Á vinnustað Styrkja á eftirlit á vinnumarkaði og sporna gegn brotum.
Á vinnustað Styrkja á eftirlit á vinnumarkaði og sporna gegn brotum. — Morgunblaðið/Eggert
Bæta á samstarf eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði til að styrkja og bæta eftirlitið og auka á heimildir Vinnueftirlitsins til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum

Bæta á samstarf eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði til að styrkja og bæta eftirlitið og auka á heimildir Vinnueftirlitsins til að beita viðurlögum vegna brota á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Þetta er meðal þess sem lagt er til í drögum að frumvarpi félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar á ýmsum lögum um vinnumarkaðinn hvað varðar einkum samstarf og eftirlit á vinnumarkaði. Drögin hafa verið birt í samráðsgátt.

Lagt er til að komið verði á fót sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Fjórir ráðherrar eigi fast sæti í henni og fulltrúar heildarsamtaka vinnumarkaðarins, m.a. SA, ASÍ, BSRB, og BHM, Ríkislögreglustjóra, Skattsins, Útlendingastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Vinnueftirlitsins. Á hún m.a. að koma með tillögu að stefnu og aðgerðaáætlun gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Auk þessa á að koma á fót samstarfsvettvangi lögreglustjóra, Skattsins og Vinnueftirlitsins til að efla eftirlitið á vinnumarkaði og standa að sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði, greiningarvinnu og upplýsingamiðlun og eiga í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins m.a. um sameiginlegt vinnustaðaeftirlit.

Fagfélögin hafa sent inn umsögn og vilja m.a. að samstarfsnefndinni verði falið að gera aðgerðaáætlun gegn mansali, tillögur um ný refsiákvæði við brotastarfsemi á vinnumarkaði o.fl. Einnig vilja þau að samtök aðila vinnumarkaðarins eigi fulltrúa á samstarfsvettvanginum.

Eftirlit færist frá Vinnumálastofnun til Vinnueftirlitsins

Ein af meginbreytingunum sem boðaðar eru í drögunum er að eftirlit með brotastarfsemi á vinnumarkaði færist frá Vinnumálastofnun til Vinnueftirlitsins. Á það m.a. að leiða til markvissara eftirlits á vinnumarkaði.

„Með breytingum á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, er í frumvarpi þessu lagt til að heimildir Vinnueftirlitsins til að beita viðurlögum verði auknar á grundvelli laganna, meðal annars í því skyni að gera stofnuninni kleift að bregðast á viðeigandi hátt við alvarlegum brotum gegn ákvæðum laganna sem geta ógnað öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum,“ segir í greinargerð.

Lögð eru til viðbótarákvæði við lögin um aukin viðurlög við ýmsum brotum sem geti varðað sektum eða fangelsi, allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við samkvæmt öðrum lögum.

Enn fremur eru Vinnueftirlitinu færðar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir vegna ýmissa brota sem talin eru upp í 14 liðum. Getur stjórnvaldssekt sem lögð er á atvinnurekanda numið allt að 15 milljónum og allt að einni milljón ef hún er lögð á starfsmann sem brýtur gegn tilteknum ákvæðum laganna. omfr@mbl.is