[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi hugmynd kviknaði í desember, þegar fyrsta eldgosið í þessari hrinu, sem nú stendur, hófst,“ segir Bæring Gunnar Steinþórsson, forritari hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja, sem ásamt samstarfsmanni sínum, Jóni Trausta Arasyni, einnig …

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Þessi hugmynd kviknaði í desember, þegar fyrsta eldgosið í þessari hrinu, sem nú stendur, hófst,“ segir Bæring Gunnar Steinþórsson, forritari hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja, sem ásamt samstarfsmanni sínum, Jóni Trausta Arasyni, einnig forritara, segir Morgunblaðinu frá tækni sem þeir hafa þróað til að ákvarða nákvæmlega staðsetningu fyribæra – svo sem eldgosa.

„Maður sá fjölda mynda af eldgosinu, en enginn gat sagt manni hvar það var,“ heldur Bæring áfram og bendir í framhaldinu á að það mikilvægasta, þegar eldgos hefst, sé að ákvarða staðsetningu þess af nokkurri nákvæmni.

„Nú ganga allir með síma í vasanum og þannig fékk ég þessa hugmynd. Síminn þinn veit alltaf hvar þú ert, hann er með innbyggðan áttavita og myndavél,“ útskýrir forritarinn. Þannig geti notandinn beint síma sínum að atburði sem hann sér og „skotið línu“ að þeim atburði. „Og ef þú færð fleiri aðila með þér í málið getið þið saman staðsett atburðinn af mikilli nákvæmni,“ segir Bæring.

Alltaf einhver skekkja

Hann kynnti hugmynd sína fyrir samstarfsfólkinu hjá Aranja í janúar í svokallaðri „hakkviku“, en í henni tekur starfsfólkið sér frí frá hefðbundnum verkefnum, starfsmenn leggja fram hugmyndir og svo er gengið til atkvæða um hverjar þeirra komist áfram í útfærslu. Staðsetningarhugmynd Bærings bar þar sigurorð úr býtum og úr varð smáforrit fyrir síma og tölvur.

Niðurstaða þessarar frumgerðar forritsins leiddi hins vegar í ljós að áttavitar í farsímum eru ekki óskeikulir, langt í frá. „Þar er alltaf einhver skekkja, segjum að hún sé tíu gráður. Og þegar þú ert 50 kílómetra í burtu getur það þýtt töluvert mikla skekkju,“ segir Bæring en ekki þurfi meira en segulsvið frá öðrum raftækjum og hulstrin utan um farsímana til að trufla.

Þar með kviknaði ný hugmynd sem Jón Trausti útskýrir, enda er hún runnin undan rifjum hans. „Við fórum að ræða hvernig við gætum gert þetta nákvæmara og ég spurði mig þá hvernig færi ef við notuðum allar þessar vefmyndavélar, þær eru svo margar á Reykjanesskaganum sem horfa yfir þetta svæði,“ segir Jón Trausti.

Ótrúlega spennandi

Þar með leit önnur frumgerð forrits dagsins ljós sem nýtir sér vefmyndavélarnar á Perlunni og í Selvogi. „Við prófuðum að festa línu gegnum þessar vefmyndavélar. Við vitum staðsetningu vefmyndavélanna og þekkjum sjónsvið þeirra,“ útskýrir Jón Trausti og segir að þegar þeir hafi verið búnir að smíða forrit sem gat reiknað sjónsviðið hafi staðarákvörðunin orðið hárnákvæm.

„Þegar byrjaði að gjósa í gær prófaði ég að fara í appið og festa nokkrar línur. Þá fékk ég strax upp skurðpunkt sem var nákvæmlega þar sem gosið hófst. Það er ótrúlega spennandi hvað við getum gert með þessu tóli. Við notuðum vefmyndavélar frá Live from Iceland, það var bara meira til að prófa frumgerðina og sjá hvort hún virki,“ heldur Jón Trausti áfram.

Kveðast forritararnir tveir nú spenntir fyrir því að fá samstarfsaðila að borðinu við frekari þróun og útfærslu staðsetningarforritsins og benda á notagildi er þeir telja ótvírætt.

Skurðpunkturinn lykillinn

„Það tók okkur 23 sekúndur að staðsetja gosið mjög stuttu eftir að það hófst, þetta gæti einhver vöktunaraðili hjá almannavörnum gert um leið og gos byrjar,“ segir Bæring, „ef þú ert með vefmyndavélar sem horfa yfir Reykjanesskaga þarftu ekki að gera annað en að smella á skjáinn þar sem þú sérð eldgos, þá býrðu til línu frá myndavélinni að atburðinum, gerir svo það sama í annarri vefmyndavél og þar sem línurnar mynda skurðpunkt ertu búinn að staðsetja eldgosið,“ segir hann enn fremur.

Enn sem komið er hafa þeir forritararnir einir aðgang að staðarákvörðunarviðmótinu, „en með samstarfi og áframhaldandi þróun gætum við opnað þetta fyrir alla“, segir Jón Trausti og aðspurðir segja þeir félagar að kostnaður við staðsetningarkerfi þeirra velti á því hve stórt vöktunarnetið eigi að vera, auðveldlega væri hægt að nýta það til að staðsetja eldsvoða í sumarbústöðum, neyðarblys á himni eða jafnvel atburði aftur í tímann, svo sem loftsteina sem skyllu til jarðar.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson