Kynning Fyrirtækin fá fimm mínútur.
Kynning Fyrirtækin fá fimm mínútur. — Ljósmynd/Norðurátt
Sævar Breki Einarsson saevar@mbl.is Fjárfestahátíðin Norðanátt fer fram á Siglufirði á miðvikudag en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. Hátíðin er vettvangur fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem leita eftir fjármagni og eru tilbúin að fá fjárfesta að borðinu. Átta teymi taka þátt í ár frá öllum landshlutum auk þess sem fulltrúar gestaverkefnis frá Færeyjum verða á hátíðinni.

Sævar Breki Einarsson

saevar@mbl.is

Fjárfestahátíðin Norðanátt fer fram á Siglufirði á miðvikudag en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin. Hátíðin er vettvangur fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem leita eftir fjármagni og eru tilbúin að fá fjárfesta að borðinu. Átta teymi taka þátt í ár frá öllum landshlutum auk þess sem fulltrúar gestaverkefnis frá Færeyjum verða á hátíðinni.

Markmið hátíðarinnar er að draga fram tækifæri til uppbyggingar á atvinnuvegum og efla nýsköpun í kringum auðlindir landsbyggðarinnar. Verkefnastjóri Norðanáttar, Kolfinna María Níelsdóttir, segir að umfang hátíðarinnar verði meira með hverju ári.

Hringrás sköpunar

„Norðanáttin byrjaði árið 2021 og við ákváðum að byrja það sem við köllum hringrás nýsköpunar. Svo varð þessi fyrsta frumkvöðlahátíð árið 2022 og þá voru tíu teymi á Norðurlandi sem tóku þátt. Það heppnaðist svo vel að við ákváðum að stækka hátíðina og fórum í samstarf við öll landshlutasamtökin og opnuðum hátíðina fyrir öllu landinu,“ segir Kolfinna María.

Í fyrra voru 14 teymi frá öllum landshlutum sem tóku þátt og heppnaðist það ótrúlega vel að Kolfinnu sögn. „Við erum að nýta öll flottu og fínu menningarlegu húsin á Siglufirði, Síldarminjasafnið, Kaffi Rauðku og Segul 67 og reynum að lyfta bænum upp á okkar hátt á sama tíma.“

„Hátíðin hefst með ráðstefnu um morguninn þar sem rætt verður um hnattræna hugsun og talað verður um verðmætasköpun í heimabyggð og fjárfestatækifæri í kringum auðlindir landsins. Við fáum flotta fjárfesta, lífeyrissjóð og englafjárfesta til þess tala að á ráðstefnunni. Eftir hádegi eiga frumkvöðlateymin sviðið, þau stíga um borð í bátinn í Síldarminjasafninu og gestir sitja á bryggjunni og fylgjast með. Í kjölfar þess er stefnumót í Salthúsinu þar sem fyrirtækin eru með kynningarbása og fólk labbar um og kynnist þeim betur,“ segir Kolfinna að lokum.