Hrauntungur Á þessari mynd sjást vel hrauntungurnar sem mynduðust í gosinu í fyrrakvöld, þar sem önnur þeirra teygði sig að Svartsengi og Bláa lóninu, en hin í suðurátt að Grindavík.
Hrauntungur Á þessari mynd sjást vel hrauntungurnar sem mynduðust í gosinu í fyrrakvöld, þar sem önnur þeirra teygði sig að Svartsengi og Bláa lóninu, en hin í suðurátt að Grindavík. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjöunda eldgosið í eldgosahrinunni á Reykjanesskaga hófst á laugardagskvöldið. Braust gosið út á Sundhnúkagígaröðinni á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, fremur nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og gosið sem varð 8

Sjöunda eldgosið í eldgosahrinunni á Reykjanesskaga hófst á laugardagskvöldið. Braust gosið út á Sundhnúkagígaröðinni á milli Hagafells og Stóra-Skógfells, fremur nær Stóra-Skógfelli, á svipuðum stað og gosið sem varð 8. febrúar.

Gosið hófst klukkan 20.23 en mjög lítill fyrirvari var á upphafi þess. Varð nokkurra jarðskjálfta vart við Stóra-Skógfell um klukkutíma fyrir gosið, en enginn þeirra var yfir 2 að stærð. Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að viðvörunarþrepið sem miðað var við hafi verið of hátt fyrir þennan atburð. Því þyrfti að lækka þröskuldinn.

Tvær hrauntungur

Mikill kraftur var í gosinu í upphafi og myndaðist gossprunga sem var um 3,5 kílómetrar að lengd. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við mbl.is í fyrrakvöld að gosið virtist vera kröftugra en öll fyrri gos sem hefðu komið upp á Reykjanesskaga síðastliðin þrjú ár.

Var neyðarstigi almannavarna fljótlega lýst yfir og hófst rýming í Grindavík og í Bláa lóninu. Gekk rýmingin á báðum stöðum vel fyrir sig en í Bláa lóninu voru 700-800 manns, gestir og starfsfólk, og voru gestirnir nokkuð skelkaðir.

Tvær hrauntungur mynduðust á laugardagskvöldið og fór önnur þeirra yfir Grindavíkurveg laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags á svipuðum stað og þar sem hraun fór yfir veginn í febrúargosinu. Rann hraunið norðan við varnargarðana við orkuverið í Svartsengi.

Hin hrauntungan hélt hins vegar í suðurátt og rann hraunið meðfram varnargarðinum L-12, sem liggur við Grindavík. Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is í fyrrinótt, að varnargarðarnir hefðu þar sannað gildi sitt, en án þeirra hefði hraunið líkast til runnið yfir byggð og út í sjó við Grindavíkurhöfn.

Þess í stað beindist hraunstraumurinn að Suðurstrandarvegi rétt vestan við sveitabæinn Hraun. Var ákveðið í fyrrinótt að reisa varnargarð við Hraun til þess að reyna að koma í veg fyrir að hraunflæðið næði að bænum.

Dró úr krafti gossins

Í fyrstu var óttast að eldgosið gæti jafnvel náð alla leið út í sjó, en það myndi leiða af sér að klórsalt og aðrar hættulegar gastegundir mynduðust. Nokkuð dró þó úr þeim áhyggjum í gærmorgun, en þá virtist sem nokkuð hefði dregið úr krafti gossins. Stóðu vonir jafnvel til þess að eldgosinu myndi ljúka í gær. Svo varð þó ekki, og hélt hraunið áfram að skríða í átt að Suðurstrandarvegi í gær. Um eftirmiðdaginn var áætlað að það færi fram um 12 metra á klukkustund, og virtist gosið halda þeim hraða fram eftir kvöldi.

Þegar Morgunblaðið fór í prentun var hraunjaðarinn í rúmlega 330 metra fjarlægð frá Suðurstrandarvegi, en samkvæmt útreikningum Veðurstofunnar gæti hraunið náð veginum eftir hádegi í dag.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið að hann eigi ekki von á að hraunið nái yfir Suðurstrandarveg og út í sjó í þessu gosi. Það gæti þó alltaf gerst síðar.