St. Pétursborg Langar biðraðir mynduðust við kjörstaði í Rússlandi um hádegið í gær, en þá höfðu stuðningsmenn Navalnís boðað til mótmæla þar.
St. Pétursborg Langar biðraðir mynduðust við kjörstaði í Rússlandi um hádegið í gær, en þá höfðu stuðningsmenn Navalnís boðað til mótmæla þar. — AFP/Olga Maltseva
Vladimír Pútín var í gær endurkjörinn forseti Rússlands til næstu sex ára, en samkvæmt útgönguspám hlaut hann um 87% greiddra atkvæða. Þó að þrír væru í boði gegn Pútín lék aldrei vafi á hver niðurstaða kosninganna yrði og sögðu m.a

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vladimír Pútín var í gær endurkjörinn forseti Rússlands til næstu sex ára, en samkvæmt útgönguspám hlaut hann um 87% greiddra atkvæða. Þó að þrír væru í boði gegn Pútín lék aldrei vafi á hver niðurstaða kosninganna yrði og sögðu m.a. stjórnvöld í Póllandi að kosningarnar sjálfar gætu ekki talist löglega haldnar.

Langar biðraðir mynduðust fyrir utan kjörstaði innan Rússlands upp úr hádegi að staðartíma í gær eftir að stuðningsmenn Alexeis Navalnís ákváðu að flykkjast á kjörstað í mótmælaskyni. Mótmælin teygðu anga sína út fyrir landamæri Rússlands, og var einnig mótmælt við sendiráð Rússlands í flestum ríkjum Evrópu, þar á meðal hér á landi, þar sem hópur Rússa kom saman við sendiráðið í Túngötu á hádegi.

Áætlað er að þúsundir Rússa hafi tekið þátt í hádegismótmælunum, og birtust myndir á rússneskum samfélagsmiðlum í gær sem sýndu fólk í röðum, en fátítt er að biðraðir myndist við kjörstaði þegar kosið er í Rússlandi. Var mótmælendum í sjálfsvald sett hvort þeir myndu greiða atkvæði gegn Pútín eða skemma kjörseðil sinn.

Júlía Navalnaja ekkja Navalnís sem boðaði til mótmælanna „Hádegi gegn Pútín“, tók sjálf þátt í þeim í Berlín, þar sem boðið var upp á utankjörfundarkosningu. Var henni tekið fagnandi af öðrum mótmælendum sem hrópuðu nafn hennar. „Auðvitað skrifaði ég nafn Navalnís,“ sagði Júlía eftir á. „Það gengur ekki upp að mánuði fyrir forsetakosningar sé helsti andstæðingur Pútíns, sem var þegar í fangelsi, myrtur.“

Rússnesku mannréttindasamtökin OVD-Info greindu frá því um eftirmiðdaginn í gær að minnst 74 manns hefðu verið handteknir í 17 borgum í Rússlandi vegna mótmæla á kjörstað.

Kosningarnar ekki frjálsar

Með kosningunni í gær hefur Pútín tryggt sjálfum sér völdin til ársins 2030 hið minnsta. Nái hann að sitja út tímabilið mun hann hafa verið valdamesti maður Rússlands í þrjá áratugi, eða lengur en nokkur annar í samtímasögu landsins að frátöldum Stalín, sem réð ríkjum í Sovétríkjunum í 31 ár, frá 1922 til 1953.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær að Pútín væri valdagráðugur einræðisherra. „Það er öllum í heiminum ljóst að þessi fígúra – líkt og gerst hefur svo oft í sögunni – er einfaldlega veik vegna valda sinna og gerir allt sem í sínu valdi stendur til þess að halda þeim að eilífu. Það er ekkert verk svo illt að hann muni ekki vinna það til þess að halda persónulegum völdum sínum,“ sagði Selenskí á samfélagsmiðlum.

Vesturveldin hafa einnig gagnrýnt kosningarnar og framkvæmd hennar. Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, hafði þegar óskað Pútín til hamingju með „yfirburðasigur“ sinn á föstudaginn, fyrsta dag kosninganna, enda þótti þá þegar augljóst hver niðurstaða þeirra yrði. „Forsetakosningarnar í Rússlandi eru ekki löglegar, frjálsar eða heiðarlegar,“ sagði í yfirlýsingu pólska utanríkisráðuneytisins í gær, þar sem kosningarnar hefðu farið fram á meðan rússneskt samfélag væri undir mikilli kúgun. Þá hefðu þær einnig farið fram á landsvæði Úkraínu í trássi við alþjóðalög.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, tók í sama streng og sagði augljóst að kosningarnar væru brogaðar í ljósi þess að Pútín hefði fangelsað alla helstu andstæðinga sína, á sama tíma og kjörstjórn Rússlands meinaði öðrum að bjóða sig fram.

Þýska utanríkisráðuneytið bætti um betur og sagði á Twitter-síðu sinni að kosningarnar hefðu verið „gervi-kosningar“ þar sem úrslitin kæmu engum á óvart. Sagði ráðuneytið að Pútín héldi uppi einræðisstjórnarfari og treysti á ritskoðun, kúgun og ofbeldi til að halda völdum. Þá væru „kosningarnar“ á hinum hernumdu svæðum Úkraínu ógild og ólögleg.

Héldu uppi árásum

Það setti svip sinn á kosningarnar að Úkraínumenn héldu uppi loftárásum á Rússland á sama tíma og rússneskir uppreisnarhópar sem barist hafa með Úkraínumönnum gerðu minni háttar árásir á Belgorod- og Kúrsk-héruð.

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í gær að Úkraínumenn hefðu ráðist á minnst átta héruð um helgina. Þá þurfti að loka flugvöllum Moskvuborgar tímabundið í gær vegna drónaárása frá Úkraínu, en auk þess var umferð stöðvuð um Kertsj-brúna við Krímskaga vegna mögulegra árása.

Neyddust yfirvöld í Belgorod-héraði til að loka skólum og búðum í gær vegna loftárása Úkraínumanna, og verður ekkert skólahald í héraðinu í dag og á morgun.

Árásir Úkraínumanna hafa einnig beinst að olíuhreinsistöðvum Rússa í síauknum mæli. Dmitrí Asarov, héraðsstjóri Samara-héraðs sem liggur suðaustan við Moskvuborg, sagði á laugardaginn að sjálfseyðingardrónar hefðu ráðist á tvær olíuhreinsistöðvar í héraðinu. Hefði eldur kviknað í annarri þeirra, en ekkert mannfall varð.

Mótmælendur höfðu einnig tekið til sinna ráða á bæði föstudag og laugardag með því að valda skemmdum á kjörkössum. Var bleki hellt í a.m.k. fimm kjörkassa til þess að eyðileggja atkvæðaseðla, auk þess sem reynt var að kveikja í nokkrum kjörkössum. Þá sögðu rússneskir ríkisfjölmiðlar að skemmdarvargar hefðu kveikt í flugeldum innandyra á kjörstað á nokkrum stöðum.