosti allt fram á síðustu áratugi 20. aldar.

Með tilkomu þéttbýlisins og þeirrar breyttu samfélagsgerðar sem var orðin að veruleika á Íslandi fóru ráðamenn að huga að löggjöf sem snerti sérstaklega þetta „nýja fyrirbæri“ í sögu landsins. Sett voru lög á ýmsum sviðum sem giltu eingöngu í kaupstöðum eða löggiltum verslunarstöðum. Á grundvelli slíkra laga voru síðan settar margvíslegar samþykktir sem talin var þörf á í þéttbýlinu en ekki í sveitum landsins. Þessi aðskilnaður í löggjöf milli þéttbýlis og sveita átti sér sumpart rætur í dönskum lögum sem farið var að setja strax í byrjun 19. aldar. Vaxandi þunga í sérlöggjöf og samþykktum fyrir þéttbýli hér á landi fór að gæta snemma á 20. öldinni. Í sumum tilvikum var stofnað til nýs sveitarfélags um þéttbýlisstaðina, með 300 íbúa að lágmarki og byggðist það á heimildarákvæðum sveitarstjórnarlaga frá 1905. Rökin fyrir þessari heimild voru þau að hagsmunir þéttbýlisins og strjálbýlisins voru ekki taldir fara saman, eins og raunar ýmis dæmi sönnuðu. Bæirnir, hvort sem þeir voru sjálfstæð sveitarfélög, kaupstaðir eða löggiltir verslunarstaðir, voru taldir þurfa sérsamþykktir vegna lögreglu, heilbrigðismála, tryggingamála, útmælingar lóða og svo byggingar- og skipulagsmála. Lögin um skipulag bæja, kauptúna og sjávarþorpa frá 1921 voru einmitt af þessum meiði. Aðskilnaður sveita og þéttbýlis varðandi skipulags- og byggingarlöggjöf varði raunar allt til ársins 1978.

Breyttir atvinnuhættir lýsa vel þéttbýlisvæðingu landsins. Í þessu sambandi er einfaldast að horfa til þess fjölda þjóðarinnar sem annars vegar var á framfæri landbúnaðarins og sveitanna og hins vegar á framfæri annarra atvinnuvega í þéttbýlinu. Árið 1901 voru tæplega 50 þúsund manns eða 63% þjóðarinnar á framfæri landbúnaðarins. Fjörutíu árum síðar var þetta hlutfall komið niður í rúmlega 30% og fjöldinn niður í um 37 þúsund. Með öðrum orðum byggðu 37% þjóðarinnar afkomu sínu á atvinnu í þéttbýlinu árið 1901 en hátt í 70% árið 1940. En hér er kannski dregin upp of einföld mynd sem nær ekki að fanga að fullu raunverulegar breytingar á menningarlífi þjóðarinnar. Eitt af frumskilyrðum þess að samfélag teljist borgar- eða bæjarsamfélag er sérhæfing vinnuafls og að stór hluti fólks í þéttbýlinu starfi við annað en öflun matvæla eða það sem nú er jafnan nefnt frumframleiðsla. Hér á landi er ef til vill eðlilegt að telja sjávarútveginn til þéttbýlisatvinnuveganna.

Öflun sjávarfangs til útflutnings var einkum stunduð frá þéttbýlisstöðunum og aflinn var verkaður innan eða í jaðri þéttbýlisins og með tímanum reis upp fiskvinnsluiðnaður. En sjósókn var einnig stunduð frá þéttbýlisstöðunum til að draga björg í bú, til sjálfsþurftar, í frumbernsku staðanna og raunar lengi framan af 20. öldinni. Það er því freistandi að undanskilja sjávarútveginn frá þéttbýlisatvinnuvegunum þegar reynt er að setja mælistiku á viðgang bæjarmenningar hér á landi. Ef horft er eingöngu á hlutfall þeirra sem byggðu tilvist sína á handverki eða iðnaði, verslun, samgöngum og kennivaldi eða ólíkamlegri vinnu má greina dramatískari umbreytingar. Vægi þessara atvinnuvega tvöfaldaðist milli 1901 og 1910, úr 12,4% í 24,4%, og stökk síðan upp í tæp 36% árið 1920 og rúm 43% árið 1930. Það hægði verulega á þróuninni á kreppuáratugnum og þetta hlutfall var um 48% árið 1940. Á 5. áratugnum herti aftur á vexti þéttbýlisatvinnuveganna og var hlutfall þeirra komið í tæp 62% árið 1950.

Það kann að hljóma hrokafullt að segja að þær stéttir sem ekki stunduðu frumframleiðslu hafi myndað borgarastéttina í íslensku þéttbýli og að fyrst og fremst þær hafi mótað bæjarmenninguna og stuðlað að breyttum lífsháttum. Vægi þessara stétta innan þéttbýlisins jókst allavega stórum á fyrstu áratugum 20. aldar. Þetta er eilítið nákvæmari mynd en dregin er upp að framan, en eins og áður háð þeim annmörkum sem kunna að leynast í opinberri skráningu. Sagan er vitanlega ekki öll sögð með slíkri tölfræði. Kaupmennirnir voru líka útgerðarmenn og útgerðarmennirnir voru kaupmenn. Kaupmennirnir og aðrir borgarar héldu líka búfé innan og utan þéttbýlisins og handverksmennirnir stunduðu ef til vill einnig sjóinn. Sjómennirnir voru daglaunamenn og gripu í handverk eða aðstoðuðu í versluninni. Og alþýðukonurnar unnu ekki einvörðungu við fiskverkun heldur ólu samhliða upp börnin og ráku heimilin.