Tim Cook
Tim Cook
Bandaríski tæknirisinn Apple hefur fallist á að greiða 490 milljónir dala til að binda enda á hópmálsókn sem höfðuð var vegna ummæla sem forstjórinn Tim Cook lét falla árið 2018. Málið hefur verið rekið fyrir dómstólum í Kaliforníu og snýr að því að …

Bandaríski tæknirisinn Apple hefur fallist á að greiða 490 milljónir dala til að binda enda á hópmálsókn sem höfðuð var vegna ummæla sem forstjórinn Tim Cook lét falla árið 2018.

Málið hefur verið rekið fyrir dómstólum í Kaliforníu og snýr að því að Apple tilkynnti í janúar 2019 að félagið vænti allt að 9 milljarða dala samdráttar í tekjum þann fjórðunginn vegna vaxandi spennu á milli Bandaríkjanna og Kína.

Á símafundi með hluthöfum í nóvember 2018 var Tim Cook spurður um tekjuhorfurnar og sagði hann þá að vegna veikara gengis gæti reynst erfiðara að selja Apple-vörur í Brasilíu, Indlandi, Rússlandi og Tyrklandi en að hann „myndi ekki setja Kína í þann hóp“. Nokkrum dögum síðar á Apple að hafa beðið birgja sína að draga úr framleiðslu Apple-raftækja.

Reuters greinir frá því að tilkynningin í janúar 2019 hafi valdið því að hlutabréfaverð Apple lækkaði um 10% næsta dag svo að markaðsvirði félagsins rýrnaði um 74 milljarða dala á einu bretti.

Apple neitar sök í málinu en kveðst hafa ákveðið að greiða málshöfðendum til að spara sér þann kostnað og ónæði sem hefði fylgt því að halda uppi vörnum. Þó að upphæðin sé há mun Apple ekki eiga í nokkrum vanda með að greiða hana en hagnaður félagsins nam 97 milljörðum dala á síðasta rekstrarári. Þá hefur markaðsvirði Apple fjórfaldast frá því í janúar 2019. ai@mbl.is