Athyglisvert viðtal við sendiherra Bandaríkjanna, Carrin F. Patman

Í athyglisverðu viðtali Morgunblaðsins um helgina við sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carrin F. Patman, kemur fram að með hliðsjón af stöðu heimsmála um þessar mundir séu öryggismálin þýðingarmikil í samstarfi Bandaríkjanna og Íslands. Vegna landfræðilegrar staðsetningar sé Ísland afar mikilvægt „fyrir Bandaríkin og bandalagsríkin í NATO í eftirliti með ferðum kafbáta og hugsanlegum ógnum við öryggi í heiminum“.

Patman segist vilja byggja á þessu varnarsamstarfi. Þá segir hún að Íslendingar hafi „af rausnarskap heimilað áhöfnum kafbáta að sækja heilbrigðisþjónustu hér á landi ef þörf krefur. Jafnframt geta áhafnirnar endurnýjað vistir. Það er afar þýðingarmikið í ljósi stöðunnar í heiminum vegna þess að auðvitað senda Rússar kafbáta sína á þessar slóðir. Og nú þegar Rússar eru orðnir ágengari í heimsmálunum er gríðarlega mikilvægt að þetta samstarf haldi áfram.“

Undir þetta má taka og auðvitað á Ísland að styðja við bandalagsþjóðir sínar með öllum ráðum, þar með talið þjónustu við kafbáta, þó að Íslendingar eigi ekki her og geti ekki lagt neitt af mörkum með beinum hætti í þeim efnum.

Sendiherrann segist einnig telja að NATO verði alltaf með viðveru hér og nefnir að Bandaríkin séu nú „að senda hingað flugvélar sem hafa eftirlit með ferðum kafbáta. Þær eru alltaf að sinna eftirliti í GIUK-hliðinu. Við höfum um 200 manna lið sem flýgur þessum vélum, kemur hingað og dvelur hér í nokkra mánuði. NATO hefur eftirlit með lofthelginni og sinnir loftrýmisgæslu með orrustuþotum þrisvar á ári. Bandaríkin senda yfirleitt þotur í þessa gæslu.“

Þessi viðvera NATO-ríkjanna, ekki síst Bandaríkjanna, hefur mikla þýðingu fyrir öryggi Íslands. Sérstakt varnarsamband Íslands og Bandaríkjanna, auk veru Íslands í NATO, er það sem tryggir öryggi landsins. Jákvætt er að sendiherra Bandaríkjanna hér á landi hafi á þessu góðan skilning.