Guðfinnur Hafliði Einarsson fæddist á Fæðingarheimilinu í Reykjavík 30. desember 1981. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á heimili sínu í Kópavogi 4. mars 2024 eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Foreldrar hans eru Einar Pálsson, f. 21. janúar 1955, og Arndís Harpa Einarsdóttir, f. 8. ágúst 1961, búsett í Hafnarfirði.

Systkini Guðfinns eru: Ásdís Ósk Einarsdóttir, f. 15. maí 1979, maki Benjamin Rann, f. 8. mars 1981, börn þeirra eru Freyja, Gaia, Elvis og Jude Kári, þau eru búsett á Nýja-Sjálandi. Bríet Breiðfjörð Einarsdóttir, f. 28. desember 1986, maki Steinar Snæbjörnsson, f. 2. janúar 1982, börn þeirra eru Urður og Flóki, þau eru búsett í Kópavogi. Björg Einarsdóttir, f. 27. júní 1995, maki Daníel Pilkington, f. 28. september 1995, búsett í Reykjavík. Einar Páll Einarsson, f. 18. júní 2006, búsettur í foreldrahúsum í Hafnarfirði.

Guðfinnur hóf sambúð með Heiðrúnu Evu Konráðsdóttur, f. 24. nóvember 1982, á Patreksfirði árið 2014, ári síðar fluttu þau suður og bjuggu síðustu ár í Kópavogi. Börn þeirra eru Sædís Harpa, f. 2. september 2017, og Eysteinn Örvar, f. 20 júlí 2020. Guðfinnur og Heiðrún giftu sig 2. mars 2023.

Að loknu grunnskólanámi stundaði Guðfinnur nám í Iðnskólanum í Hafnarfirði, Stýrimannaskólanum og Fjölbrautaskóla Suðurlands. Guðfinnur var á sjónum í gegnum árin, á strandveiðum, makríl, grásleppu og stærri bátum. Árin 2003-2010 var hann sölustjóri og einn af eigendum heildverslunarinnar Móts ehf. Síðustu tíu ár hefur hann starfað sem sölumaður hjá Stólpa gámum ehf.

Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 18. mars 2024, klukkan 13.

Okkur langar að minnast vinar okkar Guðfinns Einarssonar, eða Guffa eins og hann var alltaf kallaður, sem lést þann 4. mars sl. úr krabbameini aðeins 42 ára gamall. Við vissum af Guffa í gegnum tíðina, höfðum hitt hann af og til þar sem hann er bróðir tengdadóttur okkar, Bríetar. Hann og kona hans, Heiðrún, komu síðan inn í líf okkar þegar þau fluttu inn í íbúð í kjallaranum hjá okkur með Sædísi þriggja ára og Eystein ennþá bumbubúa. Í nábýlinu myndaðist einstök samvera, væntumþykja og virðing milli okkar, enda þau hjón bæði gull af manni og einstaklega vel gerð. Heiðrún og Guffi voru sérlega natin við börnin sín og stoltið leyndi sér ekki og oft og iðulega heyrðust hlátrasköll og önnur gleðilæti úr kjallaranum.

Guffi var sannur Vestfirðingur, harðjaxl á líkama og sál, töffari, gleðipinni og einlægur Liverpool-aðdáandi, en undir niðri leyndist ljúflingur með gott hjartalag. Góð vinátta var milli máganna, Guffa og Steinars okkar, og gaman að fylgjast með þeim félögum ræða fótbolta og fá sér nokkra kalda í heita pottinum. Mikill samgangur var á milli okkar og unga fólksins í húsinu. Allt húsið, garður og pallur varð sameiginlegur verustaður og leiksvæði. Haldin voru barnaafmæli hjá okkur, eða úti ef veður leyfði, og dásamlegt var að upplifa hvað ungu fjölskyldurnar hjálpuðust að við að gera klárt ef eitthvað stóð til. Potturinn var mikið notaður, sérstaklega þegar veðrið var gott. Lífið var gott og framtíðin björt hjá Guffa, Heiðrúnu og börnunum þeirra tveimur. Það var því reiðarslag þegar Guffi greindist með æxli á bak við annað augað sem reyndist illkynja og við tóku sjúkrahúslegur og strangar meðferðir.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með hve samrýndar ungu fjölskyldurnar í Holtagerðinu voru og hve samrýnd og hjálpsöm stórfjölskylda Guffa og Heiðrúnar er. Mikið mæddi á Heiðrúnu en þau sýndu bæði æðruleysi í baráttunni sem greinilega tók sinn toll. Það var notalegt að sitja með Guffa í sólinni fyrir framan hús og eiga spjall um allt og ekkert. Eitt síðdegið sl. haust sátum við á spjalli og að stuttum tíma liðnum voru allir íbúar hússins komnir úr vinnu eða skóla og allt í einu voru foreldrar hans og amma mætt með köku. Úr varð falleg og afslöppuð stund þar sem allir nutu góða veðursins og samverunnar. Ógleymanlegt.

