Jón Jóhannsson fæddist 18. apríl 1941. Hann lést 24. febrúar 2024.

Útför Jóns fór fram 8. mars 2024.

Það var mér mikil gæfa að fara vestur í Dali til frændfólks árið 1971. Ég hafði aldrei heyrt um frændfólkið mitt hvað þá séð eða annað. Þannig var tíðarandinn og þótti ekki tiltökumál. Enda var það ekkert mál að vera hjá slíku sómafólki. Þarna hitti ég frænda í fyrsta sinn.

Nonni frændi var um þrítugt þegar ég, strákormurinn, kom ellefu ára fyrst að Staðarhóli. Vorið eftir keypti Jón jörðina Þverfell í sömu sveit, framar í dalnum. Fluttum við þangað fram eftir, sennilega í byrjun júní 1972. Jón hélt þar heimili ásamt foreldrum sínum, Boggu og Jóhanni, upp frá því.

Margs er að minnast frá þessum tíma. Þarna lærði maður að vinna, að hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Lærði að keyra VW bjöllu með ónýtan startara, líka hvernig á að bregðast við ef þú drepur á bjöllunni á miðjum vegi og næsti bíll aðvífandi er mjólkurbíllinn.

Þér var kennt til verka, að vinna verkin af alúð, vandvirkni og samviskusemi. Þér var leiðbeint en aldrei með neinum látum eða hávaða heldur rólega og með ljúfmennsku.

Ekki var heyblásari og handmokuðum við öllu heyi inn. Svo var farið um hlöðuna, troðið niður með veggjunum, hoppað og hamast svo koma mætti fleiri stráum inn. Allt var þetta leikur og vinna. Þegar hækkaði í hlöðunni héngum við frændi á tánum á trébitunum í hlöðuloftinu svo var kútvelst um allt heyið. Við fengum að leika og taka þátt í öllum störfum sem gera þarf á góðu búi. Búið hans Jóns frænda var sannanlega gott sauðfjárbú þar sem fylgst var með öllum gripum. Allar rollur báru sitt nafn og frændi þekkti hverja einustu. Vissi nánast hvar hver og ein hélt sig yfir sumarið. Allt hans bú og störf voru til fyrirmyndar.

Frændi var ekki beint matvandur en eitt og annað var ekki mannamatur, eins og agúrkur, enda ræktaðar úr slönguskít. Reyktur silungur og rauðmagi voru í uppáhaldi. Þá var lag að lauma gúrkusneið undir, fussið og sveiið, maður minn, sennilega fært í stílinn til að við skemmtum okkur betur.

Árið 1977 kynntist Jón konunni sinni, henni Brynju. Ég gleymi seint þegar Brynja mín kom fyrst að Þverfelli og frændi kynnti hana fyrir foreldrum sínum. Hvað Jóhann faðir Jóns ljómaði eins og sól í heiði. Frænka mín var heldur dulari. Sumarið var gott 1977 og við frændur fórum á öll sveitaböll nema eitt. 1978 fórum við á eitt.

Jón hætti búskap um aldamótin vegna erfiðra veikinda og hittumst við oftar eftir það. Komu þau Brynja stundum til okkar Fríðar í læri, frænda þótti gott að fá læri. Það voru góðar stundir. Hann lék við stelpurnar mínar og þáði nýmálaðar piparkökur af þeirra bakka. Jón hafði ótrúlega gott lag á börnum, unglingunum og var einstaklega barngóður. Þar sem hann var voru allir jafnir og nánast á sama aldri. Það væri hægt að segja svo margt um hann frænda minn, eða eins og dóttir hans sagði: „Hann var bóndi, bassaleikari með bítlahár, barnakall, bridgespilari,“ og svo ótal, ótal margt, en fyrst og fremst yndisleg manneskja.

Takk, elsku besti frændi, fyrir að vera vinur minn og svo miklu, miklu meira en það.

Guðlaugur Sæmundsson (Gulli).