Listaverk Sæmundur á selnum.
Listaverk Sæmundur á selnum. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Stúdentafélag Reykjavíkur samþykkti á aðalfundi sínum nýverið að skora á Háskóla Íslands að ljúka við gerð gosbrunns og tjarnar umhverfis styttuna af Sæmundi á selnum, líkt og listamaðurinn Ásmundur Sveinsson hugsaði sér

Stúdentafélag Reykjavíkur samþykkti á aðalfundi sínum nýverið að skora á Háskóla Íslands að ljúka við gerð gosbrunns og tjarnar umhverfis styttuna af Sæmundi á selnum, líkt og listamaðurinn Ásmundur Sveinsson hugsaði sér.

Styttan var á sínum tíma gjöf Stúdentafélagsins til Háskóla Íslands. Í ályktun um þetta efni segir að Stúdentafélagið telji „fyllilega tímabært að Háskóli Íslands sýni listamanninum og þessu merka listaverki verðugan sóma, en því fer fjarri að búið hafi verið að verkinu þannig að það sjálft og sú saga sem það geymir fái notið sín sem skyldi“.

Aðalfundurinn fór fram á Hótel Holti á dögunum. Stúdentafélagið er eitt elsta starfandi félag landsins, stofnað 1871, en tilgangur þess er „að vinna að blómlegu og þjóðlegu stúdentalífi“, eins og það er orðað í lögum félagsins.

Einnig var samþykkt ályktun um að minnismerki Jónasar Hallgrímssonar verði fundinn staður vestur á Melum, nærri Landsbókasafni og Eddu, húsi íslenskunnar. Styttu Einars Jónssonar af Jónasi var upphaflega komið fyrir á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs árið 1907 til að minnast þess að öld var liðin frá fæðingu Jónasar, en Stúdentafélagið átti frumkvæði að gerð og uppsetningu þessa líkneskis.

Talsverð endurnýjun varð í stjórn Stúdentafélagsins að þessu sinni. Tryggvi Agnarsson hæstaréttarlögmaður lét af formennsku en nýr formaður var kjörinn Björn Jón Bragason verslunarskólakennari. Tryggvi var þó endurkjörinn í stjórn félagsins en aðrir í aðalstjórn eru þeir Jakob Birgisson skemmtikraftur, Ólafur Egilsson fyrrv. sendiherra og Snorri Másson ritstjóri.