Vottað Íbúðakjarni við Hagasel 23 í Reykjavík hefur fengið Svansvottun.
Vottað Íbúðakjarni við Hagasel 23 í Reykjavík hefur fengið Svansvottun. — Ljósmynd/Reykjavíkurborg
Fyrsta Svansvottaða húsið á vegum Reykjavíkurborgar var afhent formlega fyrir helgi. Um er að ræða íbúðakjarna við Hagasel 23 og eru Félagsbústaðir leyfishafinn. Mun þetta einnig vera í fyrsta sinn sem opinber aðili er leyfishafi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg

Fyrsta Svansvottaða húsið á vegum Reykjavíkurborgar var afhent formlega fyrir helgi. Um er að ræða íbúðakjarna við Hagasel 23 og eru Félagsbústaðir leyfishafinn. Mun þetta einnig vera í fyrsta sinn sem opinber aðili er leyfishafi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna og er meginmarkmið hans að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins annars staðar á Norðurlöndum.

Í tilkynningu borgarinnar segir m.a. að Svansvottun Hagasels 23 tryggi að húsið sé vistvænt, gott fyrir heilsuna og umhverfið og eiturefni séu ekki notuð við byggingu þess.

Sjö íbúða hús

„Allt í byggingunni sem og byggingaraðferðir eru svansvottaðar. Eru til að mynda gerðar nákvæmari kröfur um raka meðan á byggingartíma stendur auk þess sem vatnsnotkun og efnisúrgangi er haldið í lágmarki,“ segir í tilkynningunni en Ydda arkitektar sáu um hönnun hússins.

Hagasel 23 er sjö íbúða hús fyrir fatlað fólk auk aðstöðu vegna þjónustu við íbúana. Um er að ræða timburhús á tveimur hæðum og er það innst í botnlanga í Hagaselinu. Á efri hæðinni eru litlar svalir og lítil verönd framan við íbúðir á neðri hæð. Garðurinn er að öðru leyti sameiginlegur og gert er ráð fyrir að þar sé hægt að rækta grænmeti.