Hríð Spáð er langvarandi stórhríð á norðanverðum Vestfjörðum.
Hríð Spáð er langvarandi stórhríð á norðanverðum Vestfjörðum. — Morgunblaðið/Eggert
Næstu daga verður sannkallað vetrarveður á landinu og mun víða snjóa með hvössum vindi og aukinni snjóflóðahættu. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands

Næstu daga verður sannkallað vetrarveður á landinu og mun víða snjóa með hvössum vindi og aukinni snjóflóðahættu. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.

Spár gera ráð fyrir langvarandi stórhríð á norðanverðum Vestfjörðum fram á morgun með tilheyrandi uppsöfnun á snjó. Fyrir er dálítil lausamjöll ofan á eldri snjó. Búast má við miklum skafrenningi á svæðinu og aukinni snjóflóðahættu víða, m.a. á vegum. Í dag og á morgun má búast við snjókomu á sunnanverðum Vestfjörðum.

„Þetta er hríðarveður, Vestfirðingar hafa fengið lítið af því í vetur en þeir eru alvanir þessu,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofunni í samtali við Morgunblaðið, spurður að því hvort einhverjum sérstökum tilmælum sé beint til íbúa landshlutans.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð austanátt í dag með smávægis vætu öðru hverju. Á morgun er spáð suðvestanátt og gæti orðið slyddukennt, alveg eins og á seinnipart miðvikudags.

„Seinnipart vikunnar fer hann í norðanátt og þá er frost og þurrt á höfuðborgarsvæðinu,“ segir veðurfræðingurinn.

Á landinu öllu á morgun er spáð suðvestlægri eða breytilegri átt, 8-15 m/s og éljum, en úrkomulítið verður á Austurlandi. Norðaustan 15-23 m/s og snjókoma á Vestfjörðum, en fer að draga úr vindi og ofankomu þar síðdegis. Hiti í kringum frostmark. Má gera ráð fyrir því að skásta veðrið verði á Austfjörðum, að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. hng@mbl.is