Það var ósvikin gleði og spenningur þegar þau hjón festu kaup á sínu eigin húsnæði sl. haust og fluttu sig neðar í Holtagerðið þar sem þau hafa komið sér vel fyrir. Undanfarin misseri var það augljóst að heilsu Guffa hrakaði og baráttan varð erfiðari. Uppgjöf var ekki til í hans orðaforða og hann hélt í vonina allt til loka.

Elsku Heiðrún, Sædís og Eysteinn, Harpa og Einsi, Ásdís og Ben, Bríet og Steinar, Björg og Daniel, Einar Páll og amma Bríet, ykkar missir er mikill en minningin um góðan dreng lifir áfram. Við viljum votta öllum aðstandendum samúð okkar. Þau hjón og börnin þeirra eiga sérstakan stað í hjarta okkar og munum við gera okkar besta til að vera til staðar fyrir fjölskylduna.

Blessuð sé minning Guðfinns Einarssonar.

Helga og Geir.

Í dag kveðjum við góðan samstarfsmann og félaga, Guðfinn Hafliða Einarsson, sem lést þann 4. mars sl. eftir baráttu við erfið veikindi. Guðfinnur, eða Guffi, eins og hann var oftast kallaður í okkar hópi, var traustur og frábær samstarfsmaður með yfirburðaþekkingu á vörum okkar og lausnum og líka með húmorinn í lagi. Guffi starfaði hjá Stólpa Gámum í rúm tíu ár sem sölumaður og viðskiptastjóri og leysti sín störf einstaklega vel af hendi. Hann kom einnig með reynslu úr fyrra starfi og þekkti verkefnin út og inn. Allar hans tillögur og afgreiðslur til viðskiptavina voru skýrar og með góðum lausnum. Menn vissu að ef Guðfinnur tók málið að sér þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Það mál myndi klárast á besta veg bæði fyrir viðskiptavininn og fyrirtækið. Ekki vissu okkar góðu viðskiptavinir af því að undanfarna mánuði var Guffi oft að senda þeim tölvupóst af sjúkrabeði. Hann var baráttujaxl, vildi sinna vinnunni að heiman og vildi berjast meðan stætt var og að sjálfsögðu studdum við hann í því eins og við höfðum möguleika á.

Það var stutt í hláturinn hjá Guffa þó hann berðist í ójöfnum leik og neistinn slokknaði aldrei, neistinn sem gefur þér möguleika á sigri. Við Guffi vorum líka samherjar í því að vera dyggir stuðningsmenn Liverpool í enska boltanum. Þar var ekki komið að tómum kofunum hjá Guffa. Ég heyrði oft í honum í síma og þá var aðallega verið að ræða verkefni og lausnir sem hann var að vinna að og stundum kom fyrir að við vorum órólegir yfir gengi okkar manna í boltanum, það var nú oftast á léttum nótum. Kannski eigum við samstarfsmenn hans eftir að fara eina ferð á Anfield honum til heiðurs, hver veit. Við myndum þá skála fyrir góðum dreng og grjóthörðum Liverpool-manni.

Ég vil með þessum fáu orðum fyrir hönd stjórnar og starfsmanna Stólpa Gáma þakka Guðfinni fyrir samfylgdina og góðar stundir bæði í starfi og leik. Fjölskyldu Guðfinns sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Börkur Grímsson,
framkvæmdastjóri Stólpa Gáma.