Húsavík Helstu ógnir sem steðja að Húsavík eru stórir jarðskjálftar sem haft geta í för með sér mikla eyðileggingu á innviðum bæjarins.
Húsavík Helstu ógnir sem steðja að Húsavík eru stórir jarðskjálftar sem haft geta í för með sér mikla eyðileggingu á innviðum bæjarins. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helstu hætturnar sem steðja að sveitarfélaginu Norðurþingi eru jarðskjálftar annars vegar og jökulflóð í kjölfar eldgoss í norðanverðum Vatnajökli hins vegar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu um áhættu- og áfallaþol í sveitarfélaginu sem staðfest var í sveitarstjórn 22

Fréttaskýring

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Helstu hætturnar sem steðja að sveitarfélaginu Norðurþingi eru jarðskjálftar annars vegar og jökulflóð í kjölfar eldgoss í norðanverðum Vatnajökli hins vegar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu um áhættu- og áfallaþol í sveitarfélaginu sem staðfest var í sveitarstjórn 22. febrúar. Er greiningin gerð í samræmi við 16. grein laga um almannavarnir.

Í Norðurþingi er að finna bæina Húsavík, Raufarhöfn og Kópasker.

Í skýrslu Gríms Kárasonar, slökkviliðsstjóra í Norðurþingi, kemur fram að hugsanlegar líkur séu á vegrofi á Húsavík, bæði innanbæjar sem og utan bæjarmarkanna, en jarðskjálftar eru taldir líklegasti atburðurinn til að valda slíku innanbæjar. Skriðuföll og flóð úr ám eru þekkt, sérstaklega sunnan við bæinn, í Köldukinn og Ljósvatnsskarði.

Verði stór jarðskjálfti, á bilinu 5 til 6 að stærð, er líklegast að áhrifanna gæti annaðhvort á Húsavík eða Kópaskeri, en önnur áhrifasvæði eru ekki þekkt í sveitarfélaginu. Tjörnesbrotabeltið, sem er annað tveggja þverbrotabelta á Íslandi, liggur í gegnum Norðurþing. Hitt þverbrotabeltið er Suðurlandsbrotabeltið sem tengir Reykjanes og Austurgosbeltið.

Segir í greiningunni að á Húsavík megi gera ráð fyrir því að miðbæjarsvæði bæjarins, frá Búðarárgili að Naustagili, verði hvað verst úti ásamt byggð í austurhluta bæjarins vegna nálægðar við þekkta sprungu í hlíðum Húsavíkurfjalls. Er talið líklegt að veitukerfi fari í sundur með þeim afleiðingum að norðurbærinn verði heita- og kaldavatnslaus. Þá kann að verða rafmagnslaust, en ólíklegt er að það standi yfir lengi vegna þess að hægt er að veita rafmagni til bæjarins úr norðri, frá kísilmálmveri PCC á Bakka sem fær rafmagn sitt frá Þeistareykjavirkjun.

Stjórnsýsluhús Norðurþings á Húsavík er innan líklegs áhrifasvæðis og getur starfsemi þess truflast a.m.k. tímabundið. Er það lagt til að huga skuli að varaaðsetri fyrir neyðarstjórn sveitarfélagsins og yfirstjórn Orkuveitu Húsavíkur.

Á Kópaskeri er þekkt að í stórum jarðskjálfta verði skemmdir á mannvirkjum og rafmagn fari af hluta bæjarins. Þá er einnig þekkt að neysluvatnslagnir bíði skemmdir. Getur slíkt haft mikil áhrif á samfélagið og því þurfi að hugsa leiðir til að tryggja samfélaginu grunnþarfir, mat, húshitun og rafmagn í einhvern tíma eftir atburð.

Hamfaraflóð

Verði eldgos í norðanverðum Vatnajökli, til dæmis í Bárðarbungu, er ein sviðsmyndin sú að hamfaraflóð verði í Jökulsá á Fjöllum með þeim afleiðingum að brýrnar yfir Jökulsá við Grímsstaði á Fjöllum og í Kelduhverfi fari eða skemmist auk alvarlegs vegrofs á þessum stöðum.

Stór hluti Kelduhverfis og hluti Öxafjarðar gætu þá orðið umflotnir vatni með tilheyrandi afleiðingum. Þá séu líkur á að veitumannvirki og spennistöð kunni að eyðileggjast. Því megi leiða að því líkum að bæði heitavatnslaust og rafmagnslaust verði á svæðinu í kjölfarið. Greina þurfi þol samfélagsins skapist þessar aðstæður því hugsanlega verði ekki hægt að koma vistum á svæðið nema sjóleiðina.

Grunn- og leikskólinn í Lundi á Kópaskeri er skilgreindur á áhrifasvæði flóða verði eldgos í jökli.

Þá er eldgos í Öskju einnig talið geta haft tímabundin áhrif á sveitarfélagið í upphafi goss, ef vindátt er óhagstæð sökum gjóskufalls. Ekki er þó talin þörf á sérstökum ráðstöfunum vegna þessa.

Stórir jarðskjálftar

Kópaskersskjálftinn

Síðast varð stór skjálfti á svæðinu 13. janúar árið 1976. Var skjálftinn um 6,3 stig að stærð og hefur hann fengið nafnið Kópaskersskjálftinn. Upptök hans voru undir hafsbotni vestan við Kópasker. Jörð rifnaði, þjóðvegurinn inn í Kópasker var víða sprunginn, hafnargarðurinn í þorpinu sprakk á fjórum stöðum auk þess sem fjöldi annarra smárifa myndaðist, vatnsleiðslan fór í sundur á mörgum stöðum og vatnslaust var í þorpinu, tjörn í austurhluta þess hvarf, mikil eyðilegging varð á íbúðarhúsnæði og öðrum mannvirkjum.

Slys urðu á fólki en engin þó alvarleg. Margir íbúar flúðu til Húsavíkur eða Raufarhafnar, en um 100 manns bjuggu á Kópaskeri þegar skjálftinn varð.