Truman Capote Var alveg skelfilega vansæll.
Truman Capote Var alveg skelfilega vansæll. — Wikipedia/Jack Mitchell
Næstsíðasta þættinum af Capote vs. The Swans, sem Sjónvarp Símans sýnir, lauk þannig að alls ómögulegt var að átta sig á því hvað í ósköpunum ætti að gerast í síðasta þættinum. Nema þá hann myndi gerast á himnum, þar sem persónur væru vonandi alsælar

Kolbrún Bergþórsdóttir

Næstsíðasta þættinum af Capote vs. The Swans, sem Sjónvarp Símans sýnir, lauk þannig að alls ómögulegt var að átta sig á því hvað í ósköpunum ætti að gerast í síðasta þættinum. Nema þá hann myndi gerast á himnum, þar sem persónur væru vonandi alsælar.

Það er ástæða til að bera mikið lof á þessa þætti sem skörtuðu stórstjörnum. Tom Hollander var hreint stórkostlegur í hlutverki hins samkynhneigða, sjálfhverfa og vansæla rithöfundar Truman Capote. Hann á skilið öll möguleg verðlaun fyrir magnaða frammistöðu sína. Svo sást langar leiðir hvað honum fannst gaman að hlutverkinu, það var eins og hann tísti nánast af kæti innra með sér. Stórstjörnurnar sem léku vinkonur hans voru allar verulega góðar í hlutverkum sínum og það sást einnig að þær skemmtu sér.

Svo kom lokaþátturinn og auðvitað gerðist hann ekki í himnaríki, þótt það hefði óneitan­lega verið skemmtilegt og öðruvísi. Síðasti þátturinn var reyndar ekkert frumlegur og ekki með þeim betri í seríunni, en samt alveg ágætur. Lokaatriðið var snjallt og sýndi manni að í þeim gerviheimi sem of margt forríkt fólk lifir í þá er hægt að kaupa allt borgi maður nóg, meira að segja líkamsleifar frægs einstaklings.