ÓL Dagur Sigurðsson byrjar á þremur sigrum með Króatíu.
ÓL Dagur Sigurðsson byrjar á þremur sigrum með Króatíu. — AFP/Ronny Hartmann
Dagur Sigurðsson þjálfari Króatíu og Alfreð Gíslason þjálfari Þýskalands tryggðu liðum sínum sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar með því að ná efstu tveimur sætum síns riðils í undankeppni leikanna í handknattleik karla

Dagur Sigurðsson þjálfari Króatíu og Alfreð Gíslason þjálfari Þýskalands tryggðu liðum sínum sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar með því að ná efstu tveimur sætum síns riðils í undankeppni leikanna í handknattleik karla.

Riðill Króatíu, Þýskalands, Austurríkis og Alsír var leikinn í Hannover í Þýskalandi. Króatía vann alla þrjá leiki sína og vann þar með riðilinn.

Dagur tók nýverið við sem landsliðsþjálfari Króatíu og fer því fullkomlega af stað í nýju starfi. Þess má geta að hann hafði þegar tryggt Japan sæti á leikunum.

Lærisveinar Alfreðs í Þýskalandi reyndust stærsta prófraunin og hafði Króatía betur, 33:30, á laugardag.

Vegna tapsins gegn Króatíu þurfti Þýskaland á sigri að halda gegn Austurríki í gær. Þjóðverjar stóðust prófið, unnu 34:31, og tryggðu sér um leið annað sætið í riðlinum.

Þar með er ljóst að Alfreð stýrir Þýskalandi til ársins 2027, en ákvæði var í samningnum, sem hann skrifaði undir í byrjun mánaðarins, um að samningurinn félli úr gildi tækist liðinu ekki að tryggja sér sæti á leikunum.

Aron Kristjánsson fór einnig með Barein í undankeppni leikanna og lék í Granollers á Spáni. Barein var í riðli með Spáni, Slóveníu og Brasilíu en þar reyndist við ofurefli að etja og allir leikirnir töpuðust. Spánn og Slóvenía tryggðu sér sæti á leikunum.

Noregur og Ungverjaland gerðu slíkt hið sama í þriðja riðlinum, sem leikinn var í Ungverjalandi.