Vampíra Fremstur er Þórsteinn Leó Gunnarsson, fyrir aftan f.v. Sindri Þór Atlason, Óðinn, Reynir Bergmann Guðmundsson og Heiðar Jóhannsson.
Vampíra Fremstur er Þórsteinn Leó Gunnarsson, fyrir aftan f.v. Sindri Þór Atlason, Óðinn, Reynir Bergmann Guðmundsson og Heiðar Jóhannsson. — Ljósmynd/Brynjar Gunnarsson
„Við áttum alls ekki von á þessu, ég öskraði bara WHAT THE FUCK aftur og aftur, síðan flaug ég fram fyrir mig inn á sviðið,“ segir Óðinn Rafn Jónsson Snædal, söngvari svartþungarokkssveitarinnar Vampíru, þegar hann er spurður hvernig…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Við áttum alls ekki von á þessu, ég öskraði bara WHAT THE FUCK aftur og aftur, síðan flaug ég fram fyrir mig inn á sviðið,“ segir Óðinn Rafn Jónsson Snædal, söngvari svartþungarokkssveitarinnar Vampíru, þegar hann er spurður hvernig þeim félögum hans hafi orðið við þegar tilkynnt var að þeir hefðu unnið Músíktilraunir 2024, en í beinu streymi frá úrslitunum mátti sjá hvernig Vampírumeðlimir hlupu öskrandi upp um hálsinn á Einari borgarstjóra og tóku með honum kröftugt fagnaðarhopp þegar hann tilkynnti að þeir væru sigurvegarar.

„Að sigra kom okkur mikið á óvart, okkur fannst það eitt að fá að spila og taka þátt í keppninni mikill heiður, en sannarlega enn meiri heiður að sigra. Við erum fyrsta svartmálmshljómsveitin sem hefur unnið frá því keppnin fór af stað fyrir rúmum 40 árum. Við viljum lífga svartmálminn við, með Vampíru viljum við sýna að svartmálmur er ekki að deyja.“

Sviðsframkoman skiptir máli

Þegar Óðinn er spurður hvernig hann lýsi tónlist Vampíru segir hann að listsköpun þeirra sé atmospheric black metal, en þá er mikið lagt upp úr að skapa ákveðið andrúmsloft eða stemningu.

„Okkar helstu áhrifavaldar eru Mgła, Dark Funeral og fleiri bönd, en við erum með okkar eigið „sánd“ í svartmálmi okkar,“ segir Óðinn og bætir við að öll sviðsframkoma þeirra skipti máli, hvernig þeir hagi sér á sviðinu þegar þeir spila og hverju þeir klæðist, en á Músíktilraunum voru þeir með andlitið hulið með svartri grímu og Óðinn var með málmhanska með hvössum glampandi klóm.

„Þetta er það sem fólk vill sjá og orkan sem við viljum gefa frá okkur á að vera drungaleg því við lýsum kulda, náttúru og lífserfiðleikum í gegnum tónlistina. Þar er þó nokkurt djöfulsins myrkur, en ég skrifaði textana að Bálför, Lúpínu og Synd, lögunum þremur sem við fluttum.“

Góð tenging á milli okkar allra

Óðinn segir hugmyndina að Vampíru hafa orðið til hjá sér og Heiðari fyrir ári, í fyrravor.

„Við kynntumst Þórsteini ryþmagítarleikara þegar við byrjuðum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, þar sem við vorum allir saman í tónlistarvali, og þá varð Vampíra opinberlega til. Við hittum svo Reyni bassaleikara okkar á Metal Fest í fyrrahaust og hann bættist þá í hópinn og trommaranum Sindra kynntumst við á Facebook þegar við vorum að leita að trommara fyrir tónleika með annarri hljómsveit. Vampíra hefur verið að æfa og spila saman svartmálm síðan í september og núna er komin mjög góð tenging á milli okkar allra. Orkan í bandinu er góð.“

Strákarnir í Vampíru eru allir Reykvíkingar, nema Sindri trommari, hann býr í Keflavík.

„Hann þarf að keyra svolítið langt á æfingar því aðeins einn okkar hinna er með bílpróf og við erum auk þess með drulluþunga magnara, en Sindri þarf að koma á aðrar æfingar í bænum.“ Þegar Óðinn er spurður hver bakgrunnur þeirra í tónlist sé segir hann Reyni bassaleikara hafa verið í klassísku píanónámi hjá Þráni í Skálmöld, Steini hafi verið í gítarnámi og Sindri spilað á trommur í mörg ár, enda elstur þeirra.

„Heiðar er sjálfmenntaður á gítarinn og ég byrjaði að syngja vegna þess að ég heillaðist af ástralska söngvaranum Mik Annetts sem er í íslensku hljómsveitinni Kookaveen. Söngur hans gefur mér mikinn innblástur og auk þess er hann mikill fjölskylduvinur og kenndi mér flest sem ég kann í söng.“

Passar vel upp á röddina

Vampíra söng sín þrjú lög á Músíktilraunum á íslensku, en Óðinn segir að langflest lögin á plötu sem þeir eru að vinna að núna séu á íslensku.

„Af því að móðurmálið okkar er svo flott tungumál í svartmálminum, framburður á íslenskum orðum er „kvlt“ eins og sagt er innan þess heims.“

Óðinn segist þurfa að passa vel upp á röddina til að geta öskursungið með þeim hætti sem hann gerir í Vampíru, án þess að missa röddina.

„Ég þarf að hita upp og mýkja raddböndin í heila viku fyrir tónleika, drekka sítrónute með hunangi, engiferskot og ananassafa sem býr til góða húð inni í hálsinum. Ég drekk volgt vatn fyrir tónleika og hita hálsinn með því að nudda hann með höndunum. Ég geri líka öndunaræfingar og æfi mig í að gera svartmálmshljóð með því að nota þindina en ekki hálsinn, þetta er ákveðin tækni.“

Óðinn segir mikið að gerast hjá Vampíru núna. „Við munum spila í desember á Andkristni, svartmálmshátíð á Gauknum, síðan fengum við í verðlaun að spila á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður og líka á Iceland Airwaves í haust. Við förum líka eitthvað til útlanda að spila og svo þurfum við að taka upp plötuna okkar í Stúdíó Sundlaug.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir